Birt þann 15. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Saga leikjatölvunnar, 4. hluti (2009 – 2011)
eftir Bjarka Þór Jónsson
Smelltu hér til að lesa 3. hluta.
Nintendo hefur náð að heilla marga spilara upp úr skónum með Wii leikjatölvunni og handheldu leikjatölvunni Nintendo DS. Samkvæmt tölum VGChartz hafa þessar tvær tölvur selst í lang flestum eintökum af sjöundu kynslóð leikjatölva, hvor á sínu sviði. Tölvunar tvær frá Nintendo hafa þó ekki náð að heilla harðkjarna spilara í Evrópu og Bandaríkjunum. Helsta orsök þess er að líkindum lakari grafík en er í öðrum leikjatölvum og leikjaúrvalið, sem höfðar fyrst og fremst til krakka, fjölskyldna og Asíu markaðinn. Enginn hefur þó náð sölumeti best seldu leikjatölvunnar, PS2, sem hefur selst í yfir 150 milljón eintökum.
Nintendo hefur verið það tölvuleikjafyrirtæki sem hefur verið hvað ófeimnast við að prófa nýja hluti á sviði leikjatölva og tölvuleikja í gegnum tíðina. Microsoft og Sony fetuðu í fótsport Nintendo og hafa gefið út aukahluti sem opna fyrir hreyfistýringar í leikjatölvunum; Sony með PlayStation Move (PSM) fyrir PlayStation 3 (PS3) og Microsoft með Kinect fyrir Xbox 360.
Fjarstýring PSM líkist Wii fjarstýringunni, fyrir utan það að hún er svört og með kúlu á endanum sem getur breytt um lit. PSM notar PlayStation Eye (PSE) myndavélina til að skynja hreyfingar fjarstýringarinnar. Leikirnir sem notast við PSM styðjast ýmist við tæknina að hluta til eða eru eingöngu ætlaðir PSM.
Kinect er frábrugðið Wii og PSM að því leiti að þar er engin fjarstýring notuð, heldur notar spilarinn líkama sinn til að stjórna. Til dæmis ef það eru spilaðir dansleikir í Wii eða PS3 er nauðsynlegt fyrir spilara að halda á fjarstýringu(m) sem skynja hreyfingarnar. Í Kinect eru engar fjarstýringar og þess vegna er nóg fyrir spilara að dansa fyrir framan Kinect hreyfiskynjarann án nokkurra hjálparhluta. Kinect og PSM komu á markaðinn á svipuðum tíma, eða seinni hluta 2010. Til þessa hafa tæplega 9 milljón eintök selst af PSM, en yfir 10 milljón eintök af Kinect. Kinect sló heimsmet í hröðustu sölu á raftæki fyrir neytendur þar sem 8 milljón eintök seldust á fyrstu 60 dögunum.
Svo virðist vera að leikir sem styðjast við hreyfistýringar hafa fyrst og fremst slegið í gegn hjá krökkum, fjölskyldum, í partýum og hjá þeim sem spila sjaldan tölvuleiki. Þeir sem spila tölvuleiki oft og mikið hafa ekki sótt eins mikið í leiki sem bjóða upp á hreyfispilun, en það mun mögulega breytast í kjölfar þess að Sony og Microsoft ætla að leggja aukna áherslu á hreyfispilum. En nánar um það í E3 greininni hér á eftir.
Fleiri leikir eru farnir að bjóða upp á þrívíddarmöguleika, og þá fyrst og fremst leikir í PS3 og Nintendo 3DS. Í PS3 leikjunum er nauðsynlegt að eiga sjónvarp sem styður þrívíddarmöguleika og verður spilarinn að setja á sig sérstök þrívíddargleraugu, líkt og tíðkast þegar horft er á kvikmynd í þrívídd. Nintendo 3DS fer aðra leið og birtir myndir í þrívídd án sérstakra gleraugna, en það er nauðsynlegt fyrir spilarann að horfa beint á skjáinn svo að þrívíddin birtist rétt. Þrívídd án gleraugna hljómar ansi vel en hópur spilara hefur nú þegar kvartað yfir því að fá höfuðverk við að spila leiki í 3D í 3DS, en það er hægt að stilla hvort leikirnir birtist í 2D eða 3D. Einnig er ekki mælta með því að börn yngri en 6 ára spili leikina í 3DS þar sem það getur mögulega skaðað sjónina.
Leikjatölvur og tölvuleikir í dag bjóða upp á ansi margt; góða grafík, hraða vinnslu, hreyfi- og raddstýringar, netspilun og oftar en ekki er hægt að hlusta á tónlist, horfa á kvikmyndir eða sækja leikling (e. demo) af netinu. Wii, PS3 og Xbox 360 eru stóru leikjatölvunar í dag og flokkast sem sjöunda kynslóð leikjatölva. Tímabil áttunda kynslóðarinnar er nú þegar hafið. Nintendo 3DS var fyrsta handhelda leikjatölva áttundu kynslóðarinnar og mun handhelda leikjatölvan frá Sony, PlayStation Vita, og nýja leikjatölvan frá Nintendo, Wii U, einnig falla í sama flokkinn. Framtíð leikjatölvunnar snýst ekki einungis um flottari grafík og betra hljóð í tölvuleikjum, heldur eru leikjatölvurnar orðnar að afþreyingarmiðstöð heimilisins. Auk þess sem að tækin eru farin að tvinna sig saman í eina heild, til dæmis getur spilarinn verið að spila tölvuleik í gegnum PS3 leikjatölvuna við vin sem spilar leikinn í PC tölvu, eða spilað tölvuleik í handheldri leikjatölvu og haldið svo áfram að spila þar sem frá var horfið í leikjatölvunni við sjónvarpsskjáinn.