Birt þann 16. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Fallout heimurinn
eftir Ívar Örn Jörundsson
Fallout heimurinn á sér langa og stórbrotna sögu og er hægt að rekja upphaf þessa heims til áranna eftir seinni heimstyrjöld, en þá byrjar heimurinn í Fallout að skiljast frá okkar heimi. Útlitið í Fallout heiminum er látið líta út eins og á 6. áratugnum. Útlitið á tölvum, byggingum og sjálf fatatískan er í anda 6. áratugarins. Jafnvel vélmennin og hátæknileg vopn eins og Laser riffill eru látin vera gróf og gamaldags eins og almenningur frá 6. áratugnum hélt að framtíðin myndi líta út. Þessi aðferð að láta allt líta út gamaldags gefur Fallout leikjunum ákveðinn keim sem er einkennandi fyrir Fallout leikina. Þetta gerir leikina ennþá skemmtilegri í spilun.
Um miðja 21. öld byrjar að hitna í kolunum þar sem olían er á þrotum. Flestar stórþjóðir reyna að sölsa undir sig seinustu olíubirgðunum og einnig að komast yfir eins mikið úraníum eins og þau geta. Þó að það kom ekki til stórra átaka á milli þjóða, eins og seinni heimstyrjöldin, þá verða til svæðisbundin stríð. Mið-austurlönd verða að einu stríðssvæði þar sem margar þjóðir, þar á meðal Evrópusambandið, reyna að ná yfir olíbirgðum. Bandaríkin og Kína elda grátt silfur saman og gerir Kína innrás inn í Alaska og Bandaríkin innlima Kanada. Bandaríkin ná þó að hrekja Kínverjana frá Alaska og er því að þakka nýju ofur-brynklæðunum T-45 (Power Armor).
Þann 23. október 2077 breytist allt. Kjarnorkusprengjur fljúga um himininn og leggja heiminn í rúst á tveimur tímum. Enginn veit hver skaut þeirri fyrstu á loft en allir vissu hvernig þetta endaði, allavega þeir sem lifðu af. Ekki er vitað hve margir lifðu af eftir fall kjarnorkusprengjanna en margir lifðu af í hvelfingum, byggðar af fyrirtækinu Vault-Tec. Einungis er vitað um að Vault-Tec hafi byggt hvelfingar í Bandaríkjunum. Ekkert hefur komið fram hvort aðrar þjóðir gerðu eitthvað svipað. Einnig er ekkert fjallað um hvað er að gerast annarsstaðar í heimnum. Hver hvelfing var algjörlega sjálfbjarga og gat séð fyrir 1000 manns. Einungis voru byggðar 122 hvelfingar í öllum Bandaríkjunum. Þessar hvelfingar voru ekki ætlaðar til að bjarga fólki ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi, heldur var ætlunin að gera félagslegar rannsóknir á fólkinu sem bjó í hvelfingunum við vissar aðstæður eftir að kjarnorkusprengjurnar féllu. Sem dæmi má nefna Hvelfingu 13, sem átti að vera lokuð í 200 ár, en þar átti að rannsaka hvaða áhrif það hefði á fólk að vera einangrað frá umheiminum í langan tíma. Í öðrum hvelfingum var t.d. einungis ein kona á meðal 999 karlmanna og í annari var það öfugt, í annari hvelfingu var vopnabúrið fyllt af vopnum en enginn lás var settur á hurðina. Það eru ekki til upplýsingar um allar hvelfingarnar sem voru gerðar, en með því að spila alla Fallout leikina getur spilarinn fundið upplýsingar um margar hvelfingarnar.
Hvernig væri að skella einni hvelfingu í Esjuna,
ef til kjarnorku-styrjaldar kæmi.
Upp úr öskunni byrja eftirlifendur stríðsins að byggja upp á nýtt og stofna til nýrra samfélaga. Flestir eftirlifendurnir byggja upp ný samfélög á rústum borga og bæja sem voru til fyrir stríð og bera þessi nýju samfélög oft sömu nöfn og fyrir stríð, eins og Redding, San Francisco, New Reno, Goodsprings og Nipton.
Þó að mörg samfélög byggjast í kringum eyðilagðar borgir mynduðust fullt af nýjum samfélögum. Mikið af þessum nýju samfélögum tóku skref afturábak og urðu að ættbálkum. Mörg samfélög mynduðust þegar hvelfingarnar opnuðust og hleyptu íbúunum út til þess að hefja enduuppbyggingu. Sem dæmi um samfélög sem mynduðust þegar nokkrar hvelfingar opnuðust eru Shady Sands (Hvelfing 15), Vault City (Hvelfing 8) og New Canaan (Hvelfing 70). Oft bera þessi samfélög einkenni þeirra rannsókna sem var gerð á íbúum hvelfingarinnar. Eins og íbúar Hvelfingu 34 sem settust að í Nellis Airforce Base voru vopnaóðir, en vopnabúrið í þeirri hvelfingu var fyllt af vopnum en enginn lás var settur á hurðina. Það eru nokkur samtök sem eiga uppruna sinn fyrir stríð. Þekktustu samtökin eru Brotherhood of Steel en þau eiga uppruna sinn í Bandaríska hernum og eru með byrgi allt frá vestur-strönd Bandaríkjanna til austur-strandarinnar. Enclave eru önnur samtök sam margir ættu að kannast við eftir að hafa spilað annað hvort Fallout 2 eða Fallout 3. En þetta eru leifar bandarísku ríkisstjórnarinnar.
Fallout heimurinn mun líklegast aldrei fá endi, ef það er hægt að tala um að heimar fái enda. Þessi heimur mun halda áfram að stækka og verða dýpri með hverju ári og mun aldrei gleymast á meðan aðdáendur þessa heims lifa og halda áfram að deila honum með fleirum. Vonandi hefur áhugi ykkar sem ekkert þekkja til þessa heims aukist og vonandi prufið þið að fara inn í þennan stórbrotna heim og kynnast honum í eigin persónu.