Birt þann 30. júlí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Leikjarýni: Max Payne 3
Í fyrsta sinn sem ég las um Max Payne 3 bjóst ég ekki við miklu af okkar manni. Hann var orðinn alkóhólisti, þunglyndur, lífsleiður og byrjaður að safna vömb. Ég reiknaði með nokkrum skotbardögum og að hann héldi sig að mestu úr augsýn og notaði hæfileika og reynslu sína sem fyrrum lögreglumaður til þess að leysa vandamál. Ég var ekki einu sinni nálægt því, Max er eins og gamalt og geðstirt naut. Lausn hans á öllu er að hengja haus og stanga andstæðingana og hornin hans eru byssa í hvorri hendi. Þegar að Max er ekki að vorkenna sjálfum sér er hann reiður, mjög reiður og hann á það sameiginlegt með ákveðnu grænu flykki að maður vill ekki reita hann til reiði.
SAGAN
Níu ár hafa liðið frá atburðum Max Payne 2 og nú býr okkar maður í Hoboken, New Jersey. Réttara væri að segja að hann sefur í íbúð þar en býr á hverfisbarnum. Hlutirnir líta ekki vel út og Max virðist ætla að taka Nicolas Cage í Leaving Las Vegas á þetta og drekka sig í hel; munurinn er að Nic gerði það með stæl í skemmtanahöfuðborg heimsins.
Níu ár hafa liðið frá atburðum Max Payne 2 og nú býr okkar maður í Hoboken, New Jersey. Réttara væri að segja að hann sefur í íbúð þar en býr á hverfisbarnum. Hlutirnir líta ekki vel út og Max virðist ætla að taka Nicolas Cage í Leaving Las Vegas á þetta og drekka sig í hel; munurinn er að Nic gerði það með stæl í skemmtanahöfuðborg heimsins.
Einn daginn kemur náungi sem heitir Paul Rasso inn á barinn hans, segist þekkja Max af fornri frægð og vill fá hann með sér í lífvarðastarf í Brasilíu, nánar tiltekið Sao Paulo. Max tekur boði hans en ekki fyrr en þeir félagar lenda í einum allsherjar skotbardaga við eitt aðal gengi New Jersey. Hefðbundinn dagur í lífi Max Payne.
Fjölskyldan sem hann er ráðinn til að vernda er afar valdamikil og rík og fljótlega þurfa Payne og Paul að taka á honum stóra sínum (sem er í mínu tilfelli yfirleitt gyllt haglabyssa) því að fjöldinn allur af vopnuðum dusilmönnum gerir ítrekaðar tilraunir til að ræna meðlimum fjölskyldunnar. Þetta er einungis byrjunin á margslungnum söguþræði sem gerist ekki alltaf í réttri tímaröð; heldur er spilarinn stundum látinn spila atburði úrfortíðinni og eins og í ófáum kvikmyndum fáum við að sjá hluta af lokaatriðinu strax í byrjun.
SPILUN
Spilunarlega séð eru atburðirnir eða borðin eins; Max Payne þarf að skjóta sig í gegnum heilan her af vondum köllum. Stundum á skemmtiferðaskipi, stundum í verksmiðju, stundum við höfn og stundum á skemmtistað og þar fram eftir götunum (eins og á götum fátækrahverfa í Sao Paulo). En söguþráðurinn, umhverfið og spilunin er svo vel úr garði gert að spilaranum ætti ekki að leiðast, MP3 hefur þann kost sem sumar bækur hafa, það er ekki hægt að hætta og þorstinn í að vita hvað gerist næst er svakalegur.
Það sem hefur alltaf skilið Max Payne leikina frá öðrum er það sem kallast á ensku „bullet-time“ og „shoot-dodge“. Hetjan okkar getur hægt á tímanum í anda John Woo myndanna og þannig skotið marga andstæðinga á mjög stuttum tíma á glæsilegan hátt. Núna hefur bæst við sá eiginleiki að hægt er að fela sig á bak við hluti eins og borð og súlur því að Max Payne er orðinn of gamall til að stóla alltaf á hetjutaktana. Því þarf að meta aðstæður; stundum hentar að skjóta úr leyni og stundum hentar að stökkva fram með byssurnar á lofti og hægja á tímanum (en það er ekki hægt að gera það stanslaust). Ef spilarinn missir heilsu þarf að nota verkjatöflur sem finnast á víð og dreif. Sú skemmtilega viðbót í MP3 er að ef þú hefur verkjalyf og deyrð, hefurðu smá tíma í hægri spilun (slow-motion) til að skjóta þann sem drap þig sem er frábært til að fullnægja hefndarþörfinni.
Max Payne 3 er ofbeldisfullur leikur sem felst í því að hægt er að sjá kúlurnar hitta andstæðinginn á hægum hraða, t.d. er hægt á tímanum þegar síðasti andstæðingurinn á hverjum stað er drepinn svona eins og þegar vondi kallinn er drepinn í lok kvikmyndar. En sem skotleikur er hann mjög góður og tæknilega vel gerður. Manni líður eins og spennumyndahetju og það er kannski skrýtið að nota orðið gefandi um skotleik en það passar samt hér.
ÚTLIT, TÓNLIST OG HLJÓÐ
Á meðan MP1 og MP2 voru meira í stíl við teiknimyndasögur í svokölluðum „neo-noir“ stíl þá er Max Payne 3 meira í stíl við hasarmyndir og er hann óspar á myndskeiðin. Ólíkt fyrri leikjunum hefur Max Payne núna engu að tapa og í rauninni veit spilarinn aldrei alveg hvað rekur hann áfram; hvort hann sé að bæta fyrir fyrri mistök eða sé hreinlega í sjálfsmorðshugleiðingum. Eins og áður þá segir Max Payne söguna í sínum yndislega kaldhæðna stíl þar sem stuttar, lýsandi setningar fá að njóta sín (í anda Raymond Chandler bókanna) og heyrist vel að hann hefur reynt ýmislegt.
Ólíkt fyrri leikjunum hefur Max Payne núna engu að tapa og í rauninni veit spilarinn aldrei alveg hvað rekur hann áfram; hvort hann sé að bæta fyrir fyrri mistök eða sé hreinlega í sjálfsmorðshugleiðingum.
Max Payne 3 er eins og samblanda af James Bond mynd og Memento eftir Cristopher Nolan. Í báðum tilfellum veit aðalhetjan yfirleitt ekki hvað er í gangi (í Memento var það minnisleysi en í Max Payne 3 er það ýmist timburmenn eða víma) en þeir eru báðir yfirmáta þrjóskir og óútreiknanlegir.
Max Payne 3 lítur vel út, andlitin er mjög vel gerð og sérstaklega Max Payne sjálfur; það sést vel hversu grimmt lífið og áfengisneyslan hefur leikið hann. Hann lítur út eins og lífsreyndur róni og svipbrigðin eru eftir því.
Talsetning og hreyfingar Max Payne eru í höndum James McCaffrey sem stendur sig frábærlega enda sá eini sem hefur talað fyrir Max Payne hingað til. Tónlistin í Max Payne er orðin klassísk, sérstaklega meginstef leiksins sem er reyndar hluti af leiknum þar sem Max Payne reynir rifja upp þetta stef í hvert sinn sem hann rekst á píanó.
FJÖLSPILUN
Vanalega, fyrir svona leiki, er fjölspilunin hálfgert aukaatriði en Rockstar hafa lagt talsvert í að gera fjölspilunina eftirsóknarverða. Það er nóg af hlutum til að stefna að, spilarinn verður öflugri eftir því sem hann spilar meira og fær betri vopn og betri aukahluti eða getu í stíl við t.d. Call of Duty leikina. Þess vegna getur verið erfitt fyrir nýgræðinga að byrja en það er alltaf hægt að gera eitthvað og smátt og smátt styrkist karakterinn. Ýmis konar tölfræði er til staðar t.d. hversu hittinn spilarinn er og hve lengi hann heldur sér á lífi o.s.frv. Hæging á tíma er leyst mjög vel af hendi, ef tveir spilarar lenda í sjónlínu hvors annars og annar hægir á tímanum þá gildir það fyrir báða spilara. Ýmsar tegundir leikjaforma (allir á móti öllum, skipt í lið o.s.frv.) eru til staðar og ættu aðdáendur fjölspilunar ekki að vera sviknir.
ENDURSPILUN
Endurspilunin er mjög skemmtileg, ef maður á annað borð hefur gaman af Max Payne sem skotleik. Með því að spila leikinn er hægt að safna gylltum byssum (10% öflugri og líta vel út) og vísbendingum. Hægt er að spila kafla aftur eftir að hafa klárað þá og þannig klárað afrek sem vantaði. Áðurnefndar byssur er hægt að nota í leiknum sjálfum þegar að spilarinn vill meiri áskorun á hærra erfiðleikastigi og einnig í fjölspilun.
Hægt er að keppa við aðra keppendur um besta tímann í svokölluðu „arcade mode“ þar sem Max Payne reynir að klára borð áður en tíminn rennur út og hann fær aukatíma fyrir það að drepa andstæðinga á sem flottastan og fljótlegastan hátt. Það að geta spilað sem gamli Max Payne úr fyrri leikjunum í þessu er fyndið og sýnir hvað grafíkin hefur breyst.
Það er eitt sem gæti pirrað spilarann sem hefur séð öll myndskeiðin oftar en einu sinni. Max Payne 3 hleður næstu borð á meðan myndskeið er sýnt, þetta þýðir að í stað þess að horfa á hleðsluskjá (loading screen) þá þarf að bíða aðeins lengur eftir næsta borði því að leikurinn bæði sýnir myndskeið og hleður næsta borð á sama tíma. Þar sem að góðir endurspilunarmöguleikar eru til staðar hefði líklega verið betra að hafa bara einfaldan hleðsluskjá í stað þess að láta spilarann horfa á sömu myndskeiðin aftur og aftur og aftur.
LOKAORÐ
Fyrir aðdáendur skotleikja er Max Payne 3 mjög góður en þegar bætt er við góðri sögu, góðri fjölspilun og frumlegheitum Max Payne seríunnar þá er þetta frábær leikur. Hann er ekki fullkominn, það hefði mátt fínpússa hann aðeins betur en kostirnir eru mun sterkari en þessir fáu gallar. Leikurinn var spilaður á PS3 og fær 9 á línuna.
SPILUNGRAFÍKHLJÓÐSAGA |
9,09,09,09,0 |
SAMTALS |
9,0 |