Tölvuleikir

Birt þann 26. febrúar, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

1

Realm of the Mad God

Vantar þig leik sem hægt er að hoppa í og spila í nokkrar mínútur eða marga klukkutíma? Leik sem hægt er að spila á flestum tölvum, hvort sem er í gegnum vafra eða Steam? Leik sem býður upp á fjölspilun með allt að 84 öðrum spilurum? Leik sem er auðvelt að læra á og skemmtilegur eftir því? Leik með heillandi 8-bita grafík? Leik sem er frír?
Þá er Realm of the Mad God kjörinn fyrir þig því hann uppfyllir öll þessi skilyrði og meira til.


PEW PEW!

Leikurinn byrjar þannig að þú ert galdrakall og ferð í gegnum stutta kynningu á leiknum sem kennir þér grundvallaratriðin. Það þarf ekki að læra á flókið viðmót og hrúgu af tökkum til að geta notið leiksins heldur eru grunntakkarnir 6 talsins. W-S-A-D fyrir hreyfingarnar, vinstri músartakkinn til að nota vopn og SPACE til að nota eiginleika þeirra persónu sem spilað er.
Þegar kynningin er búin er persónan flutt í heim sem kallast Nexus og þar er hægt að hanga með gríðarlegu magni spilara, kaupa, selja og skiptast á hlutum ásamt því að velja sér heima til að berjast í. Í Nexus eru margir inngangar í aðra heima, en þar geta mest verið 85 í hverjum heimi fyrir sig.


Gott er að fara í heim með mörgum spilurum því þá gefur það ykkur meiri möguleika á að ráða við stærri og öflugari óvini.

Leikurinn snýst nokkurn veginn um samspil að því leyti að margir óvinir í heiminum eru það öflugir að það er ómögulegt fyrir einn aðila að bera sigur af hólmi í bardaga. Oft þurfa því tugir spilara að hópa sig saman til að ná niður stóru óvinunum. Leikurinn gerir leikmönnum auðvelt fyrir að ferðast á milli manna í heiminum því hægt er að smella á smákortið (e. Mini-Map) og hoppa þangað (eftir hvert hopp þarf að bíða í ákveðinn tíma áður en hægt er að hoppa aftur). Þetta tól hjálpar mikið til við að búa snögglega til hópa til að sigrast á óvininum. Það er líka mjög eftirsótt að vera í hópi með sem flestum vegna þess að ef einn spilari drepur óvin, fá allir nálægir spilarar reynslustig (e. XP) sem samsvarar drápinu.

Leikurinn gengur út á það að fá sem flest reynslustig til þess að persóna spilarans verði öflugri. Í leiknum eru 20 stig (e. Level) og þegar komið er upp á það tuttugasta er ekkert annað að gera en að safna betri hlutum fyrir persónuna sína eða byrja á annarri persónu.
Það er líka ágætis hvati að til að geta nálgast aðrar mismunandi persónur þarf að spila í gegnum hinar persónurnar. Ef spilarinn nær 5. stigi með Galdrakalli fær hann aðgang að Presti, sem aftur opnar nýjar persónu ef spilarinn nær 5. stigi með Presti sem er Bogamaður og þaðan af. Aðrar betri persónur verða síðan til staðar ef spilarinn nær tuttugasta stigi með sem flestum persónum.
Aðeins er hægt að spila eina persónu í einu og verður þú að eyða persónunni þinni eða kaupa annað „pláss“ fyrir aðra persónu ef þú vilt.

En núna kemur smá snúningur í leikinn. Ef persónan þín deyr, þá er hún dáin. Ekkert er hægt að gera. Þá er bara að braka í puttum og hoppa aftur í leikinn til að gera betur í næsta skipti.

En núna kemur smá snúningur í leikinn. Ef persónan þín deyr, þá er hún dáin. Ekkert er hægt að gera. Þá er bara að braka í puttum og hoppa aftur í leikinn til að gera betur í næsta skipti.

Ég mæli eindregið með þessum leik þegar þú hefur nokkrar mínútur til að drepa. Of fáar mínútur til að hoppa í alvöru leik eða gera eitthvað vitsamlegt eins og að vaska upp eða ryksuga. Þessi leikur getur verið gríðarleg skemmtun ef maður hittir á góða hópa sem vita nokkurn veginn hvað þeir eru að gera og halda sér saman í hóp. Þá er maður enga stund að hækka í stigum og er fljótt kominn upp í hærra stig en maður þorði að vona.

Grafíkin er skemmtileg, þó að hún sé ekki „alvöru“ 8-bita grafík þá fær maður svipaða tilfinningu  og við að spila gömlu Zelda leikina á NES en með meiri hraða og hasar. Hljóðið er næstum á sömu nótum eins og grafíkin en tónlistin getur verið fljót að verða þreytt en það er auðvelt að slökkva á henni.

Hafa verður í huga að þar sem leikurinn er frír reyna framleiðendurnir að fá leikmenn til að kaupa svokallað „Realm Gold“ með alvöru peningum til að kaupa „viðbætur“ við leikinn. Hægt er t.d. að kaupa pláss fyrir fleiri persónur en eina, lit fyrir fötin þín og þess háttar en það er tekið fram að ekki er hægt að kaupa neitt sem hefur áhrif á leikinn. Til dæmis er ekki hægt að kaupa ofurvopn eða hluti sem eru betri en þeir sem finnast í leiknum.

Www.realmofthemadgod.com

Daníel Páll Jóhannsson

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



One Response to Realm of the Mad God

Skildu eftir svar

Efst upp ↑