Leikjarýni

Birt þann 9. mars, 2022 | Höfundur: Steinar Logi

Elden Ring fer framúr væntingum

Elden Ring fer framúr væntingum Steinar Logi

Samantekt: Framúr öllum væntingum

5

Meistaraverk


Leikjaheimurinn hefur beðið lengi með eftirvæntingu eftir Elden Ring þ.á.m. undirritaður. Strax á útgáfudegi sá maður mjög margar tíur og spurning vaknar; er hann virkilega svona góður? Svarið er já, Elden Ring fer fram úr öllum væntingum sem maður gerði til hans og vel það.

Elden Ring er með sama DNA og leikirnir á undan en sker sig samt vel frá þeim aðallega vegna opins heims. Þetta er einnig aðgengilegasti Souls leikur sem gerður hefur verið án þess samt að fórna erfiðleikastiginu, það er einfaldlega svo mikið að gera að ef maður lendir í að berja höfðinu við vegg þá fer maður eitthvað annað. 

Þetta er aðgengilegasti Souls leikur sem gerður hefur verið

Opni heimurinn er mjög stór og til að auðvelda ferðalög fáum við hestinn Torrent sem hægt er að kalla á samstundis og jafnvel berjast á. Það er líka slatti af stöðum sem hægt er að ferðast til samstundis eftir að maður finnur þá sem kallast graces (áður bonfires). Fjöldi hluta sem maður getur gert í heiminum er ótrúlegur og það er auðvelt að fara vel yfir 100 tíma og halda áfram að vera finna eitthvað nýtt, jafnvel á svæði sem maður hefur áður verið á. Stundum finnur maður stór svæði óvart, jafnvel borgir,  sem hefðu vel sómað sér sem viðbót (DLC) við leikinn; FromSoftware eru svo sannarlega ekki nískir á gott efni og maður sér ástina sem hefur verið sett í leikinn. Bara ef allir stórleikir væru svona fínpússaðir við útgáfu.

Heimurinn er það góður að maður fer fljótlega að gera eitthvað annað en að fylgja sögunni og maður er alltaf verðlaunaður fyrir það. Leikurinn er heldur ekkert að segja þér hvað á að gera en gefur þér vísbendingar. Það er hressandi tilbreyting í mótvægi við að skoða kort með fullt af spurningarmerkjum á og dýpkar upplifunina fyrir vikið. Það er hægt að styrkja karakterinn þinn á hefðbundinn hátt í takt við svona leiki en bætt hefur verið við vopnalistum (hvirfilsvindsárás eða jafnvel sérstök blokk fyrir skjöldinn þinn) ásamt “tradeskill” kerfi þar sem þú getur búið til margbreytilega hluti. Vopn, galdrar og bæting lækningarseyðis (potion) eru á ýmsum stöðum. Síðast en ekki síst er hægt að kalla á tölvustýrða anda til aðstoðar eftir að þú finnur þá einu sinni. Þessa anda (spirits) er hægt að uppfæra og geta þeir verið allt frá sögufrægum stríðsmanni til hóp úlfa. Svæðin sem þú ferðast til geta verið af ýmsum toga, allt frá litlum dýflissum með endaboss sem gefur ákveðin verðlaun eða stærri svæða þar sem maður gapar yfir útsýninu eða óvinunum.

Síðast en ekki síst er hægt að kalla á tölvustýrða anda til aðstoðar

Flest í spiluninni hefur verið straumlínulagað og uppfært frá fyrri leikjum s.s. Núna er þægilegt að hoppa með með “X” á playstation og jafnvel tvöfalt stokkið á hestinum sínum. Áferðir eru stundum seinar að hlaðast inn en sem betur fer hef ég ekki tekið eftir neinu hiksti í sjálfri spiluninni. Fjölspilun heldur áfram að vera takmörkuð, hún er til staðar á mörgum stöðum en ekki öllum og miðast eingöngu við að hjálpa með “boss” ákveðins svæðis. Síðan er spilari-á-móti-spilara fjölspilun og hef ég heyrt góða hluti um þann hluta frá syni mínum (sjálfur er ég of mikil kveif til að taka þátt).

Það er áfram ákveðin takmörkun á fjölspilun sem maður finnur meira fyrir núna en áður; maður vill virkilega spila lengur saman með öðrum spilurum og ekki bara til að sigra einn og einn stórbardaga (sem lætur fjölspilunarvin þinn hverfa) Fjölspilunareynslan hefur samt verið mjög góð á PS5 þrátt fyrir að maður hafi heyrt um vandræði í öðrum umhverfum eins og PC. Við feðgarnir höfum náð að tengjast fljótt og vel.

Grafíkin er mjög góð, nær kannski ekki alveg sömu hæðum og Demon’s Souls en er með áherslurnar þar sem þær skipta máli, sérstaklega í smáatriðunum. Maður sér á brynjum, vopnum og klæðum að þetta hefur verið notað áður t.d. er útsaumurinn á skykkjunni þinni farinn að fölna eða ryðblettir komnir í brynjuna þína. Hreyfingar og hegðun óvina, skuggar og lýsing, hlutir í fjarska, stærðarhlutföll, umhverfið og hvernig það hagar sér (t.d. veðurbreytingar). Allt er þetta til fyrirmyndar. Það er göldrum líkast hvað tónlistin nær að koma manni í stemningu, hún er lágstemmd en maður tekur samt eftir henni og þegar kórarnir fara bætast við þá er eitthvað stórkostlegt í gangi.

Semsagt þetta er einn besti leikur sem ég hef nokkurn tímann spilað en hafa ber í huga að ég hef lengi verið aðdáandi þessara leikja. Það er auðvelt að mæla með þessum fyrir spilara sem hafa verið smeykir að prófa Souls leiki áður.

Lengi lifi Miyazaki og hans teymi!

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑