Leikjarýni

Birt þann 27. nóvember, 2020 | Höfundur: Steinar Logi

NBA2K21 (PS5) – Flagð undir fögru skinni

NBA2K21 (PS5) – Flagð undir fögru skinni Steinar Logi

Samantekt: Ekki hægt að mæla með nema peningar séu að brenna gat í vasann þinn eða lengra komið á líftíma leiksins.

2.5

Meðalleikur


NBA2K21 kom fyrst út á PS4 snemma í september en núna tveimur mánuðum seinna á PS5 og munurinn á grafík er talsverður.

Tengt þessu þá halda 2K Sports áfram að sýna fram á að þegar kemur að græðgi þá eru þeir í heimsklassa. Í stað þess að koma með PS4 og PS5 útgáfurnar á sama tíma þá er erfitt að túlka þetta á annan hátt en að þeir vonast eftir að einhverjir harðhausar kaupi sama leikinn tvisvar þ.e.a.s fyrst PS4 útgáfuna á $60 og síðan PS5 útgáfuna á $70 (það er að vísu hægt að kaupa Mamba útgáfuna á $100 á PS4 og fá PS5 út á það). Það er nákvæmlega ekkert sem hægt er að flytja frá PS4 útgáfunni yfir á PS5; ekki MyCareer leikmanninn þinn, ekki það sem þú hefur gert í MyTeam o.s.frv. Það er ekki einu sinn afsláttur fyrir þá sem keyptu venjulegu PS4 útgáfuna.


þegar kemur að græðgi þá er 2K Sports í heimsklassa

Grafíkin er rosaleg

Grafíkin er rosaleg og eins og í Demon’s Souls endurgerðinni þá sést strax að maður er kominn á næstu kynslóðar leikjatölvu. Ekki bara eru andlitin ótrúlega raunveruleg, eins og sést ef maður skoðar marga samanburði á andlitum leikmanna á netinu miðað við PS4 útgáfuna, heldur eru öll svipbrigði og hreyfingar leikmenna miklu betri. Síðan bætir maður við að allt hleðst svo rosalega hratt sem er gleðiefni fyrir 2K spilara. Þetta er sá NBA leikur sem lítur best út hingað til (og líklega betur en allir íþróttatölvuleikir hingað til)

Andlit og svipbrigði eru ótrúlega raunveruleg

Leikjategundir eru eins og áður MyCareer, MyTeam en núna höfum við auk þess MyNBA sem sameinar MyGM og MyLeague. Þar að auki er WNBA (kvennakarfan) og Play Now þar sem maður getur farið strax í leik annað hvort yfir net, með vinum sínum eða einn. Skoðum MyCareer fyrst því að það sem flestir gera fyrst til að búa til sinn eigin leikmann.

Sagan í MyCareer skárri en oft áður

Sagan í MyCareer er skárri en hún hefur oft verið áður en einfaldlega vegna þess að það eru engar pirrandi persónur og eðlilegri samtöl milli fólks. Þetta er samt mjög óspennandi og leikarar eins og Djimon Hounsou (Starlord who?), Michael Kenneth Williams (The Wire) og Jessie Williams (Markus í Detroit: Become Human) ná ekki að lyfta þessu upp. Reyndar fannst mér Vince Washington sem vinur og keppinautur Juniors (sem ert þú) standa sig best. En ég tek óspennandi fram yfir pirrandi því að oft hefur sagan verið kvöl og pína.

Það er reyndar sniðug breyting á stöðluðu leiðinni að NBA að núna geturðu farið í G-League í stað menntaskólans og unnið þig upp þaðan. Síðan getur þú líka valið að fara í „draftið“ með eitt ár eftir í menntaskóla eða tekið öll fjögur árin.

Núna geturðu farið í G-league eða tekið öll árin í menntaskólanum í söguhluta MyPlayer

En leikmaðurinn þinn er ekki bara sagan og NBA leikirnir heldur geturðu keppt á strætunum eins og hefur verið lengi í 2K leikjunum. En ólíkt fyrri leikjum þá þarftu að vinna þig upp til að komast í nágrennið sem er núna reyndar risastór borg. Þú þarft semsagt að fara í svokallað Rookieville sem eru nokkrir vellir og vinna þig upp frá Rookie I, II og III í Pro I með því að spila við aðra spilara. Þetta er svo hlægileg gegnsæ ákvörðun hjá 2K Sports ætluð til að lokka leikmenn til að eyða pening í að styrkja sig fljótt því að maður byrjar með „rating“ 60 meðan yfir helmingurinn (sem er sorglegt í sjálfu sér) er með 70, 80 eða meira sem nýbyrjendur. Þar að auki eru þessir strætisboltaleikir þannig að maður þarf að standa á hliðarlínunum, horfa á aðra klára sinn leik sem getur alveg tekið góðar 10 mínútur og þá fyrst getur maður spilað. Ferlega skrýtið árið 2020 að þurfa bíða svona lengi eftir leik. Þetta þarf maður að gera í u.þ.b. þrjá tíma (breytilegt eftir því hvort maður vinnur eða tapar) bara til að komast í borgina sem maður ætti að hafa aðgang að frá upphafi.

Borgin sjálf sem kemur í stað fyrir nágrennið (The Neighbourhood) er risastór og reyndar allt of stór. Það er fullt af búðum og svo er búið að dreifa alls konar áskorunum á víð og dreif um svæðið. Síðan labba tölvustýrðar persónur um með upphrópunarmerki yfir hausnum á sér alveg eins og maður sé kominn í Azeroth í World of WarCraft og annað hvort selja eitthvað eða gefa áskoranir . Borgin er það stór að maður þreytist fljótt á að hlaupa á milli staða og auðvitað getur maður keypt farartæki ef maður spilar svo sem 30 MyCareer leiki eða að borgar fyrir gull. Það væri í takt við annað að stærðin sé til að það seljist meira af hraðari ferðamátum en að hlaupa.

Borgin (áður nágrennið) er risastór og margt að skoða en tímafrekt að fara á milli staða

MyTeam fylgir sömu formúlu

MyTeam fylgir sömu formúlu og áður en það er líka meira græðgisógeð þar og maður spyr sig hvort 2K Sports hafi af einhverjum ástæðum ákveðið að fara „all-in“ þetta ár. Ég spilaði mikið NBA2K20 eftir að hann kom ókeypis á Playstation Plus og hafði mjög gaman því að þróa spilarana mína í MyTeam þar. Margir leikmenn voru sem sagt af gerðinni „Evolution“ og höfðu ýmis skilyrði tengt því að „levela þá upp“ svo sem að skora 100 stig yfir marga leiki, gefa 100 stoðsendingar, ná 100 fráköstum og svo framvegis. Þetta var skemmtilegt því að þetta gaf öllum leikjum auka-takmark til að vinna að því að þrátt fyrir að þú tapaðir leik þá náðirðu alltaf að byggja þína menn upp að einhverju leyti. Reyndar var MyTeam í NBA2K20 þægilegri viðureignar en oft áður og manni fannst maður ná að byggja upp gott lið án þess að eyða neinu (svokallaðir locker codes sem eru gefnir leikmönnum á twitter hjálpuðu mikið).

Auðvitað náðu 2K Sports að taka þennan skemmtilega fítus og spilla honum í nafni Mammons. Núna er búið að færa þessa „level up“ þróun yfir á MyTeam aðganginn sem styrkleikastig sem maður smátt og smátt eflir en svo getur maður fengið ágætis bónusa fyrir að gera ýmsar áskoranir. Á hverju byggjast þessar áskoranir? Jú, 80-90% af þeim er tengt leikmönnum sem maður fær úr pökkum til sölu. Það er eitthvað svo fáránlegt að vera nýkominn með leik sem kostar sem samsvara $70, fara í MyTeam og sjá allar þessar áskoranir sem krefjast þess að maður drífi sig í að kaupa fullt af pökkum! Auðvitað eru þeir líka með tímamörk á þessum áskorunum til að ýta á eftir þér og velja hröðustu leiðina þ.e.a.s. að kaupa gull, öll trikkin í bókinni notuð. Reyndar benti sonur minn mér á að þetta er stolið beint frá Fortnite sem eru hreinir englar í samanburði og hafa leikinn ókeypis (og gefa ekki út nánast sama leik á hverju ári).


80-90% af MyTeam áskorunum er er tengt leikmönnum sem maður fær úr pökkum til sölu

Það er eitthvað minna um „Evolution“ leikmannaspjöldin núna en það er líka búið að breyta mörgum af þeim þannig að þú þarft að spila við aðra yfir netið í leikjategundum þar sem „pay-to-win“ spilarar ráða ríkjum og þróa þá þannig. Það er svo mikið af svona trikkum í gegnum leikinn allan sem er lýjandi til lengdar og tekur alla skemmtun úr MyTeam (en áræðanlega þrusustuð ef maður hendir í þá hundruðum dollara).

Ónefnt hingað til eru allar auglýsingarnar sem eru líka í leiknum í formi fatnaðar, skóa, heyrnartóla, úra og núna eitthvað fjandans amerískt símafyrirtæki (það kemur meira segja á einum tímapunkti pop-up auglýsing þar sem þér er bent á tilboð í hinum raunverulega heimi á ónefndum úrum sem auðvitað rennur fljótlega út). Þetta er ekkert nýtt en meira áberandi þetta ár en önnur. Rétt eftir að ég skrifaði þetta þá tók ég einn leik sem nýliðinn minn og í leiknum þá töluðu kynnarnar um styrktaraðilana mína og hvað Beats og Tissot væru frábær fyrirtæki og pössuðu vel fyrir mig. Þetta hreinlega stoppar ekki…

Til að vera með einhverjar góðar fréttir þá ættu aðdáendur MyLeague og MyGM að vera ánægðir með sameininguna í MyNBA því að þar eru engar auglýsingar. Þetta er eitthvað sem undirritaður spilar vanalega ekki en það er heilmikil vinna á bak við þetta og maður sér að það er hugsað fyrir öllu. Það er hægt að stjórna öllu sem manni dettur í hug og breytt reglum eftir því sem maður vill. Þetta er ekki peninganna virði eins og er en þess virði að skoða fyrir þá sem hafa gaman af svona þegar leikurinn verður á tilboði í framtíðinni.


Til að vera með einhverjar góðar fréttir þá ættu aðdáendur MyLeague og MyGM að vera ánægðir með sameininguna í MyNBA

Fleiri hreyfingar – misgáfuð tölva

Tökum fyrir spilunina almennt en það sem maður tekur fljótlega eftir að það eru fleiri hreyfingar og mér fannst þetta sérstaklega áberandi hjá miðherjunum. Eins og alltaf þá er ákveðinn „metaleikur“ hvert ár, hvað virkar betur þetta ár en önnur og við fyrstu sýn þá virðist það vera að „screena“ því að maður getur algjörlega losað sig við vörnina frá tölvunni þannig. Reyndar er sorglegt hvað tölvan er enn heimsk í sumum tilfellum, ég get verið algjörlega frír undir körfuna en ef það er maður á milli þá getur tölvan ekki sent framhjá honum, boltinn er alltaf stolinn. Var að lenda í þessu trekk í trekk með Damian Lillard og ég var undir körfunni. Dame Dolla ætti að geta þetta! En þeir hafa lagað ýmislegt og ég er ánægður með að eins og síðasta ár þá eiga stórir leikmenn mjög auðvelt að skora yfir lága leikmenn ef þeir eru upp við körfuna eins og hefur ekki verið alltaf yfir árin. Óskiljanlegt samt að stundum ef maður er á „fastbreak“ að stóru mennirnir hlaupa stundum í hornin og það er áfram í þessum leik. Það að stela er ekki eins auðvelt og það var t.d. í NBA2K20 og það er auðveldara að taka ruðning en áður. Spilunarlega séð er NBA2K21 allt í lagi, kostirnir yfirvinna gallana en rosalega væri gott ef einhver samkeppni væri á þessum markaði en því miður hefur Live EA Sports serían ekki náð sér á strik.

Það ber talsvert á litlum mistökum sem ber merki um að þeir hafa ekki tekið mjög mikinn tíma í að fínpússa leikinn. Hlutir eins og síðasta „playið“ í MyCareer hékk frosið frá hálfleik fram til lok leiks, það var bara 0.0 meðaltal fyrir BPG (blokk) yfir strætisboltaferilinn minn þó að ég hafi náð þeim nokkrum sem miðherji, karfa taldi sem dómarar flautuðu af, það er vísað í lið á social media sem er bara punktur (placeholder), stundum heldur „replay“ myndavélin áfram eftir að leikurinn er byrjaður og alls konar svona litlir hlutir. Ekki stórmál en slatti af svona. Hef ekki lent í að leikurinn frjósi eða eitthvað meiri háttar fyrir utan að ég spilaði heilan leik sem taldi svo ekki því að leikurinn náði ekki að tengjast netinu eftir hann. Enn og aftur þá er það algjörlega frábært að losna við alla hleðslutíma á PS5.


Það ber talsvert á litlum mistökum sem ber merki um að þeir hafa ekki tekið mjög mikinn tíma í að fínpússa leikinn

Sleppur sem meðalleikur

Það er ekki hægt að mæla með þessum leik fyrir hinn almenna notanda en það virðist vera kjarni af leikmönnum sem kaupir hann sama hvað og borgar bara meira og meira („whales“) og því virðist þetta ekki vera að fara í langan tíma. Þetta er samt því miður eini almennilegi körfuboltaleikurinn en ég mæli samt frekar með að grípa NBA2K20 fyrir lítinn eða engan pening. Það er ekki hægt að gefa honum eina stjörnu, því að það er sumt sem dregur hann upp eins og grafíkin og spilunin sjálf að mestu leyti ásamt MyNBA fyrir þá sem hafa gaman af því. Þannig að hann sleppur sem meðalleikur að mínu áliti en hefði auðveldlega getið verið svo miklu betri ef 2K Sports væru ekki að tapa sér í græðgi.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑