Leikjarýni

Birt þann 3. desember, 2017 | Höfundur: Steinar Logi

Leikjarýni: Lego Marvel Super Heroes 2

Leikjarýni: Lego Marvel Super Heroes 2 Steinar Logi

Samantekt: Marvel og Lego halda áfram að koma með góða vöru

4

Góður legoleikur


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Lego-leikjamaskínan stoppar aldrei en þetta ár er líklega betra en önnur því að nú er komið framhald af hinum stórgóða Lego Marvel Super Heroes sem kom út árið 2013. Lego leikirnir renna dáldið saman enda þeir fylgja sömu formúlunni ár eftir ár og leik eftir leik en þrátt fyrir það er hægt að klúðra þessum leikjum. Til dæmis var Lego Pirates of the Caribbean á PS3 einn leiðinlegasti leikur sem ég hafði spilað í langan tíma og óþarflega erfiður fyrir yngri spilara. Það þarf nefnilega að vera ákveðið jafnvægi milli þrautanna, sögunnar og í því að halda athygli spilarans því að þetta eru í raun alltaf sami leikurinn undir húddinu. Þú leysir þrautir, berst við aðra kubbakalla og safnar hlutum. Þessir leikir væru ekki til nema því að þeir geta sett stór nöfn á titillinn eins og Harry Potter, Star Wars og Batman. Það að geta sett Marvel í titilinn trompar allt (DC Comics kemur rétt á eftir); þú ert með tonn af hetjum, athyglisverða staði og mikið frelsi í að segja sögu.

nú er komið framhald af hinum stórgóða Lego Marvel Super Heroes sem kom út árið 2013

Kang the Conqueror er vondi kallinn í þetta sinn og það þarf heilan her af hetjum til að sigrast á öllum vondu köllunum sem vinna fyrir Kang. Þetta minnir mann á Arkham leikinar þar sem Jókerinn fær í lið með sér marga vonda karla og konur. Sagan tekur okkur í gegnum fjölbreytileg svæði og mismunandi tímabil og þrátt fyrir að sagan sé aldrei sterkasta hlið þessara leikja þá er hún allt í lagi en kannski dregst aðeins of mikið á langinn. Í raun er það að klára söguna bara helmingur leiksins því að það er margt aukadót; hetjur og annað sem er hægt að bæta í hópinn (án þess að borga alvöru pening fyrir!) þannig að endingin er góð.

Það er mun minna af pirringi í þessum leik miðað við suma Lego leiki. Þrautir mega alveg reyna smá á sellurnar en það er ekkert leiðinlegra en að fljúga um í 10-15 mínútur og leita ef einhverjum einum rofa sem er vel falinn. Foreldrar kannast við þetta ásamt setningunni „ég verð að fá að klára, það er ekki búið að seivast!“. Leikurinn stendur sig vel í að gefa spilurum vísbendingar, vista reglulega og maður er ekkert að festast, alla vega ekki á okkar heimili. Yfirleitt eru svona leikir skemmtilegri þegar tveir spila saman og það er engin breyting hér á. Það er ekki hægt að mæla með fjögurra spilara bardögunum sem er nokkurs konar “arena” í Lego Super Heroes 2 og stendur sjálfstætt fyrir utan leikinn sjálfan. Slakasti hlutinn í þessum leikjum er bardagakerfið og það er óskiljanlegt af hverju eitthvað svona er innifalið nema bara til að geta sagt „up to four players can play“. Annað sem LMSH2 hefur bætt við er “combo” tveggja hetja sem gera eitthvað súperbragð (svona eins og þegar Thor notar skjöldinn hjá Captain America í myndunum) en það er oft erfitt að ná því því að spilarar þurfa að vera nálægt hvor öðrum og sami takki er notaður til að gera þetta bragð og breyta um hetju!

Í raun er það að klára söguna bara helmingur leiksins því að það er margt aukadót

Það vantar aðeins upp á að leikurinn sé fullkláraður eins og oft vill verða með svona leiki sem koma út fyrir lok ársins. Á Playstation Pro hefur leikurinn verið að hrynja örfáum sinnum og það er einkennilegur munur á hljóðstyrk raddleiks stundum, eins og það hafi verið bætt inn einhverju á síðustu stundum og gleymst að jafna hljóðstyrk. En þessi neikvæðu atriði eru þó þekki það slæm að það komi í veg fyrir góða leikjaupplifun.

Allt í allt er þetta stórgóður leikur undir jólatréð og fínasta skemmtun fyrir krakka á bilinu 6-12 ára og að sjálfsögðu eldri aðdáendur líka. Hann endist vel því að eftir að sagan sjálf er kláruð þá er hægt að flækjast um og leysa alls konar litlar þrautir til að opna fyrir nýjar hetjur. Þetta er góður arftaki fyrri leiksins sem var það endingargóður að var enn verið að grípa í hann þetta ár hjá fjölskyldunni, en nú kemur þessi í staðinn.

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑