Leikjarýni

Birt þann 6. júní, 2017 | Höfundur: Daníel Rósinkrans

Leikjarýni: What Remains of Edith Finch – „Gönguhermir af bestu gerð“

Leikjarýni: What Remains of Edith Finch – „Gönguhermir af bestu gerð“ Daníel Rósinkrans

Samantekt: Gullfallegur leikur sem samnýtir bæði sögu og spilun og býr til einstaka upplifun í formi gönguhermis.

4.5

Frábær!


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Tölvuleikir í formi gönguhermis („Walking Simulator“ á ensku) virðast ætla verða sífellt vinsælli með hverju ári sem líður. Leikir á borð við Firewatch, Everybody’s Gone to the Rapture, The Vanishing of Ethan Carter og fleiri leikir hafa nær flestir gert það gott í þessum frábæra iðnaði, þrátt fyrir mismikla lukku.

Enda kannski ekki bara við leikina að sakast. Gönguhermar hafa mikið verið í sviðsljósinu að undanförnu og hafa jafnvel fjölmargir leikjaunnendur neitað að flokka þá sem hefðbundna tölvuleiki. En hvað gerir leik að tölvuleik? Maður spyr sig.

En þann 25. apríl síðastliðinn bættist einmitt nýr slíkur leikur við flóruna, What Remains of Edith Finch frá leikjahönnuðinum Giant Sparrow. Þeir hafa nú þegar gert það gott með leiknum The Unfinished Swan sem kom út fyrir PS3, PS4 og Vita lófatölvuna.

Það var PC útgáfa leiksins sem var spiluð fyrir þessa gagnrýni.

Gönguhermar eiga oftast eitt markmið sameiginlegt þrátt fyrir að það sé kannski ekki megin stefna þeirra almennt. Að segja góða og hnitmiðaða sögu í þeirri veröld sem leikurinn gerist í.

Gönguhermar eiga oftast eitt markmið sameiginlegt þrátt fyrir að það sé kannski ekki megin stefna þeirra almennt. Að segja góða og hnitmiðaða sögu í þeirri veröld sem leikurinn gerist í. Eftir þó nokkrar upplifanir af þessari tegund leikja, er óhætt að segja að það sé alls ekki auðvelt verkefni. Margir þættir þurfa að smella saman svo að heildar dæmið gangi upp. Til dæmis að tengja spilarann við veröldina hlýtur að vera eitt mest krefjandi verkefnið við gerð þessara leikja. Reyndar á það almennt við tölvuleiki yfir höfuð.

En áfram með söguna. Edith Finch, aðal sögupersóna og jafnframt sögumaður leiksins, gengur í átt að gömlu húsi sem hún ólst upp í, ásamt ættingjum sínum, fyrir mörgum árum síðan. Margar minningar dvelja í húsinu og hafði móðir hennar haldið þeim leyndum frá henni af einhverjum undarlegum ástæðum. Upp kom sá dagur að móðir hennar ákvað að „leysa frá skjóðunni“ á mjög svo skemmtilegan hátt. Til þess þurfti Edith, með lykil í hendi, að fara aftur á gamlar heimaslóðir og kanna þær aðstæður sem áttu sér stað áður fyrr. Bara við það að ýta á pásu á leiknum vakna upp margar spurningar. Við það er ættartré hennar varpað upp og koma í ljós nokkur sláandi ártöl í tengslum við ættingja hennar. Leikurinn fer út í það að segja okkur sögurnar á bak við það allt saman og gerir það einstaklega vel á skemmtilegan máta.

Hér er svo sem engin bylting á ferðinni hvað spilun varðar, en hvernig sagan er sögð í takt við spilunina er stórkostleg engu að síður. Leikurinn nær að samnýta þessa tvo þætti á frábæran hátt sem gerir leikinn að skemmtilegri upplifun, þá sérstaklega fyrir unnendur leikja af þessari gerð.

Hugmyndaflugið er greinilega sett í mikinn forgang sem skilar sér fyrir rest þegar á heildina er litið.

Óvæntar uppákomur eru ávallt á næsta leiti sem fær mann oft á tíðum til þess að brosa og hugsa til þess hvernig leikjaframleiðandanum datt þau atriði í hug sem bregða fyrir í honum. Hugmyndaflugið er greinilega sett í mikinn forgang sem skilar sér fyrir rest þegar á heildina er litið. Við ætlum alls ekki að fara nánar út í það, sökum þess að þær frásagnir gæti spillt upplifuninni fyrir einhverjum.

Eins og sjá má á skjáskotunum hér fyrir ofan lítur leikurinn stórfenglega út og hefur greinilega mikið verið lagt í umhverfið svo að hann líti sem best út. Öllum kröftum hefur verið beitt í þann hluta sem skilar flottum árangri. Leikurinn notar gömlu góðu Unreal 4 grafíkvélina sem hentar honum mjög vel. Keyrir leikurinn þá mjög vel í gegn fyrir utan eitt skipti þar sem persónan festist sökum galla. Því var þó kippt í lag með því að endurræsa leikinn.

Leikurinn bíður spilaranum lítið svigrúm til þess að skoða sig um, enda ekki verið að leggja miklar áherslur á þann hluta. Einnig er gaman að sjá hvernig orð sögumannsins birtast í umhverfinu og leiða mann að næsta áfangastað, sem eru þó engin geimvísindi í sjálfu sér.

Ekki skemmir fyrir að tónlistin er unnin af Jeff Russo sem hefur samið tónlist við gerð þáttaraða á borð við Fargo, The Night Of og Power.

Tónlistin er meiriháttar og í takt við það sem gerist í leiknum að hverju sinni. Sömuleiðis er talsetningin til fyrirmyndar og þá sérstaklega allar þær ólíku raddir sem bregða fyrir ásamt sögumanni. Í hvert skipti sem sögumaðurinn segir stuttlega frá frændsystkinum sínum taka nýjar leikraddir við sem gerir upplifunina skemmtilegri í þokkabót.

Ekki skemmir fyrir að tónlistin er unnin af Jeff Russo sem hefur samið tónlist við gerð þáttaraða á borð við Fargo, The Night Of og Power. Þá býðst Steam notendum einnig að versla lögin í gegnum veituna.

Áður en What Remains of Edith Finch var settur í gang var ekki vitað við hverju maður átti að búast, þrátt fyrir mikil lof á meðal gagnrýnenda. Eftir að hafa spilað leikinn í gegn, sem tók u.þ.b. tvær klukkustundir, koma einkunnirnar alls ekki á óvart.

Leikjaframleiðandinn hefur greinilega lagt sig allan fram við að gera þennan einstaka grip að frábærri upplifun og það tekst svo sannarlega. Hann skilur mikið eftir sig.

Deila má um verðið á leiknum fyrir þann stutta tíma sem tekur að renna í gegnum hann. Leikurinn kostar $20 Bandaríkjadali á Steam (um 2.000 kr. íslenskar) sem er full mikið fyrir þann tíma sem tekur að ljúka við hann. Miðað við hversu frábær heildarupplifunin er má gera ráð fyrir því að einhverjir eiga eftir að spila leikinn aftur, þrátt fyrir að sagan sé öll og nokkuð skýr eftir fyrstu spilun.

Það er óhætt að mæla með leiknum fyrir fólk sem hefur gaman af sambærilegum leikjum og fallegu umhverfi yfir höfuð. Leikjaframleiðandinn hefur greinilega lagt sig allan fram við að gera þennan einstaka grip að frábærri upplifun og það tekst svo sannarlega. Hann skilur mikið eftir sig.

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑