Birt þann 8. mars, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins
0JXD S5110b Android Player umfjöllun
Handhelda Android leikjaspjaldtölvan S5110 frá JXD kom í verslanir árið 2012. Ári síðar kom endurbætt útgáfa á markað sem ber heitið S5110b sem er töluvert öflugri en eldri gerðin. Í þessari umfjöllun eru möguleikar nýrri útgáfunnar skoðaðir og kostir og gallar dregnir fram.
Samblanda af spjaldtölvu og leikjatölvu
Græjan keyrir Android 4.1 stýrikerfið og er með 5“ 5-punkta fjölsnertiskjá með 800×480 upplausn, Dual Core 1.3GHz ARM A9 Cortex örgjörva og Dual Core Mali 400MP HD 3D skjákjarna. Hægt er að tengjast netinu, meðal annars með WiFi stillingum. Tölvan er með USB tengi, mini HDMI tengi og pláss fyrir Micro SD kort. Líkt og í öðrum Android tækjum er hægt er að sækja fjöldann allan af öppum og leikjum í gegnum Google Play netverslunina. Hljóðið verður að teljast nokkuð gott miðað við hve lítil og ódýr græjan er, en tölvan kostar tæpar 20.000 kr. í Tölvutek.
Tölvan er samblanda af spjaldtölvu og leikjatölvu. Takkarnir henta mjög vel til þess að spila leiki á meðan snertiskjárinn er notaður í notendaviðmóti tölvunnar og til að spila leiki og öpp sem sótt eru í gegnum Google Play búðina.
Leikjaúrval fyrir retró spilara
Fyrir utan alla leikina sem hægt er að sækja í gegnum Google Play netverslunina býður tölvan upp á úrval af retró leikjum í gegnum Game Center X leikjaþjónustuna. Í Game Center X er hægt að sækja gamla leiki í PS1, N64, GBA, Famicom (NES) og Sega Mega Drive. Meðal leikja sem hægt er að sæja er Chip ‘n Dale Rescue Rangers, Mega Man, Castlevania, Super Mario Bros 2, Contra, Gradius Galaxies, Super Street Figher II, Ready 2 Rumble, Mortal Kombat Advance, LEGO Racers 2, Metal Slug, Ghouls and Goblins, Mario Kart og fleira. Leikirnir taka ekki mjög mikið pláss en þá er hægt að geyma á SD korti í tölvunni. Flestir af þessum leikjum virka vel og þokkalegt leikjaúrval fyrir þá sem elska retró leiki.
Ekki allir leikir spilanlegir
Það kemur einstaka sinnum fyrir að leikir virka ekki. Til dæmis þegar ég spilaði Mario Golf fyrir N64 hikaði leikurinn og golfvöllurinn hreinlega hvarf. Örfáir leikir sem ég sótti voru með álíka slæman galla sem gerðu leikina hreinlega óspilanlega. Einnig voru nokkrir leikir á japönsku og jafnvel frönsku, sem er frekar leiðinlegt ef maðurskilur ekki tungumálið sem leikurinn er á.
Annað sem getur verið svolítið pirrandi er að stilla stjórntakka fyrir suma leiki. Þar sem leikirnir voru upphaflega hannaðir fyrir aðrar leikjatölvur áttar Android tölvan sig ekki alltaf á því hvaða stjórntakka á að nota. Oft virka takkarnir vel en stundum þarf að vesenast svolítið í stillingunum til að fá takkana til að virka rétt. Aftur á móti eru þessi vandamál ekki mjög alvarleg þar sem allir þessir leikir eru sóttir ókeypis í gegnum Game Center X.
Fjölhæf græja
Það má ekki gleyma því að tölvan er ekki bara leikjatölva heldur líka spjaldtölva og í raun líka flakkari. Á SD kortinu er hægt að geyma ljósmyndir, kvikmyndir, tónlist, tölvuleiki og önnur gögn sem er hægt að spila og skoða í Android spilaranum. Hægt er að vafra um netið, skoða póstinn og annað sem spjaldtölvur geta gert.
Stutt ending á rafhlöðu og sambandsleysi við netið
Helsti ókosturinn við tölvuna er möguleikinn á að spila nýrri leiki. Vissulega er hægt að spila nýja leiki í gegnum Google Play, en þar sem skjárinn er heldur lítill myndu eflaust margir kjósa heldur að spila leikina á hefðbundinni spjaldtölvu með stærri skjá. Á móti kemur að það er hægt að tengja græjuna við stærri skjá.
Annað sem má nefna er að batteríið dugar frekar stutt, í kringum 2-3 klukkutíma, og að tölvan á það til að hitna töluvert þegar hún er í hleðslu og það er verið að nota hana mikið. Einnig slitnaði sambandið við þráðlausa netið reglulega þrátt fyrir að styrkurinn væri yfir höfuð góður.
Ódýr tölva með sína kosti og galla
Android leikjaspjaldtölvan frá JXD er ágæt græja fyrir þá sem vilja rifja upp gamla tíma og spila retró leiki. Aðrir sem vilja spila stærri og nýrri leiki og eru með háar væntingar ættu að snúa sér annað. Tölvan er frekar ódýr og hefur sínar takmarkanir. Hún virkar sem spjaldtölva og jafnvel sem lítill flakkari og þess vegna tilvalinn í ferðalagið eða sumarbústaðinn þar sem hægt er að grípa í leiki, spila tónlist, vafra um netið eða tengja græjuna við sjónvarpið og horfa á kvikmynd. Bara ekki gleyma hleðslutækinu því batteríið er heldur fljótt að klárast!
Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.