Birt þann 8. janúar, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins
0„Lífið er of stutt til að spara sig” – Viðtal við Ólaf de Fleur leikstjóra Borgríkis II
Það var nístingskuldi og rok við höfnina þegar ég gekk inn á hótel Marina til að mæla mér mót við Ólaf de Fleur leikstjóra Borgríkis II. Hann hefur nýlega lokið tökum á framhaldi Borgríkis sem var gríðarlega vinsæl og vel sótt af kvikmyndahúsagestum. Myndin er núna í endurgerðarferli í Hollywood og verður gaman að sjá hvernig útkoman verður. Ég settist niður með Óla og ræddi við hann um kvikmyndagerð og framhald Borgríkis.
Ég byrjaði á því að spyrja Óla hvenær áhugi hans á kvikmyndagerð kviknaði enda klassísk fyrsta spurning til kvikmyndagerðarmanna. „Ég ólst upp í Búðardal og þegar ég var lítill þá keypti mamma handa mér litla vél sem gat sýnt stuttar Disney myndir. Þetta vakti mikla lukku hjá mér og krakkarnir í hverfinu komu til þess að horfa á þessar litlu myndir,” segir Óli þegar hann rifjar upp fyrstu minninguna sem tengist kvikmyndum. „Ég fékk þó ekki löngunina til að gera kvikmyndir fyrr en seinna á lífsleiðinni. Sú löngun vaknaði út af svona low point í lífinu. Ég var þá í kringum tvítugt og vissi ekki alveg hvað ég vildi gera. En málið er að þegar maður er langt niðri, þunglyndur, þá sér maður oft kjarnann í sjálfum sér og hvað maður vill verða. Þá vaknar líka löngun eftir tjáningu og að skapa.”
En málið er að þegar maður er langt niðri, þunglyndur, þá sér maður oft kjarnann í sjálfum sér og hvað maður vill verða. Þá vaknar líka löngun eftir tjáningu og að skapa.
Eftir framhaldsskóla vildi Óli starfa við kvikmyndagerð og á þeim tíma var ekki neinn kvikmyndaskóli. „Ég hugsaði bara hvar eru kvikmyndatökuvélar, þær hljóta að vera í sjónvarpinu og ég hringdi í RÚV. Þar fékk ég samband við tökumann, Pál Reynisson, sem kenndi mér. Það var svona fyrsti skólinn. Svo fór ég að gera lélegar stuttmyndir og svo leigði ég vél og gerði litla heimildamynd sem hét Leiðin til andlegs þroska, mjög stórt nafn,” segir Óli hlæjandi. En hann fór á sínum tíma í Búnaðarbankann árið 1995 til að fá lán til að gera myndina. „Þú getur rétt ímyndað þér að vera tuttugu og tveggja ára gamall og reyna að sannfæra útibússtjóra um að veita mér þrjúhundruð þúsund króna lán til að gera mynd sem hét Leiðin til andlegs þroska. En þetta var kall sem var vanur öllu og hann lét mig fá lán. Ég held að Stöð 2 hafi keypt myndina á sjötíu þúsund krónur. Þannig að ég var með major skuld á bakinu,” segir Óli.
Hann fékk síðan starf hjá kvikmyndafyrirtæki þar sem hann fann fyrir góða lærifeður, Guðmund Arinbjarnarson og Helga Sverrisson. Einnig kynntist hann Þorvaldi Þorsteinssyni listamanni, svo vann hann við að klippa myndir Ólafs Sveinssonar, Braggabúa og Hlemm. Allir hjálpuðu honum að þroskast sem kvikmyndagerðarmaður og segir Ólafur að það sé mikilvægt að finna góða mentora á lífsleiðinni.
Óli fór síðan til Los Angeles til að skoða kvikmyndaskóla en þar áttaði hann sig á því að hann kunni grunninn í kvikmyndagerð og í stað þess að eyða háum fjárhæðum í skóla snéri hann aftur til Íslands og stofnaði kvikmyndafyrirtækið Poppoli. „Ég stofna það með yngri bróður mínum, Benedikt, og Ragnari Santos. Við setjum svo tvær myndir í gang sem voru Africa United og Blindsker sem fjallaði um Bubba Morthens,” segir Óli en hann hefur gert fjölda mynda í gegnum tíðina og komið að framleiðslu annarra mynda.
Borgríki II er stærri í sniðum en fyrri myndin og segir Óli að verkefnið hafi verið krefjandi. Ég spyr hann út í ferlið við gerð svona myndar. „Ég og Hrafnkell Stefánsson skrifum handritið og spilum bara borðtennis, köstum hugmyndum á milli okkar. Ég þarf samt að finna það að ég hafi eitthvað að segja. Ég get verið með einhverja tilfinningu sem ég get ekki einu sinni útskýrt fyrir sjálfum mér en þá get ég haft þá tilfinningu til hliðar og sagt hana í gegnum t.d. Borgríki og svo reyni ég að miðla þessari tilfinningu í gegnum söguna. En handritið tók langan tíma og Hrafnkell skrifaði heilt handrit einn og svo tek ég við því og svo vinnum við með það,” segir Óli og ég spyr hann nánar út í undirbúninginn. „Við storyboard´um sumt ef það er mjög flókið og þessi mynd var mjög flókin, vægast sagt. Miklu stærri en sú fyrri, hærra budget og miklu meira af fólki. Þetta var mjög stressandi en skemmtilegt.” Hann segir að það sé skemmtilegt að vinna með sömu leikurunum því þeir þekki persónur sínar. „Þeir vita nákvæmlega hverjir þeir eru og leikararnir geta þá unnið betur með persónusköpunina. Við æfum með leikurum en svo er ég mikið í því að finna út úr aðstæðum á setti, sérstaklega í tilfinningasenum. Þú leitar og leitar með leikaranum, pælir og pælir. En þetta verður aldrei excel skjal. Leikarinn þarf að vera viðkvæmur og opinn en samt svo konfident. Þannig að ég legg mjög mikla ábyrgð á leikarann,” segir Óli.
Ég spyr Óla nánar út í vinnu með stafræna formið. En fyrri myndin um Borgríki var öll skotin á Canon 5D sem þá þótti nýlunda. „Myndin var með þeim allra fyrstu sem skotin var á Canon 5D,” bendir Óli á og telur að hún hafi jafnvel verið með þeim fyrstu í Evrópu. „Við fórum í samstarf með Halldóri Garðarssyni og Jóni Camson hjá Nýherja og þeir studdu vel við bakið á okkur. En ef við ræðum aðeins kvikmyndatökuna þá er það óvenjulegt við þessar myndir að við erum með tvo tökumenn, þá Bjarna Felix og Gunnar Heiðar. Þeir vinna 50/50 og hanna útlitið á þessum myndum, pæla í lýsingu, römmum og takti,” segir Óli og bendir jafnframt á að þetta samstarf kvikmyndatökumannanna sé gott dæmi um það hve margir komi að svona mynd. „Ég áttaði mig á því mjög snemma að það skiptir engu máli hvernig ramminn er, fólk spáir oft í því hvort hann sé fallegur. Þegar ég gerði Queen Raquela þá spáði ég ekkert í rammanum heldur í karakternum. Því það er enginn kraftur í ramma nema það sé karakter fyrir framan vélina,” segir Óli og bendir á að kvikmyndatökumenn þurfi að skilja söguna. „Það er ekki fegurð sem dómínerar rammann, það sem skiptir máli er að kvikmyndatökumennirnir skilji handritið og hvað sé að gerast í atriðinu. Þá geta menn farið að velja rétta rammann.”
Staða kvikmyndasjóðs hefur verið mikið í umræðunni eftir að ný ríkisstjórn tók til starfa og ég spyr Óla um hans skoðun á niðurskurði til kvikmyndasjóðs. „Þetta er bara sama gamla sagan. Listir eru oft skornar niður við ríkisstjórnarskipti og menning yfir höfuð, ekki bara kvikmyndagerð. Það þarf menningu til að spegla samfélagið og það hefur með heilbrigði að gera. Þetta er bara kommon sens, ef þú vilt hafa heilbrigt samfélag þá þarf ákveðin prósenta að fara í þennan menningargeira.”
Hæfileiki þinn til að ná árangri veltur á hugrekkinu þínu til að þora að líta út eins og hálfviti. Ef þú þorir ekki að drífa þig af stað þá gerist ekki neitt. Lífið er of stutt til að spara sig,
Undir lokin spyr ég Óla hvort hann hafi einhver góð ráð fyrir unga kvikmyndagerðarmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref í bransanum. „Málið er að hver og einn hefur sinn veg og hver og einn þarf að átta sig á þyngdaraflinu í þessum heimi. Þú verður fyrst að vinna ákveðna heimavinnu. Sú heimavinna getur falist í því að fara í skóla eða vinna eitt job, gera stuttmynd eða eitthvað slíkt. Þú þarft samt fyrst að læra að búa til mynd ókeypis. Þú getur aldrei gert neitt einn heldur,” segir Óli og leggur áherslu á að ungt kvikmyndagerðarfólk verði að þora að gera hlutina og gera mistök. „Ef þig langar að byrja í kvikmyndagerð og vilt ekki fara á hausinn þá er bara að redda tökuvél sem er lítið mál í dag og gera heimildamynd sem kostar ekki neitt og ákveða hvað þú vilt segja með myndinni. Það samt skiptir engu máli hvernig myndin verður, aðal málið er að þú áttir þig á hversu svakalega erfitt þetta er en það tekur tíma að átta sig á tungumáli kvikmyndanna. Fólk er líka oft mjög óþolinmótt. Þetta tekur tíma og þú verður að þora. Hæfileiki þinn til að ná árangri veltur á hugrekkinu þínu til að þora að líta út eins og hálfviti. Ef þú þorir ekki að drífa þig af stað þá gerist ekki neitt. Lífið er of stutt til að spara sig,” segir Óli að lokum.
Það er alltaf jafn gefandi að ræða við skapandi fólk eins og Óla sem hefur gríðarlega mikla ástríðu fyrir kvikmyndagerð. Það kostar nefnilega blóð, svita og tár að gera kvikmyndir á Íslandi og við skulum vera þakklát fyrir að það eru kvikmyndagerðarmenn þarna úti eins og Óli sem tjá spegilmynd þjóðarinnar í gegnum linsuna.
Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.