From the Ashes er þriðja viðbótin við Avatar: Frontiers of Pandora leik Massive Entertainment og útgefandans Ubisoft. Leikurinn kom út í desember 2023 og fékk tvo aukapakka 2024. Núna tæpu ári síðar og þegar að þriðja Avatar kvikmyndin Avatar: Fire and Ash er í kvikmyndahúsum, kemur ný viðbót við leikinn sem tengist myndinni.
Í þessari nýju viðbót sem gerist ári eftir atburði grunnleiksins, árið 2170 sen er sama ár og nýja Avatar myndin gerist. Nýr og hættulegur ættbálkur, Ash klanið, hefur komið fram á sögusviðið og eru þeir alger andstæða við flesta Na‘vi ættbálka plánetunnar Pandoru. Þessi her hefur snúið baki við Eywa guðinum og tilbiður nú eld, eyðileggingu og völd yfir hinum ættbálkunum. Ættbálkurinn hefur tekið saman við RDA her mannkynsins sem heldur áfram að reyna að leggja undir sig Pandoru og auðlindir hennar án þess að skeyta neitt um velferð plánetunnar eða íbúa hennar.

So‘lek er persóna úr Avatar: Frontiers of Pandora sem kom við sögu í leiknum og er núna aðalpersóna viðbótarinnar. Sagan hans byrjaði löngu áður en saga Frontiers hófst og hafði hann alist upp sem Na‘vi, ólíkt aðalpersónu leiksins. So‘Lek er lokkaður í gildru og sleppur nær dauða en lífi. Til að bjarga fjölskyldu sinni þarf hann að berjast við ótal óvini og ná fram hefndum.
Stærsta viðbótin við Avatar leikinn er eitthvað sem kom sem frí uppfærsla nokkrum vikum áður en að From the Ashes kom út, ekki þarf að eiga nýja aukaefnið til að njóta þess. Nú er leikurinn með nýjan þriðju persónu valmöguleika til að spila í gegnum. Auðvelt er að skipta á milli fyrstu og þriðju persónu sjónarhorni eftir því hvað maður er í stuði fyrir í hvert sinn, fyrir mínar sakir þá hef ég nærri eingöngu spilað leikinn og aukaefnið hans í þriðju persónu.
Þessi viðbót var eitthvað sem leikmenn voru búnir að biðja hönnuði leiksins mikið um síðan að leikurinn kom út fyrir um tveimur árum síðan. Ubisoft og Massive hafa verið duglegir að bæta við leikinn á þessum tíma og hlusta á gagnrýni og ábendingar leikmanna.
Það sögusvið sem leikmenn höfðu vanist í gegnum leikinn eyðileggst fljótt í byrjun viðbótarinnar og er það mjög svipað atburði í nýju Avatar myndinni. Mongkawan ættflokkurinn, eða ösku-fólkið með hjálp RDA hersins ræðst á heimatréð og veldur gríðarlegri eyðileggingu og dauðsföllum, þessi árás er síðan kveikjan atburðum From the Ashes.

Það er vel yfir tuttugu tímar af nýjum ævintýrum í boði og ótal nýjungar í spilun leiksins og er gaman að sjá hvernig leikurinn og kvikmyndaserían ná að tengjast nánar en hefur verið. Það er munur að spila á móti Na‘vi óvinum í stað hefðbundinna manna og vélrænna óvina eins og hafði verið áður.
Kjarni spilunar er að finna þrjá „boss“ karaktera til að kljást við ásamt virki og óvinaherbúðir sem er oft hægt að nálgast á ýmsa vegu. Hægt er að veikja RDA stöðvar á kortinu með að ráðast fyrst á smærri búðir í kringum til að veikja virkin og síðan ráðast á aðalstöð svæðisins
So’lek hefur nýja hæfileika og er með „stríðsmanna skynjun“sem leyfir honum að sjá alla óvini í kringum sig ásamt því að skaða óvini og verða fyrir minni skaða sjálfur. Þetta er þó tímabundinn hæfileiki sem þarf að byggja upp áður með því að berjast við óvini fyrst. So’lek hefur möguleika á að afgreiða óvini snöggt með hnífnum sínum og virkar það vel á móti sterkum óvinum en þarf þó að ná heilsu þeirra talsvert niður fyrst en einnig er hægt að ná að laumast aftan að þeim.

Ég spilaði í gegnum viðbótina á PlayStation 5 Pro og leit leikurinn virkilega vel út og keyrði mjög vel. Það sama má segja um grunnleikinn sjálfan. Heimur Pandoru er gullfallegur að sjá og heyra og er það einn af hlutunum sem leikurinn neglir að mínu mati.
Þetta er ekki byltingarkennd viðbót frekar en aðalleikurinn. En það sem er til staðar er stór og skemmtilegur heimur til að kanna með fínni sögu sem er þess virði að spila í gegnum. Heimur Pandoru bíður upp á stórt sögusvið til að kanna og fjölbreytta spilun í gegn og er From the Ashes fín viðbót við hann.
From the Ashes
Það góða
- Ný persóna að spila sem
- Fjölbreytt spilun
- Na’vi sem óvinir
- Drjúg lengd
Það slæma
- Svipuð spilun og áður
- Ubisoft formúlan
- Sagan ekki djúp
