Í leiknum Winter Burrow fer spilarinn í gervi lítils músarunga sem flytur aftur heim í sveitina sem hann fæddist í eftir að hafa misst foreldra sína. Músarunginn flytur aftur í sama hola tré og hann bjó í áður fyrr og þarf að koma sér þar fyrir, enda enginn búið þar lengi. Til að halda á sér hita þarf hann að kveikja eld í arninum og til þess að geta sofið þarf hann að smíða sér rúm, og til þess þarf hann eldivið.
Banvænn kuldi
Leikurinn gerist um hávetur og er því allt þakið snjó. Þrátt fyrr að músarunginn sé ekki klæddur eftir veðri verður hann að drífa sig út og tína til allskonar hluti sem geta hjálpað honum. Hann býr í skógi svo auðvelt er að finna greinar, ber og feld, sem hann getur svo notað til að hafa í sig og á. Fyrst um sinn getur hann ekki verið lengi úti án þess að krókna úr kulda, þá líður yfir hann og honum tekst naumlega að skríða aftur heim en missir því miður allt sem hann hefur náð að safna í þeirri ferð. Eftir því sem líður á leikinn lærir hann fleiri uppskriftir að húsgögnum, fötum og mat og getur þá t.d. prjónað sér hlýrri föt og þar af leiðandi verið lengur úti í senn.
Eftir því sem líður á leikinn lærir hann fleiri uppskriftir að húsgögnum, fötum og mat og getur þá t.d. prjónað sér hlýrri föt og þar af leiðandi verið lengur úti í senn.
Frænka músarungans spilar stóran part í leiknum og býr hún rétt hjá honum en til þess að komast til hennar þarf hann að fara yfir litla brú sem hefur séð betri tíma. Til þess að laga brúna þarf unginn að finna ýmsan við og þarf því að fara um nágrenni holunnar og höggva hann.

Hættuleg skordýr
Í skóginum leynast ýmsar hættur og eru sum svæði hættulegri en önnur, þarf þá unginn að passa upp á að birgja sig upp af mat til að koma i veg fyrir að líða út af og enda þá aftur heima í holunni sinni. Það er vert að taka fram að helstu óvinirnir eru maurar og köngulær en í stillingum er hægt að haka við því að sleppa köngulónum. Ég hata köngulær svo ég ákvað að haka við að sleppa þeim og komu þá bara sterkari maurar í staðinn.
Það er vert að taka fram að helstu óvinirnir eru maurar og köngulær en í stillingum er hægt að haka við því að sleppa köngulónum.
Skógurinn er ekki ýkja stór en það er samt alveg hægt að villast smá og hefur unginn ekkert kort til að aðstoða sig. Það tekur þó ekki langan tíma að komast upp á lagið með hvar helstu staðirnir eða hlutirnir eru. Bæði eru mismunandi óvinir á mismunandi stöðum en einnig eru ólík ber, viður og annað á mismunandi stöðum í skóginum. Þarf því stundum að fara á vissa staði til að ná í vissa hluti og aðstoða þannig hin dýrin í skóginum.
Leikurinn gengur mikið út á texta samtöl við önnur dýr sem búa í skóginum og þarf unginn oft að hjálpa þeim með ýmis verkefni til að komast áfram í sögunni. Þarf spilarinn því oft að fara fram og til baka og eins er taska ungans fremur pláss lítil svo hann þarf að snúa heim og tæma hana reglulega. Þetta getur verið pínu þreytandi en þar sem skógurinn er ekki það stór þá sleppur það alveg.
Þetta er sjúklega krúttlegur survival-leikur með fallegri grafík en er því miður mjög stuttur. Ekta kósíleikur til að grípa í núna þegar farið er að kólna.
Það góða
- Fallegur og kósí teiknistíll
- Ofurkrúttlegur söguheimur
Það slæma
- Heldur stuttur
- Frekar endurtekningarsamur
