Birt þann 1. janúar, 2025 | Höfundur: Nörd Norðursins
Allt það vinsælasta á Nörd Norðursins árið 2024
Nú þegar árið 2024 er nýliðið er gaman að horfa um öxl og fara yfir það efni sem náði mestum vinsældum meðal okkar lesenda, hlustenda, áhorfenda og fylgjenda. Árið 2024 bauð upp á margt og mikið sem er gaman að rifja upp. Til að mynda voru fjölmargir vandaðir tölvuleikir gefnir út á árinu, hlaðvarpsþátturinn Leikjavarpið hóf aftur göngu sína eftir hlé og nýr penni, Unnur Sól, bættist við nördahópinn.
Leikjarýni ársins: Hellblade II
Það sem gerir leikinn einstakan er sögusvið leiksins sem er Ísland á landnámsöld, auk þess fara íslenskir leikarar með stór hlutverk í leiknum.
Mest lesna leikjarýnin á árinu er Senua’s Saga: Hellblade II. Eitt af því sem gerir leikinn einstakan er sögusvið leiksins sem er Ísland á landnámsöld, auk þess fara íslenskir leikarar með stór hlutverk í leiknum. Leikurinn var skoðaður frá ýmsum hliðum hjá okkur nördunum vegna tengingar hans við Íslands. Steinar gagnrýndi leikinn og segir meðal annars að: „Niðurstaðan er sú að fyrir spilara sem kunna að meta góða sögu sem leggur áherslu á drungalegt umhverfi og erfið viðfangsefni, þá er þetta sannkallað listaverk.“
➤ Lesa Hellblade II leikjarýni
Grein ársins: PlayStation 5 Pro
Við hjá Nörd Norðursins voru með þeim fyrstu til að fá aðgang að PlayStation 5 Pro hér á landi og birtum í kjölfar umfjöllun þar sem farið var yfir allt það helsta varðandi leikjatölvuna. Bjarki skrifaði umfjöllunina og segir meðal annars í sínum niðurstöðum að „PS5 er enn fín leikjatölva og þær breytingar sem Pro tölvan hefur uppá að bjóða geta vissulega verið góðar en alls ekki nauðsynlegar.“ Auk þess var fjallað um PS5 Pro í Leikjavarpinu, hlaðvarpsþætti Nörd Norðursins.
Leikjavarpsþáttur ársins: Zelda: Echoes of Wisdom og Xbox Partner Preview
Frá því í haust hafa þættirnir verið gefnir út á tveggja vikna fresti þar sem fjallað er um allt það helsta úr heimi tölvuleikja.
Á árinu vaknaði Leikjavarpið, hlaðvarpsþáttur Nörd Norðursins, aftur til lífsins eftir um eins árs hlé. Frá því í haust hafa þættirnir verið gefnir út á tveggja vikna fresti þar sem fjallað er um allt það helsta úr heimi tölvuleikja. Vinsælasti þáttur Leikjavarpsins á árinu sem var að líða var þáttur númer 50 þar sem Daníel Rósinkrans, Sveinn Aðalsteinn, Bjarki Þór og Unnur Sól fjölluðu um The Legend of Zelda: Echoes of Wisdom, Xbox Partner Preview og fleira.
➤ Hlusta á 50. þátt af Leikjavarpinu
Frétt ársins: Sinfó heldur tölvuleikjatónleika
Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt tölvuleikjatónleika í september þar sem hljómsveitin spilaði lög úr leikjum á borð við Kingdom Hearts, The Last of Us, Fortnite, Civilization VI, Sea of Thieves, Resident Evil V, Call of Duty: Modern Warfare III, Hades, Baldur’s Gate: The Dark Alliance II, Fallout IV, Starfield og EVE Online. Írska tónleikaskáldið Eímear Noone var hljómsveitastjóri en hún er jafnframt tölvuleikjatónskáld og hefur samið tónlist fyrir World of Warcraft, Overwatch, Hearthstone og fleiri leiki. Í samstarfi við Sinfó gáfum við tveim heppnum fylgjendum miða fyrir tvo á tónleikana.
➤ Lesa frétt um tölvuleikjatónleika Sinfó
Listi ársins: Spilum saman í skammdeginu
Það er eitthvað við að spila tölvuleiki saman hlið við hlið sem gerir upplifunina svo skemmtilega og maður nær að tengjast fólkinu sínu mun betur en að spila saman á netinu.
Á síðu Nörd Norðursins er að finna fjöldan allan af frábærum topplistum. Unnur setti saman stórgóðan lista yfir sófasamvinnuleiki. „Nú þegar dagarnir styttast og nístingskuldi heltekur landið þá verða samverustundirnar inni í hlýjunni enn dýrmætari. Ég fer alltaf að leita af skemmtilegum sófasamvinnuleikjum (e. couch co-op) þegar líður að jólum til að spila með mínu nánasta fólki. Það er eitthvað við að spila tölvuleiki saman hlið við hlið sem gerir upplifunina svo skemmtilega og maður nær að tengjast fólkinu sínu mun betur en að spila saman á netinu.“
➤ Skoða listann yfir sófasamvinnuleiki
Viðtal ársins: Sýnir mýkri hlið vondukallanna með blómaskreytingum
Viðtal sem Bjarki tók við listakonuna Ragnheiði Ýr Markúsdóttur sem „hefur alltaf haft áhuga á því að teikna og mála. Í kjölfar þess að faðir hennar lést árið 2017 hellti hún sér í listina og lærði sjálf að mála og teikna. Auk þess fór hún í nám þar sem hún lærði þrívíddarkvikun. Ragnheiður hefur sótt innblástur úr nördaheiminum í list sinni, meðal annars úr Star Wars og Mario tölvuleikjunum.“
➤ Lesa viðtal við Ragnheiði Ýr
Samfélagsmiðlafærsla ársins: Hellblade 2
Valin brot úr Senua’s Saga: Hellblade II sem sýna Ísland og íslenskt hljóðdæmi voru klippt saman í myndband sem var birt á TikTok-síðu og Instagram-síðu Nörd Norðursins. Smelltu hér til að skoða færsluna á TikTok. Á TikTok og Instagram er að finna fleiri færslur, eins og brot úr Leikjavarpsþáttum, topplista, gjafaleiki, leikjaumfjallanir og margt fleira.
Streymi ársins: Until Dawn hrekkjavökustreymi
Við nördarnir voru með nokkur streymi á árinu á Twitch-rásinni okkar, Sveinn spilaði Star Wars Outlaws og Bjarki spilaði Landnáma og COCOON svo eitthvað sé nefnt. Vinsælasta streymið var hrekkjavökustreymið okkar þar sem Unnur spilaði nýjustu útgáfuna af hryllingsleiknum Until Dawn á PlayStation 5.
➤ Skoða Twitch-rás Nörd Norðursins
YouTube-vídjó ársins: Spilum Landnáma
Leikurinn Landáma fangaði athygli Bjarka en í þeim leik spilar þú sem landnámsætt á Íslandi þar sem markmiðið er að setjast hér að og lifa af kalda og erfiða vetra.
Leikurinn Landáma fangaði athygli Bjarka en í þeim leik spilar þú sem landnámsætt á Íslandi þar sem markmiðið er að setjast hér að og lifa af kalda og erfiða vetra. Vinsælasta YouTube-myndbandið okkar í ár var þegar Bjarki spilaði Landnáma. Fleiri myndbönd er að finna á YouTube-rás Nörd Norðursins, til dæmis er hægt að horfa á upptöku af Hellblade II spilaðann frá upphafi til enda með íslenskum texta.
➤ Fara á YouTube-rás Nörd Norðursins
Við hjá Nörd Norðursins þökkum ykkur kærlega fyrir árið sem er að líða. Við erum stöðugt í leit að áhugaverðu efni svo ef þú ert með ábendingu eða hefur áhuga á að birta þitt efni á vef Nörd Norðursins óskum við eftir því að þú hafir samband við okkur. Gleðilegt nýtt ár!