Fréttir Sea of Thieves Season 14

Birt þann 22. október, 2024 | Höfundur: Daníel Páll

0

Sea of Thieves: Season 14

Núna á dögunum, eða nánar tiltekið 17. október, kom út nýjasta stóra uppfærslan fyrir Sea of Thieves. Þessi uppfærsla kemur með miklar breytingar í heim sjóræningjanna en í þessari uppfærslu er lögð áhersla á að laumupúkast.

Því passar vel að í þessari uppfærslu þá getur staurleggjaði sjóræninginn þinn loksins beygt sig! Það tók nú bara 6 ár, 6 mánuði og 27 daga frá útgáfu leiksins að bæta við hnébeygjuhæfileikum. Með því að vera í feluham þá heyrist minna í þér ásamt því að þú getur átt séns á að fela þig bakvið hluti og landslag, áður en þú rænir þitt næsta fórnarlamb.

Nýju verkfæri sjóræningjanna

Það sem kemur núna í vopnabúr þitt er Grapple Gun, Blowpipe, Hnébeygjur, Dulargervi, Merfruit og meira sem kemur seinna í þessu 14. tímabili leiksins.

Grapple Gun er ný byssa sem gerir sjóræningjanum kleift að skjóta á flest yfirborð og dragast að því. Svona eins og ef Batman væri með staurfót og væri að grafa eftir fjársjóðum meðan hann berst við beinagrindur.

Blowpipe er blásturspílurör sem sjóræningi notar til að skjóta pílum í átt að sínum fórnarlömbum. Hægt er að velja um mismunandi pílur en þær sem eru í boði eru:

⦿ Byssupúðurspíla, sem er með stuttan þráð og springur eftir smástund eftir að hafa lent, hvort sem það var skotmarkið eða ekki

⦿ Eiturpíla, sem gefur óvini vænan skammt af eitri

⦿ Aðdráttarpílan, þessi glitrar eins og fjársjóður og getur laðað að spilara sem beinagrindur, vofur, sjókrabba, hákarla, eða eitthvað verra.

Að beygja sig til að læðast um er mjög kröftug aðferð því ekki aðeins minnkar það hljóðið sem þú gefur frá þér, heldur minnkar það svæðið þar sem óvinir taka eftir þér. Það gefur líka möguleika á nýrri valmynd en í henni geturðu valið dulargervi, svosem að þykjast vera tunna, eða jafnvel fjársjóðskista! Með því að spila og klára ákveðin verkefni er hægt að fá uppfærslur á þessi dulargervi, því ber nú að passa sig á öllu, meira að segja fjársjóðum!

Merfruit, eða Hafmeyjuávöxtur, gefur nú möguleikan á að fela hafmeyjuna sem hjálpar manni aftur upp í sitt skip. Laumupúkar þekkja vandamálið sem hefur plagað þá hinkað til sem er að óvina sjóræningjar gátu séð þína hafmeyju og fattað að það væri laumurotta á svæðinu. En núna ef þessi ávöxtur er eldaður fyrst, og síðan borðaður þá felur þessi hafmeyja sig í nokkrar mínútur, sem gefur enn meira tækifæri á lævísni.

Og eins og alltaf fyrir uppfærslur af svona toga þá eru fullt af jafnvægisbreytingum, en við mælum með að skoða þessa síðu hjá Sea of Thieves sem útlistar uppfærsluna nákvæmlega.

Góða skemmtun í Sea of Thieves!

Deila efni

Tögg:


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑