Birt þann 26. ágúst, 2024 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson
0Andi Han Solo lifir í Star Wars: Outlaws
Samantekt: Skemmtilegt ævintýri um heima Star Wars þar sem þú getur verið hetjan eða skúrkur
4
Mjög góður
Það er búin að vera áhugaverð bið eftir fyrsta Star Wars leiknum sem ekki hefur verið hannaður af EA síðustu 10 árin. Þessi leikur er hluti af verkefni Lucas Films til að opna fyrir Star Wars heiminn meira og leyfa öðrum að spreyta sig. Það eru nokkrir leikir í vinnslu eins og er frá hinum ýmsu framleiðendum. Vonandi ná þeir að koma út en það hafa verið margir leikir síðustu árin sem hafa hætt framleiðslu sem lofuðu góðu eins og Star Wars 1313, Project Ragtag og aðrir.
Star Wars: Outlaws er fyrsti Star Wars leikurinn sem gerist í opnum heimi (open world) og sá fyrsti í samvinnu Ubisoft, Massive Entertainment og Lucas Films Games. Saga leiksins gerist á milli atburða Star Wars: The Empire Strikes Back og Star Wars: Return of the Jedi.
Hið illa veldi Keisarans hefur verið að herða tökin síðan uppreisn Luke Skywalker og vina hans byrjaði og hefur verið að ná hylli fólks í vetrarbrautinni. Í millitíðinni hafa hin ýmsu glæpasamtök náð að dafna og verða ríkari og sterkari.
Kay Vess lendir í vanda eftir misheppnað rán og þarf að leggja á flótta til að bjarga sér og besta vini sínum Nix sem hún hefur lent í ævintýrum með síðan að hún var krakki. Eina leiðin til að losna undan dauðamerkinu sem hefur verið sett henni til höfuðs er að fremja enn stærra rán, borga upp peninginn sem hefur verið sett þér til höfuðs með að safna saman litríkri áhöfn til að hjálpa sér að fremja stærsta rán sem hefur verið framið.
Ef þú ert tilbúin(n) að taka áhættuna þá er vetrarbrautin full af tækifærum
Saga
Kay Vess er ung kona á tunglinu TOSHARA (skapað fyrir leikinn), sem er hættulegt graslendis svæði fullt af glæpum og erfiðu lífi. Eftir að „auðvelt rán“ á heimili glæpaforingjans Sliro fer úrskeiðis og hún rétt nær að sleppa í burtu á skipinu Trailblazer, þá er hún er erfiðri stöðu þar sem hún er eftirlýst af Zerek Besh hættulegum glæpasamtökum sem hafar lagt fram gríðarlega háa upphæð til höfuðs hennar.
Eina leiðin úr þessum vanda er að vinna fyrir helstu glæpasamtök vetrarbrautarinnar eins og Pyke Syndicate, Crimson Dawn, Hutt Cartel eða Ashiga Clan (sem er búið til fyrir leikinn). Með því að taka að sér ýmis verkefni fyrir þau er hægt að vinna sig upp í metorðastiga þeirra, sem leiðir til betri verðlauna, nýrra tækifæra og nýrra vina eða óvina. Þessi samtök eru öll að berjast við hvert annað svo það er mjög auðvelt að ergja eitt á þegar þú vinnur fyrir hitt.
Það koma upp tækifæri í verkefnum að svíkja síðan þann sem þú ert að vinna fyrir í stað meiri peninga, en þá getur orðspor þitt hjá fylkingunni laskast. Svo þetta verður oft visst jafnvægisdæmi að reyna að halda öllum sáttum, sem er nær ógerlegt. Ef þú ergir vissa aðila of mikið, þá lokast fyrir ákveðin svæði í heiminum sem þau stjórna og aðila til að gera verkefni fyrir eða versla af. En til allrar lukku er hægt að laga þetta, með því að taka verkefni frá þriðja aðila sem bætir stöðu þína á ný.
Vélmennið ND-5 er ein fyrsta viðbótin við áhöfn Kay, ásamt öðrum litríkum persónum sem Kay þarft að safna saman til að hjálpa sér úr vandanum sem hún er í gagnvart Zerek Besh glæpa samtökunum.
Þetta leiðir hana um vetrarbrautina á hinar ýmsu plánetur sem hafa sést í öðrum Star Wars sögum. Spilavítisborgin Canto Bight á plánetunni CANTONICA sem sást í Star Wars: Episode VIII The Last Jedi. Frosna KIJIMI þar sem veturinn er endalaus og glæpasamtökin Ashiga Clan ráða öllu. TATTOINE er villta vestrið og eyðimerkur hennar eru Star Wars aðdáendum vel kunnugar. AKIVA er frumskógar pláneta, þakinn miklum gróðri og brjáluðu veðri, þar sem ýmislegt leynist í frumskógunum.
Það eru mörg svæði á hverri plánetu til að kanna, bæði í kringum eða undir borgunum, eða í geimnum umhverfis. Kay notast við geimskipið Trailblazer til að ferðast um á milli heima og síðan þegar er komið niður á pláneturnar er hægt að ferðast um á Speeder bike.
Spilun
Kay er persóna í anda Han Solo, þar sem hugvit hennar og skjót viðbrögð skipta öllu til að lifa af. Svo lengi sem að hún getur ekki talað sig úr vandanum, þá er alltaf gott að hafa góða geislabyssu við höndina. Að brjótast inn í tölvukerfi og opna hurðir og slökkva á myndavélunum getur gert gæfumuninn við að leysa viss verkefni.
Kay notast helst við geislabyssuna sína en getur tekið upp viss vopn tímabundið sem aðrir óvinir missa á jörðina.
Að berjast í leiknum er vanalega eitthvað sem Kay gerir þegar allt annað fer úrskeiðis. Besta leiðin til að fara í gegnum borð leiksins er oftast að laumast um í skuggunum og notast við hæfileika Nix til að trufla óvini, opna nýjar leiðir og benda þér á hvar óvinir leiksins eru staddir. Það er hægt að fara um heilu óvinabælin eða herstöðvar heimsveldisins án þess að neinn verði var við Kay.
Ef þú fremur glæpi gegn herjum Keisarans, þá er leikurinn með „eftirlýstur“ kerfi sem hækkar með tímanum og fleiri og fleiri óvinir koma til að ná þér Leiðir til að ná sér úr vandanum eru t.d. að múta spilltum yfirmanni, hakka sig í gegnum tölvukerfi, flýja svæðið og fela sig og ef að allt fer stórfenglega úrskeiðis þá er eina leiðin að finna Dark Troopers (mjög erfiðir óvinir), sem birtast á kortinu og drepa þá til að stöðva leitina. Ef þú ert í geimnum að berjast við óvini og finnst of erfitt, þá er hægt að hoppa til annarrar plánetu til að fela sig.
Það er hægt að eyða tímanum t.d. með því að veðja á veðreiðar, taka þátt í keppnum á Speed bikes, taka þátt í Sabaac spilum, þar sem þú getur rekist á kunnuglegt andlit úr Star Wars heiminum. Heilinn á mér höndlaði illa Sabaac en ég átti líka erfitt með Gwent í The Witcher leikjunum svo það er ekki að marka mig þarna mikið. Ég hafði mjög gaman af spilakössunum sem hægt er að finna í Cantina kránum og eru þeir leikir einfaldir og skemmtilegir.
Það eru ákveðni „mini leikir“ sem þú þarft að leysa og get ég ekki sagt að ég hafi elskað þá alla neitt sérstaklega mikið. Sá sem pirraði mig líklega mest var þegar Kay var að „hakka“ sig í gegnum vissar hurðir eða kassa. Þá kemur upp á skjá „lock picking“ leikur þar sem þú þarft að ýta á takka í takt við hljóð sem ég átti einstaklega oft erfitt með. Heppilega er leikurinn með góðar aðgengilegar stillingar sem hjálpa til að slökkva á þessu. Það er meira að segja lítill leikur þegar Kay og Nix eru að fá sér að borða vissar máltíðir. Heppilega er þetta þó bara einu sinni á hverri plánetu og sem verðlaun getur Nix fengið vissa bónusa sem hjálpa til í spilun leiksins.
Tónlist leiksins er samin af Simon Koudriavtsev í samvinnu með Wilbert Roget II. Mörg þema og tónar leiksins er undir áhrifum tónskáldsins John Williams sem Star Wars og aðrir kvikmyndaunnendur þekkja vel til. Tónlistin á hinum ýmsum plánetum er mismunandi og á að endurspegla þá plánetu hverju sinni.
Opni heimurinn
Leikurinn spilast í þriðju persónu og býður upp á möguleika að lifa sig inn í persónuna leiksins með að velja á milli vissra valkosta í samtölum og sögu leiksins þar sem er hægt að velja á milli að gera góða hluti, hirða peningana eða bara vera pínu skíthæll.
Hægt er að finna eða kaupa hluti sem uppfæra vopn, skip eða speeder Kay sem hjálpar mikið þegar líður á leikinn. Það eru síðan „sérfræðingar“ sem Kay rekst á sem opna fyrir nýja hæfileika. Til að öðlast þá, þá þarf vanalega að leysa viss verkefni og síðan gera vissa hluti í leiknum. Sem dæmi drepa 5 óvini með 1 striki í heilsu eftir eða opna 5 lása án þess að gera mistök o.s.frv.. Það eru viss svæði sem eru lokuð fyrir Kay í byrjun leiksins sem verða aðgengileg síðar þegar hún hefur fengið réttar uppfærslur eða hluti.
Kay og Nix geta klæðst ýmsum fötum og glingri sem breyta útliti þeirra eða gefa þeim vissa bónusa.
Ýmis verkefni og tækifæri koma stundum í ljós með því að vera á barnum og hlusta á fólkið í kringum þig. Það eru síðan ákveðnir viðburðir í heiminum bæði á landi og í geimnum sem þú getur tekið þátt í og grætt á.
Ég hafði gaman að sjá að það voru fjölbreytilegar leiðir að leysa viss verkefni eða nálgast þau, þetta hjálpaði til að leyfa manni að upplifa smá þann Star Wars draum frá yngri árum. Ég vildi þó ólíkt öðrum vera Logi Geimgengill frekar en Han Solo, þó að hann hafi og verði ávallt eitursvalur.
Tæknilegar hliðar
Leikurinn er hannaður af sænska fyrirtækinu Massive Entertainment og keyrir á Snowdrop grafíkvél þeirra en hún keyrir einmitt marga leiki Ubisoft í dag; allt frá The Division, Mario+Rabbids og næsta Splinter Cell leik.
Massive byrjuðu að búa til herkænskuleiki á PC og má helst nefna Ground Control og World in Conflict. Frá 2008 hefur fyrirtækið verið í eigu franska útgáfurisans Ubisoft. Stærstu titlar þeirra síðan þá eru án efa The Division leikirnir sem seldust mjög vel og síðast Avatar: Frontiers of Pandora sem kom út fyrir síðustu jól.
Ég spilaði í gegnum leikinn á Xbox Series X að mestu og smá á Xbox Series S til að bera saman. ST: Outlaws tekur um 50 GB af plássi en eitthvað meira á PC. Leikurinn er með Quality og Performance stillingar til að velja úr eins og er mjög algengt með leiki í dag. Það síðara er með meira rammahraða 60fps í stað hins sem er 30fps en með betri grafík og hærri upplausn. Persónulega finnst mér fínt að spila leikinn með lægri ramma hraða og betri útliti, en það er ávallt gott að hafa valkostinn. Það er síðan hægt að setja leikinn í 21:9 stærðarhlutfall ef maður vill fá svartar rendur uppi og niðri á skjánum til að skapa meira kvikmyndatilfinningu í spilun leiksins.
Á mínum 33 tímum við að klára sögu leiksins og ótal aukaverkefni þá rakst ég ekki á margar slæmar villur í leiknum, þrátt fyrir að vera að spila hann fyrir útgáfudag hans. Eitt sem ég tók smá eftir er að það er viss áferð í grafík leiksins sem má rekja til uppskölunartækni. Þetta er eitthvað sem helst sést ef þú ert mjög nálægt sjónvarpinu eða tölvuskjánum. En þetta er ekkert sem skemmir neitt fyrir samt.
Ending
Saga leiksins er fín og inniheldur margar skemmtilegar persónur. Hún náði ekki að koma mér mikið á óvart, nema á einum stað sem ég vill ekki spilla fyrir fólki. En ég hafði mjög gaman að þvælast um plánetur leiksins og hef haldið áfram að spila leikinn eftir að sögunni lauk en er ávallt viss plús.
Ubisoft og Massive hafa tilkynnt að leikurinn muni fá bæði frítt efni ásamt keyptu með „Season Pass“ leiksins. Það eru tveir pakkar í vinnslu fyrir leikinn, Wild Card og A Pirate‘s Fortune. Sá fyrri á að koma út í haust eða vetur á meðan síðari næsta vor.
Leikurinn kemur út þann 30. ágúst á PC, PS5 og Xbox Series X|S og hægt er að spila leikinn þremur dögum fyrr ef þú kaupir annað hvort Gold, Ultimate útgáfur leiksins eða ert áskrifandi af Ubisoft+ þjónustunni.
Fyrir Star Wars og hasar leikja aðdáendur, þá er nóg af góðum hlutum til að mæla með Star Wars: Outlaws.
Eintak í boði útgefanda.