Birt þann 9. nóvember, 2021 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson
0Á ystu nöf
Samantekt: Leikurinn er engin bylting en skortir ekki fjörið og fjölbreytileika.
3,5
Fín skemmtun
Eftir að leikjafyrirtækið Ubisoft Annecy hafa einblínt á íþróttaleiki með tölvuleikjunum Steep og Road to the Olympics var forvitnilegt að velta því fyrir sér hvað hvers konar leik Ubisoft Annecy myndi gera næst.
Riders Republic, nýjasti leikur fyrirtækisins, tekur margt af því sem var skemmtilegt í Steep og The Crew (sem er frá Ubisoft), ásamt Forza Horizon (frá Microsoft) og blandar því öllu saman í einn stóran og opinn leik þar sem aðalmálið er að skemmta sér, keppa við aðra og ná sem mestum hraða.
Takmark spilarans í leiknum er að taka þátt í hinum ótal keppnum sem eru í boði, heilla styrktaraðila, vinna sér inn búnað og fatnað og fá að lokum boð um að taka þátt í Riders Ridge Invitational mótinu sem er stór keppni þar sem allar íþróttagreinar leiksins koma við sögu. Þeim er skipt niður í, Bike race, Bike tricks, Snow Race, Snow Tricks og Air Sport Career.
Hægt er að spila leikinn í þriðju persónu eða í fyrstu persónu. Ég vara þá spilara sem eru með hreyfiveiki við leiknum þar sem ferðast er niður fjöll í leiknum á fjallahjóli og öðrum farartækjum og hreyfingin því mjög mikil.
Skíði, snjóbretti og vængbúningurinn (með og án þotu) snúa aftur til leiks úr Steep og fjallahjólið bætist við. Einnig er hægt að nota vélsleða, vélknúnar fallhlífar til að ferðast hratt um risa stóran heim leiksins, sem er samblanda margra þjóðgarða í Bandaríkjunum og byggir á GPS mælingum. Þessu landsvæði er síðan öllu klesst saman í eina heild og útfært þannig að það passi við leikinn. Svæðin í leiknum eru eftirfarandi:
- Mammoth Mountain er full af almenningsgörðum, byggingum og fleiri hlutum sem hægt er að renna sér á á skíðum og brettum.
- Yosemite Valley er fullt af engjum, fossum og fjöllum til að renna sér á.
- Grand Teton skartar hæstu fjöllum leiksins og er draumur hvers vetraríþróttamanns.
- Sequoia er skóglendi, fullt af stórum og gömlum trjám sem er auðvelt að lenda á þegar þið farið niður hlíðarnar á ógnarhraða.
- Bryce Canyon landslagið er stórhættulegt og gullfallegt, ef þú nærð að sjá það þegar þú ferð í gegnum það.
- Zion svæðið er fullt af háum tindum og gilum sem hægt er að svífa eftir.
- Canyonlands er opið og þurrt svæði sem hentar einstaklega vel fyrir reiðhjól.
Það er „social hub“ í leiknum þar sem leikmenn geta kíkt á viðburði í leiknum, fundið fólk til að spila við, kaupa hluti í leiknum, skoða hluti sem aðrir leikmenn hafa búið til o.fl. Mikið er lagt upp úr í leiknum að gefa leikmönnum tækifæri að sérsníða persónuna sem þeir búa til eftir sínu eigin höfði. Þar er líka að finna ótal föt og skrítna búninga sem hægt er að vinna sér inn eða kaupa. Annað hvort gegn peningum sem þú vinnur þér inn í leiknum, eða alvöru krónum í gegnum búð leiksins. Að mínu mati er verðlagið of hátt og hvetur það fólk frekar til að eyða alvöru peningum í stað þess að vinna sér þá inn í leiknum. Leikurinn er einn af fjölmörgu leikjum í dag sem er „Live Service“ leikur þar sem nauðsynlegt er að vera nettengdur mest allan tímann til að spila leikinn og upplifa það sem hann býður upp á.
Zen Mode leyfir þó að spila án þess að vera nettengdur og þá er heimur Riders Republic opinn hægt að kanna svæði og leika sér eins og maður vill, prufa sig áfram í leiknum og skoða sig um á korti leiksins. Vandinn er auðvitað að þú ert ekki að vinna þér neitt inn í leiknum. Zen Mode er eins og sandkassi þar sem þú getur prófað allt sem er í boði en á móti færðu engin afrek skráð (achivements).
Kort leiksins er stútfullt af stöðum, keppnum, landamerkjum til að finna og smella mynd af, földum minjum sem opna fyrir skrítinn útbúnað, glæfrabrögðum (stunts) til að keppa í og fjölmörgum blöðrum sem spilarinn getur safnað.
Það er sérstök tilfinning þegar hoppað er í heim Riders Republic í fyrsta sinn inn að sjá fjölda persóna ýmist svífa um, hjóla, skíða eða hlaupa um í leikjaheiminum. Þessar persónur er yfirleitt aðrir leikmenn sem þú getur spjallað við, boðið í keppnir og slíkt, stundum er þetta þó tölvustjórnuð persóna sem Ubisoft setur inn í leikinn til að gera heiminn meira lifandi.
Til að vinna sér inn þátttökurétt í Riders Ridge Invitational þá þarf að vinna sér inn XP, hækka í getu, vinna sér inn stjörnur fyrir að gera vissa hluti í keppni, fá betri útbúnað og farartæki og er það gert með að taka þá í helstu keppnum leiksins.
Í Tricks Battle er spilurum skipt niður í tvö sex manna lið sem keppast um að gera sem flest brögð og vinna sér inn stig ásamt að ná vissum svæðum á sitt vald (svipað og capture the flag).
Mass Races er líklega uppáhalds hlutinn minn í leiknum og er geggjaðar keppnir sem eiga sér stað með reglulegu millibili. Þetta eru keppnir þar sem þú getur byrjað á fjallahjóli og í gegnum keppnina skipt yfir á skíði, vængbúning og aftur til baka. Á PlayStation 5 og Xbox Series X/S er hægt að vera með allt að 50+ leikmenn í einu á skjánum en á PS4 og Xbox One eru þeir 20+. Þessar keppnir eru hrein ringulreið og er oftast takmarkið hreinlega að komast í mark en ekki endilega að lenda í toppsætunum strax. Að sjá 64 leikmenn fara niður þrönga brekku á skíðum eða fjallahjólum er ótrúleg upplifun sem verður seint leiðinleg.
Í Versus Mode eru keppnir þar sem þú getur keppt við aðra leikmenn í helstu keppnum leiksins. Free for All eins og nafnið gefur til kynna er bara ein stór ringulreið þar sem 12 leikmenn geta keppt í sérstöku spilunarlista sem þeir búa til sjálfir og reynt að finna aðra leikmenn til að keppa við.
Það er auðvelt að finna erfiðleikastillingu sem hentar manni og er lítið mál að láta leikinn til dæmis hjálpa þér með að laga persónu þína að í loftinu svo að þú eigir auðveldara með að lenda eftir að hafa framkvæmt flott trikk. Það eru ótal stillingar sem hjálpa spilurum sem eiga kannski erfiðara með að spila leikinn en aðrir og er gaman að sjá hvað tölvuleikir í dag eru byrjaðir að bæta aðgengi í leikjum sínum þannig að enn fleiri geti notið þeirra. Fyrir þá sem streyma tölvuleikjum þá er að finna fína stillingu sem býður upp á að taka í burtu tónlistina í leiknum þar sem höfundaréttarvarin tónlist getur stundum skapað vandræði þegar verið er að streyma til dæmis á Twitch eða YouTube.
Leikurinn reynir eins og hann getur að vera „hipp og cool“ með því að bjóða upp á litríkar persónur og slangur sem kannski heillar yngri TikTok kynslóðina meira en mig. Best er bara að hunsa persónur leiksins og hafa gaman af því sem er í boði að spila.
Riders Republic er fekar sérstakur leikur þar sem hann er í raun blanda af ýmsum hugmyndum og íþróttum skellt saman í einn pakka. Fyrir suma er líklegt að þessi blanda nái ekki að hitta í mark, það skortir þó svo sannarlega ekki hluti til að gera í leiknum og framleiðendurnir hafa lofað fríu efni á næstu vikum og mánuðum meira niðurhalsefni væntanlegt.
Leikurinn fær prik fyrir að bjóða uppá fría uppfærslu frá PS4 yfir í PS5 og Xbox One yfir í Xbox Series X/S ásamt því að vera með stuðning svo að PC, PlayStation og Xbox spilarar geti spilað leikinn saman.
Ég hefði viljað sjá þá vera með fleiri farartæki á hjólum eins og kannski mótorhjól, umhverfi leiksins bíður minnsta kosti upp á það. Kannski fleiri keppnir eða útgáfur af Mass Races væri ekki heldur slæmt. Leikurinn býður upp á skemmtileg upplifun, en hún er ekki endilega fyrir alla. Það væri gaman að sjá Ubisoft Annecy búa til Steep 2 og fókusa enn meira á vetraríþróttir, það er spurning hvort að ég sé einn um þá skoðun?
Hann reynir að gera ótal hluti, og takast þeir misvel. Kort leiksins er flott en um leið erfitt að fara í gegnum það og vantar að geta falið vissa hluta þess. Leikurinn mætti vera betri í að leiða fólk í gegnum byrjun leiksins og hvaða keppnir er best að einblína á til að vinna sig upp í stað þess að rekast á veggi, bæði bókstaflega og að fatta hvað á að gera næst í leiknum. Með því að reyna að gera nær allt skortir ákveðin gæði í leiknum.