Leikjarýni

Birt þann 27. ágúst, 2020 | Höfundur: Steinar Logi

0

Mortal Shell – Souls-legur leikur sem hittir í mark

Mortal Shell – Souls-legur leikur sem hittir í mark Steinar Logi

Samantekt: Góður leikur fyrir Souls aðdáendur. Skemmtilegur og fín áskorun.

4

Souls snakk


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Það er vitað mál að hluti leikjamarkaðarins fær ekki nóg af leikjum í anda Dark Souls og þess vegna koma þannig leikir reglulega út. Mortal Shell er einn slíkur og Cold Symmetry eru ekki að reyna fela hvað hafði áhrif, þvert á móti þá er leikurinn lofgjörð til FromSoftware leikjanna og sérstaklega upprunalega Dark Souls. Þessi fámenni hópur leikjahönnuða nær mjög vel þrúgandi andrúmsloftinu, einkennandi arkitektúrnum og ófyrirgefandi bardagastílnum þannig að Miyazaki sjálfur yrði stoltur. Jafnvel samræðurnar og allar upplýsingar eru algjörlega í lágmarki eða svo mystískar að hálfa væri nóg. Vonandi útskýrir Vaatividya bakgrunn leiksins einhvern tímann fyrir okkur.

Þrátt fyrir að þessi leikur sé kannski aðallega fyrir harðkjarna aðdáendur þá er hann ekki óréttlátur og reynsluminni Souls spilarar geta alveg staðið komist upp á lagið með leikinn. Það er helst byrjunin sem gæti verið erfið þegar maður er að ná tökum á bardagatækninni og ná áttum.

Þú byrjar leikinn sem húðlaus vera í mannslíki „foundling“ sem getur tekið yfir dauðar fyrrum hetjur eða skeljar eins og það kallast í leiknum. Skeljarnar fjórar sem maður finnur fljótlega hafa allar sína sérstöðu og koma í stað leikklassa. Ein er með mjög mikið líf á meðan önnur er með mikið þol og hvert þeirra er með sitt eigið hæfileikatré sem þú þróar smátt og smátt. Þessi virkni kemur í staðinn fyrir að búa til sína eigin uppbyggingu í öðrum álíka leikjum þar sem þú deilir stigum eða stats á milli styrks, þols, gáfna, fimni, lífs o.s.frv. Þannig getur þú valið skelina sem hentar þínum spilastíl. Hver skel eða fyrrum manneskja hefur svo sína forsögu sem hægt er að fræðast um smátt og smátt.


Skeljarnar fjórar eða skrokkarnir sem maður finnur fljótlega hafa allar sína sérstöðu og koma í stað leikklassa.

Til þess að styrkja sig þá þarf tvo gjaldmiðla; tjöru (tar) og svipi (glimpses) sem safnast með því að drepa óvini eða nota hluti sem þú finnur í umhverfinu. Souls spilarar þekkja þessar hluti sem sálir og „humanity“ en það seinna er notað í fleiri hluti hérna. Þegar maður sér hlut í fyrsta sinn þá veit maður ekki til hvers hann er og maður þarf að nota hann einu sinni.  Til að þekkja hlutinn algerlega þá þurfa þeir að vera notaðir oftar en einu sinni og yfirleitt tíu sinnum til að fá það besta úr þeim. Þetta er skemmtileg nálgum því að t.d. ef þú notar eitraðan svepp nokkrum sinnum þá á endanum byggirðu upp ónæmi (Princess Bride, einhver?) og þá eru þessi sveppir orðnir lækning gegn eitri. Heilsuflöskur eða það sem Souls spilarar þekkja sem Estus finnst í umhverfinu en verður til aftur og aftur eftir einhvern tíma.

Bardagakerfið er eins og við má búast af lofgjörð til Dark Souls en með einni undantekningu því að þú getur haldið inni takka (L2 á PS4) sem ver algjörlega næsta högg (hardening). Þetta þýðir að óvinurinn getur tekið rosalegt högg og þegar hann er búinn þá ertu algjörlega kominn inn fyrir vörnina hans. En þolið (stamina) hefur mikið að segja því að þú getur bara komið inn ákveðnum fjölda högga áður en þú ert þreyttur og þarft að bakka og jafna þig.

Nýjung hérna er „hardening“ sem ver algjörlega næsta högg hvenær sem það kemur og bíður uppá ýmsar bardagastrategíur

Síðan eru „parry“ og „riposte“ á sínum stað en hérna er farið lengra með þetta. Gott „parry“ getur gefið þér líf til baka eða skilið eftir sprengju á óvininum svo að eitthvað sé nefnt. Þannig að maður græðir á því að tileinka sér þetta en þetta er eins og áður „high risk – high reward“ aðferð því að aðeins þeir bestu geta notað þetta reglulega og jafnvel þá er óumflýjanlegt að klikka stundum. Það er hægt að sleppa þessum algjörlega og nota bara
„hardening“ aðferðina. Að öðru leyti er hægt að rúlla sér undan og gera léttar eða þungar árásir. Vopnin eru eins mörg og skeljarnar eða fjögur og öll eru þau hæfilega ólík.

Mortal Shell er frekar stuttur leikur miðað við aðra álíka leiki og er verðið eftir því eða $30/£25 en hann er vel þess virði og rúmlega það. Hugsanlega tekur það um 20 tíma að klára hann í fyrsta sinn en eftir það þá er hægt að spila hina þrjá karakterana til fulls, uppfæra vopnin sín og uppgötva einhver leyndarmál. Flestir fá hugsanlega nóg eftir að hafa spilað hann einu sinni en undirritaður er enn ekki hættur. Að sjálfsögðu eru óvinirnir erfiðari í NG+ (nýjum leik plús) en þeir sjá þig á sama hátt þar sem þú færð að halda öllu frá fyrri leiknum.


Mortal Shell er frekar stuttur leikur miðað við aðra álíka leiki og er verðið eftir því eða $30/£25 en hann er vel þess virði og rúmlega það

Helstu gallar leiksins eru t.d. að mjög erfitt er að ná áttum í byrjunarsvæðinu því að allt er svo líkt og margar leiðir til að velja um. Leikurinn gefur þér samt vísbendingar um hvert á að fara með að sýna kennileiti sem getur hjálpað. Viðmótið mætti vera betri, sérstaklega vantar að geta raðað hlutum. Einstaka „glitches“ koma upp en ekkert sem brýtur leikinn. Miðað við að kjarni Cold Symmetry eru bara 15 manns þá er þetta mjög vel gert.

Allt í allt er mælir undirritaður með þessum leik og auk þess að vera skemmtilegur og fín áskorun þá vill maður meira. Hann hefur fengið góðar viðtökur og það verður gaman að sjá hvernig Cold Symmetry heldur áfram að styðja hann eða jafnvel gerir Mortal Shell 2. Leikurinn kom út 18. ágúst á PS4, Xbox One og PC.


Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Comments are closed.

Efst upp ↑