Greinar

Birt þann 24. júní, 2017 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson

Leikpeð mánaðarins: Grímur Zimsen – „Svikaragangverkið er í miklu uppáhaldi“

KYNNING

Hvað gerir þú í daglegu amstri?

Ég er hugbúnaðarsérfræðingur hjá Creditinfo og sinni allskyns viðhaldsvinnu og þjónustu í gagnagrunnum. Fyrir utan borðspil þá stunda ég mikla útivist og nýti hvert tækifæri til að hlaupa upp á fjöll.

Hver voru þín fyrstu kynni af borðspilum?

Ætli það hafi ekki verið fyrir um 10 árum síðan þegar ég keypti Risk 2210 eftir að hafa heyrt meðmæli frá vinnufélaga. Við skólafélagarnir spiluðum það annað slagið og færðum okkur síðan yfir í Catan. Þaðan stökk ég út í djúpu laugina og byrjaði að spila Twilight Imperium 3rd edition. Eftir það var ekki aftur snúið.

LEIKVENJUR

Uppfærirðu spilin þín á einhvern máta? T.d með því að setja spil í plastavasa, uppfæra leikmuni eða annað slíkt?

Ég er dálítið veikur fyrir allskyns promotional aukaefni og hef þá yfirleitt pantað það af BGG Store en í þeim tilfellum sem það er ófáanlegt hef ég stundum látið prenta það út fyrir mig. Eina skiptið sem ég hef beinlínis skipt leikmunum út var þegar ég fékk mér DnDeeples míplana fyrir Lords of Waterdeep. Mér fannst trékubbarnir alltaf vera óþarflega abstrakt miðað við restina af spilinu.

Ef leyndar upplýsingar er stór þáttur í spili (t.d. The Resistance eða Battlestar Galactica) þá set ég það undantekningalaust í plastvasa.

Ef leyndar upplýsingar er stór þáttur í spili (t.d. The Resistance eða Battlestar Galactica) þá set ég það undantekningalaust í plastvasa. Maður vill ekki að það sé hægt að þekkja þannig spil á færi af því að það er einhver skráma eða klessa á bakhliðinni. Annars stressa ég mig ekkert yfir því þó spilin máist örlítið með tímanum.

Eitt af því fyrsta sem ég geri eftir að hafa fengið mér nýtt spil er að setja alla leikmuni í smáhlutabox og pappaöskjur. Mig grunar að sumum finnist það jaðra við óstjórnlega skipulagsáráttu en ég stend í þeirri trú að þetta sé mjög þörf og rökrétt leið til að lágmarka þann tíma sem fer í uppsetningu og niðurrif á spilum.

Ég má síðan til með að grobba mig aðeins af nafnspjaldastandinum sem ég nota fyrir spilin í Eldritch Horror. Spilin verða svo miklu aðgengilegri fyrir alla við borðið og þau taka ekki nema einn fjórða af því plássi sem þau myndu annars taka. Geri aðrir betur. 🙂

Hversu oft spilarðu í viku/mánuði. Skráirðu spilanirnar þínar t.d hvort þú sigraðir eður ei?

Ég er í tveimur spilahópum sem skarast aðeins þannig að við náum sirka 3-4 spilakvöldum á mánuði en síðan róast spilamennskan yfirleitt á sumrin og dettur þá niður í 1-2 spil á mánuði. Ég skrái það ekki sjálfur en einn sem er í báðum hópum hefur tekið það að sér. Ég fylgi hart á eftir leikpeði síðasta mánaðar sem trónir á toppnum og stefni að sjálfsögðu að því að velta honum úr stóli.

Ertu meðlimur á Boardgamegeek, ef svo er, viltu deila með okkur spilsafninu þínu?

Heldur betur: rugli

UPPÁHALDS SPIL

Twilight Imperium 3rd edition er í miklu uppáhaldi hjá mér en ratar því miður sjaldan á borðið vegna þess hve langan tíma það tekur.

Hvaða spil er mest í uppáhaldi/mest spilað þessa daga?

Twilight Imperium 3rd edition er í miklu uppáhaldi hjá mér en ratar því miður sjaldan á borðið vegna þess hve langan tíma það tekur. Það er ekki neitt eitt spil sem er spilað áberandi meira en önnur en við erum farnir að taka minni spilin oftar en við gerðum.

Er eitthvað spil sem þú fílar en finnst vera vanmetið?

Ég hef alltaf verið hrifinn af Warhammer: Diskwars en það náði aldrei neinu flugi og kemur sennilega aldrei til með að gera það eftir að Fantasy Flight Games og Games Workshop slitu samstarfinu. Líklega hefur spilið fallið í skuggann af Star Wars: X-Wing. Mér finnst það synd því WH:DW er góður valkostur fyrir þá sem leggja ekki í Warhammer og allt umstangið sem fylgir módelunum.

Hver er uppáhaldshönnuðurinn?

Ég verð reyndar að viðurkenna að ég hef gefið því lítinn gaum hverjir hanna spilin en ætli ég leyfi ekki Christian T. Petersen og Corey Konieczka að deila titlinum.

Hver er uppáhaldsútgefandinn þinn?

Fantasy Flight Games. Ég á enn eftir að prófa spil frá þeim sem mér hefur ekki fundist skemmtilegt.

Áttu þér uppáhaldsþema í borðspili?

Vísindaskáldskapur hefur alltaf skipað ákveðinn sess hjá mér en hryllingur fylgir samt fast á eftir frá því ég uppgötvaði H.P. Lovecraft.

Hvert er uppáhalds gangverk (e. mechanic) í borðspili?

Svikaragangverkið (hidden traitor) er í miklu uppáhaldi hjá mér. Það getur myndast rosalega skemmtileg stemming í spilum eins og Battlestar Galactica þegar það spanast upp vænusýki og tortyggni og enginn veit hverjum er hægt að treysta.

HRAÐASPURNINGAR

Þema eða gangverk?
Gangverk

Samvinna eða keppni?
Samvinna

Lárett eða lóðrétt geymsla á spilum?
Lárétt

Plöstuð eða óplöstuð spil?
Plöstuð

Stutt eða löng spil?
Löng

Werewolf vs The Resistance?
The Resistance

Ticket to Ride vs Catan?
Ticket to Ride

King of Tokyo vs King of New York?
King of New York

ENN FLEIRI SPURNINGAR!

Er eitthvað spil sem þú þvertekur fyrir að spila?

Einu sinni var dregið fram eitthvað eldgamalt íslenskt fánaspil sem einn í hópnum hafði keypt á einhverjum basar. Við spiluðum það meira upp á grínið og það þjónaði tilgangi sínum hvað það varðar en ég sé ekki alveg ástæðu til að endurtaka það.

Hvaða spil finnst þér að eigi skilið efsta sætið á Boardgamegeek?

Ég held ég verði að fá að segja pass við þessari. Það eru til svo mörg frábær spil og svo misjafnt hverju fólk sækist eftir.

Hver er eftir minnilegasta spilaupplifunin þín?

Eitt skiptið sem við spiluðum Eldritch Horror er ansi eftirminnilegt. Þá var einn okkar sem réðst að einhverri neðansjávarófreskju og hafði til þess 13 teninga sem er heill hellingur miðað við það sem gengur og gerist í spilinu. Hann þurfti að fá yfir fjóra á sem flesta teninga en tókst með einhverjum undraverðum hætti að fá undir fimm á þá alla. Þetta er enn þann dag í dag lélegasta kast sem við höfum nokkurn tímann orðið vitni að.

Ef þú mættir einungis eiga 10 spil í safninu þínu hvaða spil yrðu fyrir valinu?

1. Twilight Imperium 3rd edition
2. Battlestar Galactica
3. Eldritch Horror
4. Eclipse
5. Chaos in the Old World
6. Lords of Waterdeep
7. Mansions of Madness 2nd edition
8. Codenames
9. King of New York
10. Warhammer: Diskwars

SPURNINGAR FRÁ KRISTNI HAUK

– síðasta leikjapeði

Hvað má aldrei taka með sér að spilaborðinu?

Snakk sem kámar út spilin.

Hver er lengsti tíminn sem þú hefur spilað í einum rykk?

Það var þegar við spiluðum einu sinni Twilight Imperium samfleytt frá tólf á hádegi til tólf á miðnætti með einu stuttu matarhléi. Einbeitingin var orðin ansi gloppótt undir lokin.

AÐ LOKUM

Það var virkilega ánægjulegt að fá að taka þátt í Leikpeði mánaðarins og ég hlakka til að lesa næstu innslög. Ég skora síðan á Hagalín Ásgrím Guðmundsson til að vera næsta Leikpeð mánaðarins og eftirlæt honum eftirfarandi spurningar:

Hvernig líst þér á þá þróun að snjalltæki og öpp séu óaðskiljanlegur hluti af sumum borðspilum?
Heldurðu að aukið aðgengi að þrívíddarprenturum eigi eftir að hafa einhver markverð áhrif á þróun og/eða framboð borðspila?

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑