Loka valmynd
    Facebook Instagram YouTube Spotify TikTok Twitch
    Nörd Norðursins
    Facebook Instagram YouTube Spotify Bluesky TikTok Twitch
    • Fréttir
    • Greinar
    • Leikjarýni
    • Íslenskt
    • Leikjavarpið
    • Viðburðir
    Nörd Norðursins
    Heim»Spil»Spilarýni: Hver stal kökunni úr krúsinni?
    Spil

    Spilarýni: Hver stal kökunni úr krúsinni?

    Höf. Nörd Norðursins13. maí 2015Uppfært:27. apríl 2016Engar athugasemdir5 mín. lestur
    Facebook Twitter LinkedIn Reddit WhatsApp Tölvupóstur Bluesky Afrita hlekk
    Deila
    Facebook Tölvupóstur Afrita hlekk

    Daníel Páll Jóhannsson skrifar:

    Hver stal kökunni úr krúsinni? er lítið borðspil sem samanstendur af 30 spilum, en í þessum 30 spilum leynist heilmikill leikur. Spilið er gert fyrir 3-7 leikmenn og samanstendur af nokkrum umferðum, þar sem hver umferð tekur 1-8 mínútur.

    Þar sem hver umferð tekur svona stuttan tíma þá er auðvitað tilvalið að taka fleiri en eina umferð, því er mælt með því að skrá niður sigurvegara hverrar umferðar fyrir sig og taka síðan saman heildarsigra í lok spils, t.d. sá vinnur sem er með flesta sigra eftir 7 umferðir.

    Spilið er mjög einfalt að læra en það snýst um að hver spilari er með eitt spil á hendi. Sá spilari sem bakaði síðast köku fær að byrja og dregur spilarinn annað spil, þannig að hann hefur nú tvö spil á hendi. Á hverju spili er texti sem segir hvað gerist þegar spilari setur það út og þarf spilari því að velja. Spilari setur út spilið, framkvæmir það sem stendur á spilinu, ef leikurinn endaði ekki þá á næsti spilari að draga spil, og svo framvegis. Þetta er ekki flóknara en það.

    En textinn á spilunum er það sem gefur þessu spili þokkalega dýpt. Spilin eru myndskreytt með allskonar góðgætum svo sem kleinum, lakkrístoppum og hjónabandssælum, og hvert spil hefur mismunandi eiginleika. Til dæmis, þegar Kleinan er spiluð þá giskar spilarinn á hvaða spil einhver ákveðinn spilari hefur, ef það er rétt þá dettur spilarinn sem átti spilið út úr þessari umferð. Ef spilari setur út Randalínu þá velur hann leikmann sem þarf að kasta sínu spili niður og draga annað. Síðan er það auðvitað spilið með hinni alræmdu krús, eða í þessu tilfelli tómri krús því spilarinn stal kökunum úr krúsinni. Ef spilari setur það spil niður í borðið, tapar hann. Því er nauðsyn að halda því leyndu hvaða spili spilarar luma á. Af því að auðvitað tapar sá sem finnst með tómu kökukrúsina.

    Hverstal01

    Spilið endar þegar einhver spilar niður tómu krúsinni, aðeins einn spilari er eftir, eða að öll spilin klárast. Ef fleiri en einn spilari er eftir, þá er sá spilari sem er með hæsta spilið á hendi sigurvegari umferðarinnar. Nú bætist ennþá við dýpt spilsins. Hvert spil er með tölu, því hærri tala, því betra. Að vera með tómu krúsina á hendi er hættulegt, en gríðarlega gott því hún er með hæstu töluna í spilinu, töluna 8.

    Til að krydda leikinn aðeins, eða ætti maður að segja „til að smella heitri lummi í spilið“, þá eru svokölluð Lummuspil sem hægt er að notast við. Þessi Lummuspil bæta við handahófskenndum atburðum í spilið þegar spilari dregur þau. Til að mynda er spilið Lummudeig, þar sem allir spilarar setja spilin sín saman og rugla þeim, og draga síðan aftur úr þeim bunka, eða Hálfbökuð Lumma þar sem spilahringnum er snúið við. Það eru 8 svona spil en aðeins eru 4 notuð í hverri umferð fyrir sig, og ekki er vitað hvaða Lummuspil eru með, þannig að þetta hjálpar til að halda leiknum þokkalega ferskum.

    Ekki má gleyma að minnast á Kaffispilin en flest spilin eiga sér kaffiútgáfu þar sem virkni þeirra virkar á fleiri eða alla spilara. Til dæmis Kleina & Kaffi gefur spilara möguleikann á að giska á spil allra spilara í borðinu, í staðinn fyrir að velja bara einn spilara til að spyrja.

     

    Gagnrýni

    Hverstal03Hver stal kökunni úr krúsinni? er stutt borðspil sem samt er gaman að. Stutt, laggott og einfalt að kenna. Spilið kemur í litlum umbúðum í stærð við venjulegan spilastokk, þannig að auðvelt er að smella því í vasann og grípa í spilið hvar sem er. Það heillar mig hvað spilið spilast snögglega því að ef einhver dettur snemma úr í umferðinni, þá þarf ekki að bíða lengi eftir næstu umferð.

    Maður er ekki bara heilalaust að draga spil og spila einhverju spili, heldur þarf að fylgjast með hvað mótherjarnir eru að gera og spila sínum spilum samkvæmt því (eða ekki, ef maður vill blekkja). Þarna er strax kominn mannlegi þátturinn inn í spilið, og það er eitthvað sem fær strax plús í mínum bókum.

    Þema spilsins er gott og hlýlegt með flottum skreytingum. Ég mæli með því að vera að sötra kaffi og narta í bakkelsi meðan þú spilar, því þessar myndir kveikir í löngun fyrir bakað góðgæti.

    Ég mæli með þessu spili því það er mjög gott fyrir stutt spil, það er auðvelt að grípa það með sér, auðvelt að spila og kenna en hefur samt einhverja dýpt. Svona stutt spil eru í svolitlum sér flokki sem borðspil og mun ég því huga einkunnagjöf minni að þessum flokki, frekar en borðspil yfir höfuð. Ég gef þessu spili 3 ½  stjörnur af 5 mögulegum.

    P.s. Spilið hver stal kökunni úr krúsinni? er byggt á svipuðu spili sem heitir Love Letter. Ef þú prufar Hver stal kökunni úr krúsinni? og hefur gaman að, þá mæli ég með að þú kíkir á Love Letter.

    Myndir: Karolina Fund

    Daniel Pall Johannsson Hver stal kökunni úr krúsinni spilarýni
    Deila. Facebook Twitter Reddit Tölvupóstur Bluesky Afrita hlekk
    Fyrri færslaLeikjarýni: The Evil Within
    Næsta færsla Spilarar EVE Online styrkja hjálparstarf í Nepal
    Nörd Norðursins
    • Facebook

    Birt af ritstjórn

    Svipaðar færslur

    Skottulæknar í Quacks of Quedlinburg: The Duel

    2. nóvember 2024

    Pest – Spil með sjúklega flott þema

    6. október 2024

    Eldur – Strangheiðarlegt létt samvinnuspil

    23. september 2024

    VAHÚÚ! Lego Super Mario grunnpakkinn prófaður

    30. september 2020

    Spilarýni: Ra – „fljótspilað og skemmtilegt uppboðsspil“

    9. ágúst 2018

    Borðspiladagurinn – Spilað út um allan heim laugardaginn 28.apríl

    25. apríl 2018
    Nýtt á Nörd Norðursins

    Leikjavarpið #62 – Steam Machine og GTA VI seinkað

    17. nóvember 2025

    Leggur til að stofna tölvuleikjabókaklúbb

    15. nóvember 2025

    Það sem við vitum um Gang of Frogs

    15. nóvember 2025

    Icelandic Game Fest haldið í fyrsta

    14. nóvember 2025

    Minnist vinar síns í nýjum tölvuleik – „André dreymdi um að læra íslensku“

    14. nóvember 2025
    Nýjast á Youtube
    https://youtu.be/84R6rYZR0nQ
    Leikjarýni
    8

    Anno 117: Pax Romana

    11. nóvember 2025
    9

    Áttum við að tengjast?

    15. júlí 2025
    8

    Skemmtilegt nostalgíu ferðalag í nýjum búningi

    7. maí 2025
    8

    Indiana Jones and the Great Circle: Enn betri á PlayStation 5 og PS5 Pro

    2. maí 2025
    6

    Krúttleikurinn Hello Kitty Island Adventure dalar hratt

    21. mars 2025

     Um okkur 

    Leita á vef
    Nýjar færslur
    • Leikjavarpið #62 – Steam Machine og GTA VI seinkað
    • Leggur til að stofna tölvuleikjabókaklúbb
    • Það sem við vitum um Gang of Frogs
    • Icelandic Game Fest haldið í fyrsta
    • Minnist vinar síns í nýjum tölvuleik – „André dreymdi um að læra íslensku“
    Facebook Instagram YouTube Spotify Bluesky TikTok Twitch
    © 2025 Nörd Norðursins.

    Skrifaðu fyrir ofan og ýttu á Enter til að leita. Ýttu á Esc til að hætta við.