Birt þann 7. nóvember, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Plain Vanilla gefur út risavaxinn spurningaleik
Íslenska leikjafyrirtækið Plain Vanilla Games voru að gefa út risavaxinn spurningaleik sem er ókeypis á App Store fyrir iPhone, iPad, og iPod touch. Leikurinn heitir QuizUp og gengur út á að keppa við aðra QuizUp spilara í spurningaleikjum í rauntíma. Fyrirtækið hefur gefið út nokkra QuizUp leiki í gegnum tíðina þar sem hver leikur er með sitt eigið þema – t.d. Twilight QuizUp og Basketball QuizUp. Nýji QuizUp leikurinn er klárlega móðurskip QuizUp leikjanna og er mun umfangsmeiri en fyrri leikir fyrirtækisins.
Í nýja QuizUp leiknum er að finna yfir 250 mismunandi spurningaflokka og yfir 150.000 spurningar. Spurningarnar geta verið allt frá uppáhalds sjónvarpsþættinum yfir í tónlist, sögu og íþróttir. Nýjum spurningum er bætt við QuizUp daglega þannig að úr nægu er að velja. QuizUp býður einnig upp á að senda skilaboð til annara QuizUp spilara og einnig er öflug stigataflu þar sem keppendur berjast um toppsætin.
Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.