Leikjarýni

Birt þann 18. október, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: GTA V Online

Nú hefur GTA Online verið í gangi í u.þ.b 3 vikur, en eftir nokkra tæknilega örðugleika lítur allt út fyrir að vera í góðu lagi. Rockstar hefur meira að segja gefið út að þeir ætli að gefa öllum sem lentu í veseni við innskráningu fystu vikuna 500.000 dollara í leiknum. Hinsvegar er ekki hægt að ná aftur karakterum sem hafa glatast vegna mistakanna.

Þegar þú stígur inn í heim GTA Online minnir hann mikið á venjulega heiminn þar sem þú leikur Michael, Trevor og Franklin en eini munurinn fyrst um sinn er að karakterinn þinn talar ekki. Þú hittir Lamar (vin Franklins) á flugvellinum og hann kynnir þig fyrir Los Santos. Nú þegar þú hefur klárað byrjunina með Lamar getur þú farið að skemmta þér.

Maður byrjar sem algjör smáglæpón sem er einungis með eina skammbyssu og þarf að vinna sig upp til frægða. Það gerir maður með því að klára kappakstra, rán og fleira og safna sér RP (reputation points), JP (job points) og pening.
Eini munurinn á þessu og söguhluta leiksins er sá að það eru um 8-16 manns saman á netþjóni, bæði leikmenn sem eru samvinnufúsir en einnig þeir sem vilja gera þér lífið leitt.

Hægt og rólega vinnur maður sig upp um hæfnisstig (level) og fær aðgang að fleiri byssum og verkefnum og þá fer þetta bara að verða skemmtilegra og skemmtilegra.

Litlu hlutirnir

Þegar ég fór fyrst í GTA Online var ég bara einn, það vildi svo til að enginn gat spilað með mér þannig að ég ákvað að kíkja hvort eitthvað væri hægt að gera án þess að vera í hópi (crew). Ég komst að því að nóg er hægt að gera einn og maður þarf ekki einu sinni að vera í sérstöku verkefni til þess að skemmta sér.

GTA Online

Strax og maður byrjar getur maður verið skotinn af öðrum leikmönnum, það er nokkur keppni í sjálfu sér að elta einhvern eða vera eltur og reyna að vinna skotbardaga eða kappakstur. Svo ef þú deyrð útaf einhverjum öðrum leikmanni getur maður skorað á hann í 1 vs 1 „deathmatch“ og séð hvor er betri.

Ein skemmtilegasta reynsla mín í GTA Online var sú að ég var að keyra um í sakleysi mínu og tók eftir því að einhver var að elta mig. Mér þótti það grunsamlegt því ég vissi ekkert hver þetta var. Ég ákvað að fara útaf veginum og út í eyðimörk San Andreas og sjá til hvort þessi einstaklingur myndi nú ekki hætta að elta mig. Hann var hins vegar staðráðinn í því að ná mér og elti mig upp á fjöll og niður í dali þangað til að ég var kominn að sjónum. Ég stökk út úr bílnum og fór að synda að einhverri afskekktri eyju og vonaði að hann myndi gefast upp. Svo var ekki og hann synti út á eyjuna á eftir mér. Nú var ég orðinn nokkuð hræddur því ég var nú bara lágkúrulegur smáglæpón með eina skammbyssu og 5.000 kall á mér. Ég náði loksins smá forustu og hélt að ég væri sloppinn þegar vinur hans kemur á þyrlu! Þeir elta mig í korter og reyna að hrekja mig út af veginum á meðan löggan eltir mig einnig því ég fór að skjóta á þá. Þetta endar náttúrulega á því að ég dey en ég skemmti mér svo konunglega að mér var alveg sama.

GTA Online

Það eru klárlega þessir litlu hlutir sem gera GTA Online þess virði að prufa. Ekki má dæma hann útaf göllunum sem áttu sér stað fyrstu vikuna.

Gallarnir

Talandi um galla þá eru auðvitað einhverjir. Mér hefði fundist gaman að karakterinn minn hefði einhvern talhæfileika til þess að hann gæti haft einhvern persónuleika. Mér þótti nefninlega svo vænt um Michael, Franklin og Trevor þó að þeir væru snargeðveikir. Klárt er að það hefði kostað fúlgu fjár að talsetja nethluta leiksins en það hefði verið mjög skemmtileg viðbót.

Eini gallinn sem fer verulega í taugarnar á mér er tíminn sem tekur að hlaða leikinn. Tíminn er svo langur að ég gæti lesið heila myndasögubók á meðan. Hvort sem ég fer í kappakstur eða eitthvað sambærilegt eða er bara að hlaða inn leikinn til að byrja að spila getur það tekið 2-3 mínútur.

Yndisleg upplifun

Þegar allt kemur til alls er þetta yndisleg viðbót við frábæran leik. Ég get ímyndað mér að ég spili þetta mánuðum eftir að ég klára leikinn. Ég mæli eindregið með að fólk prufi þennan hluta leiksins þrátt fyrir þessa nokkru galla sem hann hefur.

 

Höfundur er Skúli Þór Árnason,
menntaskólanemi.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑