Birt þann 14. júní, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
Leikjarýni: The Last of Us
Samantekt: The Last of Us er tímamótaverk og ferðalag sem allir ættu taka, ef þeir eiga PlayStation 3.
4.5
Tímamótaverk
The Last of Us er nýjasti leikurinn frá Naughty Dog sem færði okkur Uncharted leikjaseríuna. Leikurinn hefur nú þegar hlotið einróma lof gagnrýnenda og á eflaust eftir að fara á marga topplista í lok ársins. Nörd Norðursins slóst með í förina miklu til þess að svala forvitninni.
Leikurinn gerist 20 árum í framtíðinni eftir að útbreidd farsótt hefur tröllriðið heiminum. Fólk lifir í einangruðum herbúðum og verst gegn hinum sýktu. Joel er einn af þeim, hann gerir hvað sem er til þess að lifa af og hikar ekki við að drepa ef einhver ógnar honum. Hann fær það verkefni að smygla táningsstúlku, að nafni Ellie, út fyrir svæðið. Það verkefni vindur uppá sig og ferðalagið tekur þau þvert yfir Bandaríkin, frá austurströndinni til vesturs.
Fyrir þá sem hafa spilað Uncharted leikina ætti spilunin að vera kunnugleg en það eru þó ýmsar nýjungar. Joel geymir allt sitt dót í bakpoka sínum og hefur takmarkað pláss fyrir hvern og einn hlut. Ef maður þarf að hlaða byssuna, búa til heimagerða sprengju eða búa um sár sín þá gerir maður það í rauntíma. Mikið af leiknum fer í það að leita af hlutum sem hafa notagildi og þarf maður að sameina tvo hluti til þess að búa til einn hlut, hvort sem það eru hnífar, sprengjur eða sáraumbúðir. Maður getur fundið kennslubækur til að gera heimagerðu vopnin skaðlegri. Það er hægt að uppfæra byssurnar með varahlutum og tólum sem maður finnur hér og þar, en aðeins á nokkrum stöðum eru vinnubekkir til þess að uppfæra vopnin. Einnig er hægt nota lyf og plöntur til þess að skerpa á eiginleika Joels, til dæmis hversu hratt hann getur búið um sár sín og lengt heyrnarsvið hans. Joel getur notað heyrnina til þess að greina hvort að óvinir séu í nágrenninu, ef þeir gefa frá sér hljóð með hreyfingum eða tali. Það þarf nú varla að taka það fram en leikurinn er ansi ofbeldisfullur enda er allt uppá líf og dauða í þessum leik.
Gervigreind óvina er góð, þeir láta aðra vita ef þeir sjá þig, reyna að króa þig af og fara í skjól. Leikurinn hallast meira að laumuspili, þar sem oftast er betra að læðast um og taka einn óvin í einu eða jafnvel flýja. Maður þarf að tileinka sér öll heimagerðu vopnin ásamt því að spila skynsamlega, annars er hætta á því að maður deyi aftur og aftur. Ólíkt Uncharted seríunni eru eiginlega engar þrautir, hérna þarf maður bara komast frá einum stað til annars. Og það er talsvert um endurtekningar, alveg ótrúlegt hversu mikið maður þurfti að nota stiga, planka og bretti til að komast á milli staða. Ég spilaði prufueintak og var þónokkuð um villur en þetta er eitthvað sem verður að öllum líkindum ekki í lokaútgáfunni.
Útlit leiksins er til fyrirmyndar, bæði hljóð og útlit, sem gerir manni mjög auðvelt að lifa sig inní þessar aðstæður. Maður getur eytt tímunum saman að dást að útliti leiksins, dottið í smá þunglyndi þegar maður gengur í gegnum yfirgefnar íbúðir og kætist aftur þegar Ellie segir eða gerir eitthvað skemmtilegt. Talsetningin er í alla staði frábær og með sögunni jafnast þetta á við hágæða kvikmynd. Tónlistin er mjög lágstemmd sem passar vel við eymdina og vonleysið sem maður sér í leiknum. En þegar hasarinn fer í gang þá koma trommurnar og bassalínurnar sterkar inn sem æsa mann upp.
Ég fór stuttlega yfir fjölspilunina en hún er talsvert frábrugðin fjölspiluninni í Uncharted 2 og 3. Fyrst getur maður valið á milli tveggja hópa og síðan eru tveir leikir sem er hægt að velja um, Supply Raid eða Survivors. Í báðum leikjum eru fjórir á móti fjórum, í fyrri geturðu endurlífgast ef þú deyrð en í hinum ekki. Supply Raid er svipað og Team Deathmatch og í Survivors vinnur liðið þegar það nær að vinna fjórar lotur. Samvinna er eiginlega nauðsynleg, því annars deyr maður bara strax. Fyrir utan þessa leiki, þá ertu leiðtogi hópsins sem þú valdir í byrjun og hver leikur er einn dagur. Maður þarf að þrauka af í tólf vikur og eftir því hvernig manni gengur að safna birgðum í leikjunumhefur það áhrif á hópinn. Hópurinn getur stækkað eða minnkað, fólk verður svangt og sumir veikjast. Þetta er sniðug leið til þess að reyna að betrumbæta leik sinn í fjölspiluninni, því þetta snýst ekki bara um þig. Þetta minnir mann hálfpartinn á tölvuvasagæludýrin sem voru svo vinsæl fyrir meira en áratug síðan.
Það getur tekið allt að 18 klukkustundir að klára söguþráðinn í fyrstu tilraun, jafnvel lengur ef spilarar deyja oft og tímann sem tekur að skoða hvern króka og kima í leit að birgðum. Söguþráðurinn er það sterkur að ég get alveg séð fyrir mér að spila hann oftar og á hærra erfiðleikastigi. Fjölspilunin ætti síðan að lífga talsvert uppá líftíma leiksins. Tæknilega séð er The Last of Us betri og þroskaðri en allir Uncharted leikirnir til samans. Sumir gætu fengið smá leið á því að gera það sama aftur og aftur, lifa af og finna birgðir. En það endurspeglar bara hvernig þessi heimur virkar, maður gerir það sem maður þarf til þess að lifa af… lífið er svo sannarlega ekki ævintýri. The Last of Us er tímamótaverk og ferðalag sem allir ættu taka, ef þeir eiga PlayStation 3.