Birt þann 24. maí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Íslenskur tölvuleikjastraumur á Nörd Norðursins
Á seinustu árum hefur áhugi á Esports og annari keppnishæfri tölvuleikjaspilun stóraukist. Milljónir manna víðsvegar um heiminn spila tölvuleiki ekki aðeins til afþreyingar, heldur einnig til að bæta spilun sína og til að keppa í deildum, riðlum og mótum sem eru smíðuð utan um marga fjölspilunarleiki í dag. Í kjölfar þessarar þróunar hefur einnig sprottið upp mikill áhugi á áhorfi fjölspilunarleikja. Á hverjum degi fylgjast hundruðir þúsunda með sínum uppáhalds spilurum spila í gegnum beinar netstraums (Live Stream) útsendingar, þar sem tölvuleikir á borð við League of Legends, Starcraft 2, DotA 2 og World of Warcraft eru hvað veigamestir. Þessi áhugi hefur ekki látið Ísland ósnortið, en í dag eru nokkrir tugir íslenskra spilara sem streyma leikjunum sínum svo aðrir geti fylgst með afrekum þeirra.
Eitt af höfuðmarkmiðum Nörd Norðursins hefur ávallt verið að styðja við bakið á íslenskri tölvuleikjamenningu, og þar af leiðandi erum við að koma á fót miðlægri síðu þar sem íslenskir leikjastreymarar geta fengið hlekk inn á sína útsendingu.
Eitt af höfuðmarkmiðum Nörd Norðursins hefur ávallt verið að styðja við bakið á íslenskri tölvuleikjamenningu, og þar af leiðandi erum við að koma á fót miðlægri síðu þar sem íslenskir leikjastreymarar geta fengið hlekk inn á sína útsendingu. Með þessari síðu vonumst við til að auðvelda aðgengi að íslenskum leikjastraumum. Bæði til þess að streymendur fái aukið áhorf, en einnig til þess að þeim sem þyrstir í að horfa á samlanda sína spila tölvuleiki hafi stað til að nálgast úrval af slíkum útsendingum.
Til að byrja með mun Nörd Norðursins aðeins tengja inn á strauma frá Twitch, enda um að ræða stærstu straumþjónustuna í boði í dag. Á síðunni verður straumunum skipt niður eftir leikjaflokkum, og hægt verður að sjá hvaða straumar eru í gangi hverju sinni. Einnig fær hver notandi sína eigin undirsíðu fyrir sína útsendingu, þar sem skrifleg lýsing á innihaldi straumsins og fleira getur komið fram ef hann svo kýs.
Ef þú ert með Twitch aðgang, streymir reglulega og vilt koma þér og þínum straum á framfæri, hafðu þá endilega samband við okkur á nordnordursins(at)gmail.com, eða sendu okkur skilaboð á Facebooksíðu Nörd Norðursins. Ef þú hefur áhuga á að fylgjast með íslenskum leikjastraumum, þá verður bráðlega hægt að nálgast úrval þeirra á Leikjastraumi Nörd Norðursins.
Sjáumst þar!
Mynd: League of Legends
Höfundur er Kristinn Ólafur Smárason,
fastur penni á Nörd Norðursins.