Birt þann 22. nóvember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Það kom upp úr fljótinu – Topp 10 íslenskar óskamyndir
Kvikmyndagerðarmenn og handritshöfundar leita í ýmsum skúmaskotum, bæði innra með sér og annars staðar, til að finna góðar hugmyndir að kvikmyndum. Eflaust eiga þeir margir hugmyndir í skúffunum heima hjá sér að myndum sem aldrei urðu eða verða nokkurn tíma að veruleika. Því má segja að hugmyndabrunnurinn sé ótæmandi, því alltaf er hægt að finna eitthvað áhugavert efni til að fjalla um í kvikmynd. Ef það væri nú einnig ótæmandi peningasjóðurinn hjá kvikmyndagerðarfólki hér á landi þá væri hægt að gera mjög margar áhugaverðar leiknar kvikmyndir.
Ég lagðist á beddann og hugleiddi hvaða íslensku kvikmyndir væri gaman að sjá í bíó og hér kemur topp 10 listi yfir leiknar íslenskar kvikmyndir sem gaman væri að sjá á hvíta tjaldinu.
10. Ég lifi og þér munuð lifa
Það hafa ófáar heimildamyndir sem og sjónvarpsþættir verið gerðar um gosið í Vestmannaeyjum sem hófst árið 1973. Leikin kvikmynd sem snýst að mestu leyti um gosið og björgun fólksins frá eyjunni hefur þó ekki verið gerð og því væri áhugavert að sjá slíka mynd enda um mjög merkilegan atburð í Íslandssögunni að ræða.
9. Vetrarstríð
Snjóflóðin á Flateyri og Súðavík voru mikill harmleikur og vandasamt að gera kvikmyndsem byggir á þeim atburðum enda mjög viðkvæmt efni. Heimildamyndin Norð-Vestur tókst mjög vel en leikin kvikmynd er hugsanlega ágæt leið til að útskýra þessa atburði fyrir yngri kynslóðum.
8. Björgunarafrekið við Látrabjarg
Árið 1949 kom út heimildamynd um eitt fræknasta björgunarafrek íslandssögunnar þegar togarinn Dhoon strandaði við umrætt bjarg 12. desember 1947. Þessi björgun þótti mikið afrek og bændur og heimamenn þóttu sýna mikla hetjudáð. Það væri án efa áhugavert að sjá hvernig hægt væri að gera hádramatíska mynd um þessa atburði.
7. Það kom upp út fljótinu
Bandaríska kvikmyndin Creature from the Black Lagoon kom út árið 1954 og þykir vera klassísk skrímslamynd. Það hefur engin íslensk kvikmynd verið gerð um skrímsli sem vaknar upp úr vatni eða fljóti og hrellir grunlausa borgara. Lagarfljótsormurinn er okkar þekktasta skrímsli og því væri tilvalið að gera alvöru íslenska skrímslamynd um orminn og sýna hvernig hann ræðst á Egilsstaði og nágrannabýli, leggur uppskeru og sauðfé í hættu og er svo drepinn af einhverjum góðum aðalleikara. Kannski Þorvaldur Davíð geti tekið þetta að sér, hendum svo Ólaf Darra í grænan skrímslabúning og málið er dautt.
6. Hvíta stríðið
Árið 1921 fyrir framan hús jafnaðarmannsins Ólafs Friðrikssonar brutust út óeirðir. Ástæðan fyrir þessum óeirðum var sú að Ólafur hafði tekið með sér 14 ára gamlan dreng sem þjáðist af smitandi augnsjúkdómi og hafði landlæknir skipað að drengum skyldi vísað úr landi. Ólafur neitaði því og safnaði hann liði sem stóð vörð um húsið. Umsátrið og átök við lögreglu stóðu í 4 daga en loks var drengurinn sendur úr landi og Ólafur handtekinn. Ef þetta er ekki mögnuð saga til að gera kvikmynd úr þá veit ég ekki hvað. Gæti verið svona Dog Day Afternoon fílingur í henni.
5. Ránið
Það er eflaust of snemmt að fara að gera kvikmynd um ógæfumennina sem rændu úraverslunina Michelsen, en það væri áhugavert að nýta einhverja þætti úr því ráni til að gera alvöru „heist“ mynd. Spennandi hugmynd væri að láta verslunina sem rænd yrði vera inni í Kringlunni og fá einhvern ökuþórinn til að keyra inn í kringluna og þeysast svo í gegnum verslunarmiðstöðina og út á Miklubraut í svaðalegum eltingarleik við lögregluna, svipað atriði er að finna í hinni geysivinsælu Blues Brothers mynd. Kringlu-atriðið yrði þó líklega að vera gert í tölvu.
4. Stuðmenn: Sagan öll
Ein vinsælasta hljómsveit í sögu Íslands er án efa Stuðmenn og kvikmynd þeirra Með allt á hreinu sem kom út árið 1982 stimplaði sig rækilega inn í íslenska kvikmyndasögu. Það væri þó áhugavert að gera leikna kvikmynd um það hvernig hljómsveitin varð til og sýna hvernig frægðarsólin reis. Ég trúi ekki öðru en Stuðmenn eigi marga góðar sögur frá upphafsárum hljómsveitarinnar og því ætti að vera auðvelt að henda í eitt stykki handrit. Hér yrði á ferð fyrsta íslenska leikna hljómsveitamyndin sem byggir á alvöru hljómsveit.
3. Villi Vill
Ef við höldum okkur áfram við tónlistina þá væri hægt að gera heilan helling af kvikmyndum um íslenska tónlistarmenn. Einn landsþekktur tónlistarmaður er Vilhjálmur Vilhjálmsson sem á svo sannarlega skilið að gerð sé kvikmynd um hann. Það væri þó erfitt val að finna leikara sem passar í hlutverkið. Þeir sem mér dettur í hug eru sem dæmi Hilmar Guðjónsson eða Jörundur Ragnarsson.
2. Hrunið
Það er kannski orðið gömul tugga að fjalla um hrunið, en það væri áhugavert að sjá kvikmynd sem fjallar um fólk frá ólíkum hliðum samfélagsins og hvernig það tekst á við hrunið. Myndin gæti verið í stíl við kvikmynd Paul Haggis, Crash.
1. ELDGOS
Það hafa engar stórslysamyndir verið gerðar hér á landi og því væri tilvalið að gera kvikmynd sem fjallar um eldgos sem myndi hefjast nálægt bláfjöllum og myndin síðan fjalla um hættuna sem skapast af hrauninu, ásamt tilheyrandi öskufalli, sem myndi nálgast höfuðborgina og leggja dýr og menn í hættu. Myndin yrði náttúrulega í anda stóru smellanna frá Hollywood eins og Volcano með Tommy Lee Jones eða Dante’s Peak. Hér fengju að minnsta kosti íslensku tölvubrellufyrirtækin nóg af vinnu sem og atvinnulausir leikarar því í svona stórmynd þarf nóg af aukaleikurum. Sumarsmellurinn 2014?
Forsíðumynd: Creature from the Black Lagoon (1954)
Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.