Birt þann 18. september, 2012 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason
0IEM Guangzhou aflýst vegna deilna Kína og Japans
Einu stærsta tölvuleikjamóti veraldar, Intel Extreme Masters, sem halda átti í Guangzhou í Kína þann 30. september næstkomandi hefur verið aflýst. Mótið var eitt í röð margra sem áttu eftir að leiða til úrslitamóts sem haldið verður í mars á næsta ári. Ástæða þess að mótinu var aflýst er hin sívaxandi eignarhaldsdeila sem Kína og Japan eiga í vegna Diaoyu/Senkaku eyjaklasans, sem þegar hefur uppskorið hörð viðbrögð frá almenningi í Kína í garð japanskra fyrirtækjaeigenda í landinu. Halda átti mótið á tölvusýningu í Guangzhou, en þar sem fjölmörg japönsk fyrirtæki afboðuðu komu sína var sýningunni aflýst. Í ljósi þessara viðburða tók því stjórn IEM þá ákvörðun að aflýsa mótinu með öllu. Keppa átti í Starcraft II, League of Legends og Counter Strike á mótinu, og voru eflaust mörg lið víðs vegar að úr heiminum búin að gera ráð fyrir þáttöku sinni í mótinu.
Í yfirlýsingu frá Michal Bicharz, stjórnanda Electronic Sports League (ESL), kemur fram að mótinu hafi verið aflýst vegna atburða sem ESL hafði enga stjórn á. „Þrátt fyrir þessa hindrun vinnum við nú hörðum höndum að því að koma á fleiri frábærum viðburðum fyrir alþjóðlega aðdáendur esports.“ sagði Bicharz í yfirlýsingu sinni; „Við munum brátt tilkynna fleiri Intel Extreme Masters mót, meðal annars eitt sem haldið verður í Asíu.“
Enn er verið að spila í riðlakeppnum í mörgum tölvuleikjadeildum sem áttu eftir að ákvarða þáttökurétt liða á mótið, en óljóst er hvort þessar keppnir eigi eftir að koma til með að hafa nokkra aðra þýðingu en að veita spilurum æfingu fyrir önnur komandi mót.
– KÓS
Heimild: GosuGamers