Birt þann 4. júlí, 2012 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason
0Ný ódýr leikjatölva með ókeypis leikjum mögulega væntanleg
Frést hefur að ný sjónvarpstengd leikjatölva sé nú á teikniborðinu. Leikjatölvan sem er hönnuð af fyrirtækinu Ouya, mun ekki einungis koma til með að kosta aðeins 99$, heldur munu jafnframt allir leikir fyrir tölvuna verða ókeypis. Því markmiði er náð með því að hafa tölvuna algerlega óhefta fyrir notendabreytingum, en notendur geta enn fremur hannað og gefið út sína eigin leiki fyrir tölvuna, sem mun að öllum líkindum styðjast við Android stýrikerfið.
Einn þeirra sem kemur að hönnun tölvunnar er Yves Behar, en hann hefur meðal annars hannað 100$ spjaldtölvu sem var ætlað að dreifa til barna í þróunarlöndum. Þá koma einnig önnur stór nöfn úr tölvu- og forritunarheiminum að gerð tölvunnar, en þar má nefna Ed Fries, fyrrverandi varaforseta tölvuleikjadeildar Microsoft, Amol Sarva, stofnanda Virgin Mobile, og Julie Uhrman frá IGN, sem er núverandi framkvæmdastjóri Ouya.
Þrátt fyrir lágan verðmiða, getur aðeins tíminn leitt í ljós hvort leikjatölva sem kemur til með að treysta meira og minna á þróun af hendi notenda, eigi eftir að geta keppt við leikjatölvurisana Microsoft, Sony og Nintendo.
– KÓS
Heimild: The Verge