Leikjanördabloggið

Birt þann 22. febrúar, 2012 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

1

Sega Mega Drive

LNBanner

Fyrir nokkrum vikum síðan fékk ég senda Sega Mega Drive II tölvu sem ég pantaði mér af Tradera, en það er eins konar Ebay Svíþjóðar. Ég ætlaði upphaflega bara að panta mér straumbreyti þar sem ég á fyrir svona tölvu sem ég eignaðist fyrir að verða næstum tveim áratugum, en straumbreytirinn er týndur. En þar sem það var engin leið til að vita hvort tölvan virkaði ennþá eftir langa vist í rykugum geymslum án straumbreytis ákvað ég að kaupa bara tölvu í leiðinni. Það er samt einhver bölvun á mér þegar kemur að því að panta drasl yfir internetið. Ég lendi alltaf í einhverju veseni með sendinguna og verð svo yfirleitt fyrir einhverjum vonbrigðum þegar pakkinn er opnaður.

Sega Mega Drive sendingin var því miður ekki undantekning frá þessari bölvun. Eftir að ég hafði unnið uppboðið fyrir tölvuna á Tradera þá lenti ég í vandræðum með að borga fyrir kaupin. Seljandinn gat ekki tekið við PayPal og síðan sem Tradera notast við til þess að flytja peninga milli notenda er vægast sagt ekki ætluð fólki sem talar ekki eða les sænsku. Eftir miklar þreyfingar um borgunarleið við seljandann ákváðum við að millifærsla væri besta leiðin, en vegna gjaldeyrishaftanna hérna heima þá þurfti ég að fara niður í banka með kvittun fyrir kaupunum, skrifa undir allskyns pappíra og borga 1200kr í þjónustugjald fyrir millifærsluna! Þar sem ég fékk tölvuna á mjög hagstæðu verði afskrifaði ég þetta vesen strax, þetta yrði allt þess virði þegar ég fengi tölvuna í hendurnar. Síðan liðu nokkrir daga, og svo nokkrar vikur og ekkert bólaði á tölvunni. Ég setti mig í samband við seljandann (sem svarar bara einum af hverjum þrem tölvupóstum sem maður sendir honum) og spurði hvar tölvan væri niðurkomin. Hann komst að lokum að því að hann hafði sent tölvuna á mínu nafni og á mitt heimilisfang, en bara til Svíþjóðar (seljandinn er búsettur í Þýskalandi). Vonandi er einhver nafni minn í Svíþjóð núna með þá tölvu.

Hann þurfti því að senda mér aðra tölvu sem hann lofaði að senda með Express flutningum svo hún kæmi örugglega til mín fyrir jól. Aftur liðu dagar og vikur og ekkert fréttist af tölvunni, þannig ég bað hann að senda mér flutningsnúmerið á sendingunni svo ég gæti haft samband við Póstinn. Mínar hugmyndir og seljandans um hvað Express þýðir voru greinilega ekki sambærilegar því Pósturinn komst að því að tölvan mín væri um borð í skipi einhversstaðar út á Atlantshafi, og það væru ennþá tvær vikur í að hún kæmi til landsins. Tölvan kom þó fyrir rest og ég var fljótur að stökkva niður á pósthús til að ná í pakkann. En þegar ég kom heim og byrjaði að taka þýsku dagblöðin sem sendingin var pökkuð inn í utan af tölvunni tóku við enn ein vonbrigðin.

Ég pantaði þrjá leiki með tölvunni og svo átti að fylgja með einn leikur með þremur innbyggðum leikjum. Ég fékk aðeinn EINN af þessum leikjum í pakkanum, og svo til að kóróna þetta allt var fjarstýringin sem fylgdi með svo lamaða takka að ég þurfti að lemja á þá með hamri til að tölvan fengi rafeindaboðin frá fjarstýringunni. Ég sendi auðvitað seljandanum strax póst um að þetta væri gjörsamlega fáránleg þjónusta, og aldrei þessu vant fékk ég strax póst á móti þar sem hann sagðist ætla að senda restina af draslinu daginn eftir. Ég hef ekki heyrt í honum síðan.

Núna þegar ég er búinn að létta þessari ólukkusögu af hjarta mínu get ég talað aðeins um tölvuna sjálfa. Sega Mega Drive, eða Sega Genesis eins og hún hét í Bandaríkjunum, var fyrst gefin út af Sega í Japan árið 1988. Tölvan kom síðan til Bandaríkjanna árinu seinna og að lokum til Evrópu árið 1990. Mega Drive er af fjórðu kynslóð leikjatölvna sem er kennd við 16-Bit tímabilið, en tölvan var næst vinsælasta leikjatölvan af þeirri kynslóð á eftir Super Nintendo tölvunni. Sega hefur aldrei gefið út sölutölur fyrir vélina, en talið er að einhverstaðar á milli 29 til 40 milljónir af þessari tölvu hafi verið seldar um allan heim, á meðan 49 milljón Super Nintendo tölvur seldust á heimsvísu. Sega hætti stuðningi við tölvuna seinast í Evrópu árið 1998, en þrátt fyrir það hafa sjálfstæðir framleiðendur (og pirates að sjálfsögðu) haldið áfram að gefa út leiki fyrir tölvuna, sumir jafnvel með blessun Sega.

Sem betur fer virkuðu gömlu fjarstýringarnar mínar þannig ég gat strax byrjað að spila leiki. Ég átti fyrir slatta af góðum leikjum í tölvuna, bæði frá því að ég var krakki og svo nokkra sem ég hef bjargað úr Góða Hirðirnum við og við. Sega Mega Drive tölvan ásamt famiklóninum mínum eru einmitt þær tölvur sem ég á hvað bestar minningar af úr æsku. Það komu út rosalega margir góðir leikir fyrir þessa tölvu, sérstaklega margir góðir slagsmálaleikir eins og Mortal Kombat leikirnir, Street Fighter II, Primal Rage og fleiri. Ég átti samt alltaf mest af svona hopp-og-skopp leikjum, en besti leikurinn á Mega Drive (að mínu mati) er einmitt slíkur leikur, en það er Sonic The Hedgehog 2. Ég á alla fjóra (hefðbundnu) Sonic leikina sem komu út fyrir tölvuna og hafa þeir einmitt fengið hvað mesta spilun frá því að ég fékk tölvuna.

Það er einn  hlutur sem mér hefur alltaf fundist æðislegur við Mega Drive leikina, en það eru plasthulstrin sem þeir koma í. Hulstrin eru svona mitt á milli þess að vera VHS spóluhulstur og og DVD diskahulstur, en innan í hulstrinu eru bæði leikjahylkið og bæklingurinn fest með klemmum. Þetta gerir það að verkum að það er miklu algengara að finna Mega Drive leiki með bækling og boxi frekar en til dæmis Nintendo leiki, sem komu alltaf í pappakössum sem hafa að sjálfsögðu lélegri endingu. Eitt kom mér samt á óvart varðandi tölvuna, en það er hvað hljóðið í henni er miklu betra í minningunni. Hér gætu eflaust einhverjir verið ósammála mér, en að mínu mati er jafnan mun betri tónlist og hljóð í gömlu NES tölvunni þrátt fyrir að hún sé þó nokkrum árum eldri. Það eru samt leikir í Mega Drive sem eru með flott hljóð, eins og til dæmis Sonic leikirnir, en ég myndi samt segja að það sé mun algengara að leikirnir séu með frekar óspennandi tónlist og hljóð miðað við hvað aðrar tölvur höfðu upp á að bjóða á þessum tíma.

Þrátt fyrir allt vesenið sem er búið að fylgja því að fá tölvuna hingað er ég mjög sáttur með að vera loksins kominn með hana í hendurnar. Ég er ekki ennþá búinn að ná að spila alla gömlu leikina mína þar sem Sonic leikirnir eru svo ótrúlega skemmtilegir að ég lendi yfirleitt í því að setja þá í þegar ég tengi tölvuna. Staðreyndin er reyndar sú að ég hef ekki náð að spila á hana eins mikið og ég hafði ætlað mér því nýlega bættist enn ein leikjatölvan inn á heimilið. Kannski tala ég um þá tölvu í næstu færslu.

Takk fyrir lesturinn!

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



One Response to Sega Mega Drive

Skildu eftir svar

Efst upp ↑