Leikjanördabloggið

Birt þann 3. nóvember, 2011 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

4

Family Computer Disk System

Eins og flestir lesendur Leikjanördabloggsins ættu að vita, þá var þróun NES tölvunnar og Famicom tölvunnar mjög mismunandi, þrátt fyrir að vera í raun sama tölvan og með flesta sömu leikina. Tölvurnar höfðu báðar sömu tölvunargetu og nánast sama rafeindabúnaðinn, en voru öðruvísi í útliti, bæði þegar kom að tölvunum sjálfum og leikjahylkjunum sem gengu í þær. En það er þó ein viðbót við Famicom tölvuna sem sker þessar tölvur enn meira í sundur. Sá hlutur er Family Computer Disk System, eða FDS til styttingar. Ég hef minnst á þetta tæki í fyrri færslum en aldrei útskýrt nákvæmlega hvað það er. Í þessari færslu ætla ég aðeins að fjalla um sögu FDS viðbótarinnar og reyna að útskýra hvað Nintendo gekk til með að gefa út þetta tæki.

 

Aðeins tveim árum eftir útgáfu Famicom tölvunnar voru Nintendo farnir að lenda í vissum vandræðum með leikjahylkin sem gengu í tölvuna. Tölvuleikjaþróunin hafði verið ör á árunum 1983-1985, leikir voru farnir að verða flóknari, dýpri og lengri en það sem hafði áður tíðkast. Aðrar tölvur voru þegar farnar að bjóða spilurum þann valkost að vista framför sína í tölvuleikjum, enda kannski ekki fyrir alla að setjast niður fyrir framan góðan RPG leik og klára hann í 20 klukkustunda setu. Leikjahylkin fyrir Famicom tölvuna buðu því miður ekki upp á þennan valkost (enn sem komið var) og því hóf Nintendo þróun á nýrri viðbót við tölvuna sem myndi leysa þetta vandamál.

Útkoman var Family Computer Disk System, sem kom á almennan markað í Japan í Febrúar 1986. FDS viðbótin var í raun utanáliggjandi diskettudrif sem tengdist við Famicom tölvuna í gegnum hylkishaldarann þar sem leikjum var stungið inn. FDS viðbótin hafði þann möguleika að vera stungið í samband við rafmagn eða ganga á rafhlöðum, þar sem gert var ráð fyrir því að rafmagnsinnstungur væru þegar af skornum skammti meðan Famicom tölvan og sjónvarpið væru í sambandi á sama tíma. Nintendo hóf síðan að gefa út leiki fyrir FDS viðbótina, en þar sem þeir óttuðust að fólk myndi sniðganga viðbótina og halda sig við kaup á gömlu leikjahylkjunum, gáfu þeir það út að allir „bestu“ leikirnir myndu komu út fyrir FDS viðbótina. Þeir stóðu við það lengi, enda komu The Legend of Zelda, Castlevania, Metroid, Kid Icarus og Super Mario Bros 2 allir út á FDS diskum í Japan.

 

FDS diskarnir gátu geymt 56 kílóbæt af upplýsingum á hvorri hlið, sem var stundum ekki nóg og því þurftu sumir leikir að vera skrifaðir á báðar hliðar disksins eða jafnvel á tvo diska. Þegar vissum punkti var náð í þannig leikjum, pásaði tölvan leikinn og bað spilarann að snúa disknum við eða setja inn næsta disk. Sú staðreynd að diskarnir voru líka endurskrifanlegir opnaði nýjar víddir í markaðssetningu fyrir Nintendo. Komið var upp litlum sjálfsölum í leikfangabúðum og öðrum verslunum þar sem fólk gat komið med FDS disk og látið skrifa nýjan leik á hann. Þannig að ef fólk fékk leið á leikjunum sem það átti fyrir gat það látið setja nýja leiki inn á diskinn sinn. Alla jafna kostaði það 500 yen að skrifa nýjan leik á disk, en svo gat fólk líka keypt sér tóma diska á 2000 yen ef það vildi ekki eyða út gömlu leikjunum sínum. Þessi möguleiki opnaði síðan að sjálfsögðu fyrir hugbúnaðarþjófnaði á stórum skala. FDS diskarnir voru ekki einstakir, heldur voru svipaðar diskettur notaðar í allskyns japanskar heimilistölvur. Fljótlega komu diskaafritunartæki á svarta markaðinn, og FDS diskar voru seldir á flóamörkuðum fyrir brot af því sem Nintendo rukkaði fyrir þá. Þrátt fyrir þetta voru FDS diskarnir ennþá töluvert vinsælir, enda kostaði afritun á leikjum í sjálfsölunum mun minna en að kaupa leikjahylki sem bauð ekki upp á þennan möguleika.

 

FDS viðbótin var í raun ekki viðbót lengur, heldur nánast nauðsynlegur hlutur til að geta spilað alla bestu leikina. Þrátt fyrir það var viðbótin háð ýmsum göllum sem gátu verið hvimleiðir. Inni í tækinu er lítið belti úr gúmmí sem keyrir spindilinn sem snýr FDS diskunum. Þetta belti á það því miður til að morkna, slitna og jafnvel bráðna, sem gerir FDS viðbótina um leið ónothæfa. Þetta var að sjálfsögðu hægt að laga fyrir lítinn pening, en frá og með 2004 hefur Nintendo hætt að gera við FDS tækin og því þarf maður annað hvort að reyna við þetta sjálfur, eða finna einhvern sem getur gert þetta fyrir mann. Mér skilst samt að það sé ekki lítið mál að skipta um þetta belti, þar sem það þarf að vera rétt stillt og það að taka í sundur tækið er varla á færi leikmanna. FDS diskarnir voru heldur ekki fullkomnir. Fyrstu diskarnir voru ekki með hlíf fyrir seguldisknum, sem gerði diskinn mjög viðkvæman fyrir allskyns óhreinindum og hnjaski. Þar fyrir utan var ekki ráðlagt að geyma diskanna innan í FDS drifinu þegar það væri ekki í notkun, þar sem diskarnir gætu þá afsegulmagnast og þar af leiðandi misst öll gögn út af sér.

 

En hvernig stendur á því að Famicom tölvan var með FDS viðbótina en ekki NES tölvan? Margir muna eflaust eftir því að hafa spilað The Legend of Zelda af NES leikjahylki en ekki af diskettu. Málið er einfaldlega það, að upphaflega vandamálið sem Nintendo ætlaði sér að leysa með FDS viðbótinni (vöntun á því að geta vistað leiki) leystist á svipuðum tíma og FDS viðbótin kom út. Einhverjum snillingi hjá Nintendo datt í hug að með því að setja litla rafhlöðu inn í gömlu leikjahylkin væri hægt að halda smá spennu á litlum kubb, sem aftur gæti haldið utan um vistaðar skrár innan í hylkinu. Þar sem þegar var búið að henda fullt af peningum í þróun og framleiðslu á FDS tækinu gat Nintendo ekki bara hent þessu á hauganna og hélt því dauðahaldi í FDS tæknina í mörg ár. Það stóð alltaf til að FDS tækið myndi koma fyrir NES tölvuna líka, en þar sem vestrið er alla vegana alltaf nokkrum mánuðum á eftir Japan í tölvuþróun, þá var ákveðið af bandaríska Nintendo fyrirtækinu að notast frekar við rafhlöðuhylkin og lykilorð til þess að gefa spilurum kost á að vista gögnin sín. Japanski armur Nintendo sá fyrir rest að það væri ekki hægt að halda uppi FDS kerfinu mikið lengur og hætti að gefa út leiki einungis fyrir FDS tækið í kringum 1989. Þrátt fyrir það voru ennþá gefnir út leikir á FDS diskum en það var jafn framt líka hægt að fá þá á venjulegum leikjahylkjum. Seinna meir voru líka margir af leikjunum sem höfðu einungis verið gefnir út á FDS endurútgefnir á hefðbundnum Famicom leikjahylkjum.

 

 

Ég persónulega á ekki svona tæki (ennþá) en mér skilst að það sé mun flóknara að safna að sér FDS leikjum en stöðluðum leikjahylkjum. Helsu ástæðurnar fyrir því eru hvað diskarnir eru óstöðugir. Segjum að þú myndir kaupa disk á Ebay. Þegar þú færð hann í hendurnar er alls ekki öruggt að diskurinn sé í lagi því mér skilst að jafnvel gegnumlýsing hjá tollinum sé nóg til þess að skemma gögnin á disknum (alla vegana í sumum tilvikum). Þar fyrir utan gæti vel verið að fyrri eigandi hafi á sínum tíma yfirritað annan leik á diskinn, þannig að diskur sem er merktur The Legend of Zelda gæti í raun innihaldið Pac-Man. Engu að síður stefni ég á að eignast svona tæki einhvern tíman, og þá helst til að prufa þá leiki sem komu aldrei út á hefðbundnum hylkjum. Þá er líka jafnvel möguleiki á því að maður nái að klára Castlevania, eins góður leikur og hann er þá er hann líka fáránlega erfiður, og það eitt að geta vistað á milli borða ætti að hjálpa manni heilan helling.

Takk fyrir lesturinn!

Heimildir: Famicom World, Famicom Disk System, Wikipedia.

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



4 Responses to Family Computer Disk System

Skildu eftir svar

Efst upp ↑