Birt þann 25. október, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Leikjarýni: NHL 12
EA Sports eru hvað þekktastir fyrir FIFA leikina hér á landi en fyrirtækið býður upp á fjölda annarra íþróttaleikja. NHL íshokkíserían er þar á meðal en NHL 12 sem kom út þann 9. september 2011 er sá nýjast í röðinni. Íslendingar virðast yfir höfuð ekki vera að missa sig yfir íþróttinni sem hefur gjarnan fallið í skugga gífurlegra vinsælda fótbolta- og körfuboltaleikja. En er eitthvað varið í leik um íþrótt sem maður hefur ekki hundsvit á? Stutta svarið er: Já!
Valmöguleikar
Líkt og í mörgum öðrum stór leikjum (NHL leikirnir flokkast sem stór leikjasería þó hún sé ekki mjög mikið spiluð hérlendis) frá EA Sports hefur spilarinn úr mörgu að velja. Hann getur skellt sér í snöggan vináttuleik, spilað um bikar, hannað sína eigin leikmenn og lið, spilað um deildartitil eða einfaldlega æft sig með pökkinn á svellinu.
Fyrir þá sem eru ekkert inn í íshokkí þá virðist margt af þessu vera hálfgerður frumskógur þar sem nöfnin á keppnunum og liðunum hringja engum bjöllum, en örvæntið ekki, ef spilarinn hefur spilað nýlega leiki frá EA Games þá eru flestir þættir byggðir upp með svipuðum hætti.
Eini ókosturinn við alla þessa valmöguleika er að leikurinn tekur stundum sinn tíma í að tengjast EA netþjónunum sem geta verið tregir. Þar sem flestir spilarar í dag eru vanir snöggum viðbragðstíma að þá virðist þetta stundum ætla að taka heila eilífð (sumir þekkja álíka vandamál í nýlegum FIFA leikjum).
Spilun og stjórnun
Ég er á meðal þeirra Íslendinga sem spá ekki mikið í íshokkí. Ég hef heldur ekki verið að spila mikið af íshokkíleikjum og tengi þetta fyrirbrigði einhvernveginn alltaf við The Mighty Ducks og níunda áratuginn. Um leið og ég náði þokkalegri stjórn á leiknum (sem tók um tvo til þrjá æfingarleiki) var ég orðinn þyrstur í að skora mitt fyrsta mark. Í fjórða leiknum lagði ég pökkinn framhjá markverðinum og inn í netið. Þvílík þruma! Tilfinningin við að skora markið og sigra leikinn var nánast sú sama og þegar ég spila FIFA 12 sem mitt uppáhalds fótboltalið – þrátt fyrir að ég fylgist ekkert með íshokkí!
Harkan í leiknum sem getur svo endað í slagsmálum (eins og þekkist almennt í íshokkí) sem getur brotið leikinn upp á skemmtilegan hátt.
Stjórnun leiksins er mjög þægileg og einföld. Ég spilaði leikinn á Xbox 360 og þar notaði ég að lang mestu leiti stýripinnana tvo (analog sticks) til að stjórna í hvaða átt leikmaðurinn skautar og til að skjóta á markið og stela pökknum. Spilarinn notar fleiri takka, til dæmis til að skipta um leikmenn og gefa sendingar á samherja, en það tekur smá tíma að læra á helstu stjórnunarmöguleikana.
Grafík og hljóð
Grafíkin í leiknum er þokkaleg. Líkt og í fótboltaleiknum FIFA er myndavél leiksins í flestum tilfellum langt frá leikmönnunum svo spilarinn fær gott útsýni yfir það sem er að gerast í leiknum og þar af leiðandi er ekki þörf á ítarlegri grafík. Einu skiptin sem myndavélin fer nálægt leikmönnunum er þegar eitthvað sérstakt gerist í leiknum, eins og þegar spilarinn skorar mark, brotið er á leikmanni eða spilarinn vill spila valið atriði aftur (replay). Það er ansi lítið hægt að setja út á grafíkina út frá því hvaða tilgangi hún á að þjóna – hún er ekkert til að slefa yfir en er ekki heldur léleg. Þetta er einfaldlega grafík sem dugar þessum leik mjög vel.
Hljóð leiksins er á svipuðum slóðum og grafíkin. Hljóðin þegar leikmenn skauta um og hljóðin sem koma í kjölfar þess að einhver skorar mark eru ákaflega vel heppnuð. Ég held reyndar að sama hvaða hljóð kæmi eftir að maður sjálfur skorar mark – það myndi líklega hljóma vel.
Niðurstaða
Pökkurinn liggur inni! Þetta er frábær íshokkí leikur sem auðvelt er að detta í og sem alvöru íþróttaleikja unnendur ættu að prófa. Að spila á móti vini gerir leikinn jafnvel enn skemmtilegri og enn harðari (getur breytt íshokkíleik í slagsmálaleik!) Aftur á móti ef íþróttaleikir eru ekki þinn tebolli ættiru að láta þennan eiga sig, líkt og aðra íþróttaleiki.
GRAFÍKHLJÓÐSPILUNFJÖLSPILUNENDING |
8,07,58,08,58,0 |
SAMTALS |
8,0 |
–
– Bjarki Þór Jónsson