Greinar

Birt þann 10. nóvember, 2017 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson

Leikpeð mánaðarins: Embla Vigfúsdóttir – Hönnuðurinn að Hver stal kökunni úr krúsinni

Kynning

 

Hvað gerir þú í daglegu amstri?

Ég var með sjálfstætt starfandi fyrirtæki sem sérhæfði sig í borðspila-grafík, svo eignaðist ég barn þannig að núna er ég að leita að starfi sem grafískur hönnuður.

Hver voru þín fyrstu kynni af borðspilum?
Ég man alltaf eftir því þegar ég fann Útvegsspilið í sumarbústaðnum hennar ömmu þegar ég var lítil. Mér fannst þetta þvílíkur fjársjóður (öll þessi peningabúnt!) og ég fékk að eiga það. Reglubókin fylgdi ekki með í kassanum svo þær voru byggðar á minni frænda míns og við fylltum í eyðurnar. Ég elskaði þetta spil og við spiluðum það mikið og stundum hélt eitt spil áfram marga daga í röð.

Um daginn var ég eitthvað að skoða spilið og rakst þá á inn í einu peningabúntinu heimagerð greiðslukort, bæði “Krepit”- og “Vísukort”. Á öðru þeirra var skrifað slagorðið …og þér takið úr bankanum. Eftir að ég las síðan alvöru reglurnar áttaði ég mig á því að okkar spil snerist meira um peninga og verðbréf en frystihús og fiskimjölsverksmiðjur (slepptum þeim nú alveg!). Þetta var fyrsta reynsla mín af “alvöru” borðspili og er mér mjög minnistæð. Kannski að regluleysið hafi kveikt á spilahönnuðinum í mér?


Geturðu sagt okkur aðeins frá því hvernig það var að hanna og gefa út sitt eigið borðspil í samstarfi við Karolina Fund?

Endilega! Spilið Hver stal kökunni úr krúsinni? kom út fyrir jólin árið 2014 með aðstoð Karolina Fund. Hugmyndin kviknaði út frá spilinu Love Letter sem ég var mjög hugfangin af. Við vorum búin að spila það svo mikið að það var alveg að “klárast”, svo við fórum að bæta við spilum og prófa með vinum okkar. Upprunalega hugmyndin var svo að prenta spilið í nokkrum eintökum og gefa í jólagjöf og þess vegna valdi ég jólaþemað. Þegar ég var búin að klára grafíkina á spilin var ég hvött til að prenta það bara út í góðu upplagi og selja fyrir jólin. Mér fannst það mjög góð hugmynd en ég hefði aldrei getað það nema með hópfjáröflun hjá Karolina Fund. Takk allir sem studdu!

Frumgerð Kökuspilsins

Lokaútgáfa


Eru fleiri spil á teikniborðinu?

Ég er einmitt að leggja lokahönd á grafík fyrir spil sem heitir Heritage Heroes sem er hannað fyrir UNESCO af Thomas Vigild. Spilið á að kenna börnum um menningararfleið heimsins, en spilararnir eiga að reyna að vernda menningarlega staði eins og t.d. Stonehenge eða Taj Mahal. Einhverjir spilaranna eru leynilega svikarar og þegar þeim tekst ætlunarverk sitt er spilið með menningarverðmætinu rifið, svo menningararfurinn eyðileggst í alvörunni í spilinu.

Fyrir áhugasama er heimasíðan mín emblav.com og þar gefur að líta fyrri verk mín.

Frumgerð af spilinu Heritage Heroes

Leikvenjur

Uppfærirðu spilin þín á einhvern máta. T.d með því að setja spil í plastavasa, uppfæra leikmuni eða annað slíkt. Endilega nefndu dæmi.

Jepsó! Hef mjög gaman af því að dubba sum spilin okkar upp. Mér finnst skemmtilegast þegar borðspil eru með alsráðandi þema og stundum hef ég búið til leikmuni og málað fígúrur fyrir spil til að kalla þemað enn frekar fram. Ég bjó til dæmis til mat úr leir og sagaði litlar trjágreinar fyrir Robinson Crusoe því mér fannst trékubbarnir svo óspennandi. Ég málaði líka allt í The Adventures: The Temple of Chac og mig langar líka voðalega að gefa mér tíma í að mála fígúrurnar í Mansions of Madness.

Annað dæmi um breytingu sem við höfum gert er að fjarlægja það sem okkur finnst óspennandi eða leiðinleg spil úr sumum spilum. Við fjarlægðum til dæmis öll “mandatory quests” úr Lords of Waterdeep og niðurstaðan var margfalt skemmtilegra spil (að okkar mati) sem snýst núna meira um að gera vel sjálfur frekar en að draga aðra niður.

Mörg spilanna í safninu eru í plastvösum, sérstaklega spil sem eru mjög elskuð á heimilinu eða þegar það er mikilvægt að maður sjái ekki mun á bakhliðum spilanna, t.d. Dominion og One Night Ultimate Werewolf.

Málaðar fígúrur úr The Adventures: The Temple of Chac

Matur og timbur fyrir Robinson Crusoe

Hversu oft spilarðu í viku/mánuði. Skráirðu spilanirnar þínar t.d hvort þú sigraðir eður ei?

Það er mjög misjafnt hvað við náum að spila oft (getur verið erfitt með eins árs barn), en oftast er það samt eitthvað í hverri viku. Við erum ekki í skilgreindum spilahópum, en flestum vinum okkar finnst gaman að spila svo við hittumst oft og spilum. Inn á milli þá grípum við hjónin í stutt tveggja manna spil á kvöldin en við erum komin með dágott safn af góðum tveggja manna spilum, til dæmis Schotten Totten, 7 Wonders Duel, Lost Cities og nú nýjasta spil heimilisins, Kingdomino.

Þrátt fyrir að mér finnist mjög gaman að spila hef ég ekki snefil af keppnisskapi. Það þýðir ekki að ég hafi engan metnað og tapi alltaf en eftir spilakvöld man ég yfirleit ekkert hver vann hvaða spil (spilum oftast fleiri en eitt spil á spilakvöldum). Fyrir mér er upplifunin af spilinu sjálfu minnisstæðari en lokaniðurstaða spilsins.

Áttu einhver Print ‘n’ Play spil eða viðbætur við spilin þín?

Það eru ansi margar viðbætur í borðspilasafninu og ótrúlega oft gætum við ekki hugsað okkur að spila án þeirra. Gott dæmi um bráðnauðsynlega viðbót er Lords of Waterdeep: Scoundrels of Skullport, ég myndi aldrei spila án þess!

Ég hef farið á spilaráðstefnuna Spiel í Essen í nokkur ár og þar kolfell ég alltaf fyrir alls kyns “promos” frá útgefendum. Það eru svona ponsu litlar viðbætur, oftast bara auka flís, spil eða merkill sem gerir eitthvað alveg sérstakt og stundum voða flippað.

Ertu meðlimur á Boardgamegeek, ef svo er, viltu deila með okkur spilsafninu þínu?

Unnusti minn heldur utan um safnið okkar á boardgamegeek undir nafninu Manitis.

Eru einhver spil sem þú bíður eftir að komi út núna í kringum Essen?

Já, mörg! Unnusti minn fór í fjórða sinn til Essen í ár og fannst þetta ár langbesta hingað til, aldrei verið jafn mörg spil sem vöktu áhuga. Ég fór ekki með í þetta sinn því það er dálítið erfitt að ætla drösla eins árs barni með og sitja og spila. En það sem við vorum spenntust fyrir voru Pandemic Legacy: Season 2, Charterstone, Unlock 2, Azul og Photosynthesis. Gæði spilanna skilaði sér líka í stórum innkaupum, lokafjöldinn var 42 spil! (Það mesta hingað til.) Sem betur fer var hann búinn að panta pláss í sendiferðabíl sem keyrir frá Essen til borðspilakaffihúss í Kaupmannahöfn (þar sem við búum). Ég býst við að einhver af spilunum sem við eigum nú þegar verði sett á sölu þegar annað kemur þess í stað.

Uppáhalds spil

Hvaða spil er mest í uppáhaldi/mest spilað þessa daga?

Spil þar sem við leikmennirnir upplifum saman (oft í samvinnu) eitthvað ævintýri með framvindu og óvæntum beygjum eru í sérstöku uppáhaldi, eins og Mansions of Madness, Pandemic Legacy, Dead of Winter og T.i.m.e stories. Allt saman frábær spil og mikið tekin á heimilinu. Annars eru spilin sem ég hef oftast verið að taka undanfarið Istanbul, Stone Age og Lords of Waterdeep.

Ég hef alveg óskaplega gaman af Flóttaleikjum (Escape Room) og hef farið í 6 svoleiðis herbergi og þess vegna er ég mjög ánægð með þessa bylgju af “einnota” borðspilum innblásnum af “Escape Room” hugmyndinni.

Hvaða spil í safninu þínu væriru til í að spila oftar en þú raunverulega gerir?

Það eru nokkur sem gleymast svolítið, sérstaklega spil sem þurfa nákvæmlega ákveðinn fjölda leikmanna til að spila t.d. Witness sem þarf akkúrat 4 leikmenn.

Hvaða spil finnst þér vera einstaklega vel hannað frá grafísku sjónarmiði?

Mér finnst það eiginlega vera tvennt sem getur skarað framúr á grafískan hátt, annars vegar rosalega fallegar myndskreytingar og hins vegar elegant, grafískar lausnir sem gera spilið þægilegra í spilun en annars.

Mysterium er dæmi um spil sem mér finnst alveg rosalega fallegt. Myndirnar á spilunum eru svo ólýsanlega draumkenndar, sem passar fullkomlega þema spilsins (þar sem draugur er að reyna gefa leikmönnum vísbendingar gegnum drauma) sem og allt umhverfi spilsins. Þegar ég sá þetta spil á Essen úr fjarlægð var ég strax svo spennt að prófa það, bara út af því það var svo fallegt.

Núna nýlega prófaði ég spilið Kanagawa og varð alveg dáleidd af hvað grafíkin var einstök en á sama tíma svo samvinnuþýð fyrir sjálft gangverkið.

Ég hef aðeins fylgst með hönnunarteyminu Mr. Cuddington en þau eru par sem eru bæði listamenn fyrir borðspil og ég get ekki annað sagt en að spilin sem þau hafa myndgert eru alveg rosaleg! (Þá er ég bara að tala um útlitið, dæmi: Brass, Grimm Forest og Charterstone, tek það fram að ég hef ekki prófað þessi spil, bara séð þau)

Áttu þér uppáhaldsþema í borðspili?

Eins og ég sagði fyrr þá er það mér mjög mikilvægt að það sé þema í spili, mér finnst mun erfiðara að heillast af abstrakt spilum.

Ég á mér ekkert uppáhalds þema, en mér finnst mjög gaman af spilum með hugmyndaríku eða óvenjulegu þema. Ég fer alveg að fara fá nóg af spilum með Cthulhu-þema, er ekki búið að gera nóg af þeim?

Hvert er uppáhalds gangverk (e.Mechanic) í borðspili?

Ég er hrifin af allmörgum tegundum gangverka; samvinnuspil, verkstjórnunarspil / worker placement, örspil (filler). Eiginlega það sem ég fíla ekki eru spil sem byggjast á mikli leyti af tilviljun eða heppni (t.d. Catan) og take-that spil.

Hraðaspurningar

Spurningar Svör
Þema eða gangverk? Þema!
Samvinna eða samkeppni? Samvinna
Lárett eða lóðrétt geymsla á spilum? Bæði. Sum spil fíla ekki að vera sett upp á rönd.
Eurospil eða Ameritrash? Euro
Stutt eða löng spil? Bæði
Codenames vs Codenames:Pictures? Blanda saman!
Lords of Vegas vs Lords of Waterdeep? Lords of Waterdeep en hef lúmskt mikið gaman af Lords of Vegas
7Wonders vs 7Wonders: Duel? Duel

 

Enn fleiri spurningar og svör!

Fylgistu með einhverjum youtube rásum sem fjalla um spil eða hlustar þú á spilatengd hlaðvörp?

Það mætti eiginlega segja að ég fái fréttirnar úr borðspilaheiminum “second hand”. Unnusti minn hlustar mjög mikið á hlaðvörpin frá Dice Tower og YouTube vídeóin hans Tom Vasel, svo ég frétti í gegnum hann það helsta.

Hver er eftir minnilegasta spilaupplifunin þín?
Löng helgi í sumarbústað í Svíþjóð, Pandemic Legacy Season 1 allan tímann!

Svo eru líka mörg minnistæð atvik, t.d. þegar vinur minn bakkaði óvart út af borðinu í RoboRally í fyrstu aðgerð, þegar hundurinn í Dead of Winter keyrði vörubíl á konu (síðan kom í ljós að hundurinn var svikari).

Síðasta haust spiluðum við Sherlock Holmes Consulting Detective í glerhúsi í niðamyrkri með arineld og kerti. Það var geðveikt þangað til að ég sofnaði.

Sherlock Holmes Consulting Detective í glerhúsi, þetta var áður en ég sofnaði

Ef þú mættir einungis eiga 10 spil í safninu þínu hvaða spil yrðu fyrir valinu?

Þessi listi er gerður fyrir Essen 2017, býst við að listinn breytist eftir það. Engin sérstök röð er á spilunum.

  • Istanbul
  • Lords of Waterdeep
  • Carcassonne (með mörgum viðbótum)
  • Mansions of Madness (version 2)
  • Pandemic Legacy Season 1 (þó það sé bara hægt að spila það einu sinni)[inskot blm: einu sinni í gegn, PL:S1 er að hámarki 24spilanir, meðaltal til að ljúka spilinu eru 16-18spilanir]
  • Hver stal kökunni úr krúsinni í gær?
  • T.i.m.e Stories
  • Mysterium
  • Dominion
  • The Village

Spurningar frá Hagalíni Ásgrím

– síðasta leikpeði Nörd Norðursins

  • Hvaða íslensku spil værir þú til í að sjá í fínpússaðri endurútgáfu?

Eins og ég hef talað um þá á Útvegsspilið ákveðinn stað í hjarta mínu. Þegar það kom út árið 1977 tryllti það landann (og mig mörgum árum seinna) en eins og við öll vitum þá var kannski ekki svo margt að miða við á þeim tíma. Við smelltum því á borðið um daginn til að athuga hvort það hefði staðið tímans tönn. (Í þetta sinn var ég búin að lesa reglurnar og engin heimagerð greiðslukort leyfð). Spilið var ágætt og þemað mjög gegnumgangandi, en það vantaði mikið upp á jafnvægið og reglurnar voru ekki mjög skýrar. Það væri mjög gaman ef Útvegsspilið yrði gefið út í endurbættri útgáfu sem héldi samt tryggð við upprunalegu hugmyndina og notaði jafnvel sömu eða keimlíka grafík (það yrði aldeilis nostalgía fyrir marga).

  • Hvernig finnst þér borðspilamenningin á Íslandi vera að þróast þá bæði á meðal spilara og borðspilahönnuða?

Mér finnst mikið vera að gerast í borðspilamenningunni á Íslandi. Fólk er að átta sig á að það eru til fleiri spil en bara Monopoly, Lúdó og Risk. Svo er gaman að sjá að borðspil eru orðin samofin jólunum á mörgum heimilum, ég tók til dæmis eftir því þegar ég gaf út Kökuspilið hve margir voru að leita að spili í möndlugjöf.

En með borðspilahönnun á Íslandi finnst mér erfitt að segja. Íslendingar eru duglegir að búa til spil sem í sjálfu sér er mjög gott en mér finnst oft aðeins vanta upp gæði eða frumleika spilana. Þetta eru oft spurninga eða partýspil sem eru byggð á erlendri fyrirmynd (já, meira að segja Fimbulfamb) svo það væri gaman að sjá eitthvað alveg nýstárlegt íslenskt spil koma út.

Að lokum

Það er mér sannur heiður að fá að vera Leikpeð mánaðarins! Þar sem ég er fyrsta stelpu-leikpeðið vil ég endilega gefa kyndilinn áfram til kynsystur minnar og ofurnördsins Kristínu Guðmundsdóttur. Hún fær að spreyta sig á þessum spurningum:

  1. Hvað finnst þér um jafnvægi milli kynjanna í spilaheiminum í dag? (Bæði hvað varðar spilahönnun/grafík og sjálfa spilamenninguna)
  2. Nú hefur þú tekið þátt í ófáum “GameJams”, geturðu sagt okkur aðeins frá þinni reynslu af því?
Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑