Greinar

Birt þann 19. október, 2017 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson

Styttist í Spiel Essen 2017 – 5 vinsælustu spilin

Eftir rúma viku hefst stærsta borðspilaráðstefna í heiminum, Spiel Essen, en þar koma saman hundruð útgefanda borðspila víðs vegar úr heiminum og kynna þúsundir nýrra spila sem eru nýlega komin út eða væntanleg í lok árs eða á fyrsta ársfjórðung næsta árs.

Boardgamegeek heldur utan um stóran lista af væntanlegum og eftirsóttum spilum sem skoða má hér. Við skulum líta á fimm vinsælustu spilin (með flesta þumla) og skoða hverskonar spil það eru.

 

NR. 5 – GAIA PROJECT

Endurútgáfa af Terra Mystica nema nú í Sci-fi búningi. Í stað trölla, álfa og dverga koma mismunandi geimverur hver með sinn hæfileika rétt eins og hver kynþáttur hafði í Terra Mystica. Einhverjar breytingar hafa átt sér stað á milli útgáfa varðandi uppfærslur (e. upgrades) sem leikmenn geta notfært sér eftir því sem lengra líður á spilið. Auk þess er uppsetning spilsins nú breytileg (e. modular) í stað þess að vera með eitt landakort sem alltaf er notast við, og því hver spilun ólík þar sem uppsetningin verður sjaldan eins. Nánari upplýsingar um Gaia Project má finna hér.

NR. 4 – COASTER PARK

Frá höfundi Tiny Epic – seríunnar kemur Coaster Park, spil sem leyfir leikmönnum að byggja sína eigin rússíbana. Leikmenn bjóða í mismunandi hluti sem mynda rússíbanann auk starfsmanna sem gefa leikmönnum auka stig. Þegar uppboðinu er lokið setja leikmenn rússíbanann saman og láta glerkúlu renna eftir rússíbananum. Ef hún nær á leiðarenda fá menn fullt hús stiga, ef ekki er hætta á því þú þurfir að endurbyggja rússíbanann. Hér má sjá stutt myndband um Coaster Park frá GenCon

NR 3. – DINOSAUR ISLAND

Hvern hefur ekki dreymt um að byggja sinn eigin Júragarð (e. Jurassic Park). Í Dinosaur Island geta leikmenn ræktað sínar eigin risaeðlur í þeirra von um að laða að sem flesta áhorfendur. Leikmenn keppast um að skapa sem mest spennandi og aðlaðandi Risaeðlugarð því fæstir koma til að horfa á grænmetisæturnar og flestir til að sjá T-Rex. En með hættulegri risaeðlum eykst einnig hættan á því að fólk verði étið svo það er eins gott að öryggisgæslan sé nægjanleg!

Spilið náði ágætis árangri á Kickstarter en herferðina má sjá hér.

NR. 2 – PHOTOSYNTHESIS

Hér er á ferðinni einstaklega fallegt spil með áhugavert þema, ljóstillífun. Leikmenn gróðursetja tré á leikborðið sem keppast um að teygja sig í geisla sólarinnar sem snýst í kringum leikborðið í hverri umferð. Þau tré sem ná að binda geisla sólarinnar vaxa og dafna en þau tré sem falla í skuggann eiga hættu á að visna og deyja. Trén koma í þrem mismunandi stærðum og kasta stærri trén meiri skugga svo það skiptir því máli hvar gróðursetja skal smærri trén eða græðlingana. Hér má stutt myndband sem útskýrir spilið í fljótu bragði. Auk þess hefur Tom Vasel gefið út sína gagnrýni á spilið en hana má sjá hér.

NR. 1 – CLANS OF CALEDONIA

Víski, tóbak, ostar, korn og búfénaður. Við erum stödd í Skotlandi á 19. öld í Clans of Caledonia. Leikmenn stjórna mismunandi ættum sem hver og ein hefur sína sérhæfileika. Leikmenn framleiða áðurnefndar afurðir og selja þær ýmist á innanlands markaði, sem hefur áhrif á kaup og söluverð annarra leikmanna, eða erlendis í lok hverrar umferðar sem veitir leikmönnum stig. Clans of Caledonia er blanda af þónokkrum vinsælum euro-gangverkum svo sem verkstjórnun, breytilegri uppsetningu, viðskiptum og breytilegri stigasöfnun. Þessu hefur verið lýst sem einfaldari og fljótlegri útgáfu af Terra Mystica. Spilið var að sjálfsögðu á Kickstarter en auk þess hafa Tom Vasel og Richard Ham (Rhado) gefið sína skoðun á spilinu.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑