Fréttir

Birt þann 26. október, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Ísland í leikjafréttum

Undanfarnar vikur og mánuði hafa fjölmargar fréttir borist frá hinum íslenska tölvuleikjaheimi. Íslensk leikjafyrirtæki hafa verið að gefa út nýja leiki, viðbætur og aukapakka auk þess sem Daði Freyr gaf út tónlist í gegnum tölvuleik og íslenska karlalandsliðið í fótbolta er mætt til leiks í FIFA 18. Förum hér yfir það helsta.

ÍSLENSKA KARLALANDSLIÐIÐ Í FIFA 18

Eftir glæsilegan árangur íslenska karlalandsliðsins á Evrópumótinu í fótbolta í Frakklandi árið 2016 fékk KSÍ tilboð frá EA Games. EA vildi fá landsliðið með í FIFA 17, fótboltaleik sem átti eftir að seljast í yfir 10 milljónum eintaka um allan heim, og bauð KSÍ eina milljón kr. sem sambandið svo hafnaði þar sem tilboðið þótti of lágt. Ákvörðun KSÍ þótti umdeild og listuðum við meðal annars upp nokkur atriði í grein sem við birtum í fyrra um hvers vegna KSÍ hefði átt að samþykkja tilboðið. Íslenska landsliðið hefur haldið áfram að gera góða hluti og stefnir nú á heimsmeistaramótið í fóbolta í Rússlandi árið 2018. Fyrr á árinu fóru umræður aftur á stað milli KSÍ og EA og náðist samkomulag sem varð til þess að íslenska landsliðið er með í nýjasta FIFA leiknum, FIFA 18, sem má segja að sé ákveðið afrek og heiður fyrir landsliðsmenn. FIFA 18 kom í verslanir 29. september 2017.

RAFÍÞRÓTT Í SÝNDARVERULEIKA

Sparc, splunkunýr VR leikur frá íslenska tölvuleikjafyrirtækinu CCP leit dagsins ljós á PS VR þann 29. ágúst síðastliðinn. Sparc er keppnis-sýndarveruleikaleikur, (eða vSport, sem stendur fyrir virtual sport) þar sem spilarar keppa í rauntíma. Spilarar eru vopnaðir kastkúlu og skildi og fá stig í hvert sinn sem þeir kasta kúlunni og hæfa andstæðinginn. Skjöldurinn er svo notaður til þess að verjast skotum andstæðingsins. Sá sem nær að safna flestum stigum stendur að lokum uppi sem sigurvegari. Til gamans má geta þá er þetta fyrsti leikurinn frá CCP sem tengist ekki EVE heiminum fræga.

YAMAYAMA PARTÝ Á PLAYSTATION

PS4 útgáfan af partýleiknum YamaYama frá íslenska leikjafyrirtækinu Lumenox Games lenti á PlayStation Store þann 11. júlí. Um er að ræða súrealískan partýleik sem samanstendur af fjölmörgum miní-leikjum þar sem spilarar keppa sín á milli um að safna sem flestum stigum. Karakterar leiksins eru klæddir „fatsuit“ (sem er uppblásanlegur galli) og nota hann til að hrinda andstæðingum frá sér. 2-4 geta spilað leikinn lókal eða í gegnum netið, en einnig er að hægt að spila leikinn í einspilun (single player) gegn tölvunni. Leikurinn var formlega aðgengilegur í gegnum Steam leikjaveituna degi síðar, eða 12. júlí, en leikurinn hafði þó verið aðgengilegur um nokkurt skeið í svokallaðri „early access“ útgáfu á meðan Lumenox var enn að vinna að gerð leiksins.

BLEKKTU VINI ÞÍNA Í TRIPLE AGENT

Leikurinn Triple Agent! eftir íslenska leikjafyrirtækið Tasty Rook kom út þann 20. júlí. Triple Agent! er stafrænn samkvæmisleikur fyrir 5-9 leikmenn að spila á einn síma. Leikurinn svipar til blekkingar-borðspila á borð við Varúlf og Mafíu sem margir Íslendingar ættu að þekkja. Triple Agent! er fyrsti leikur Tasty Rook sem samanstendur af Sigursteini J Gunnarssyni og Torfa Ásgeirssyni. Leikurinn er ókeypis og er fáanlegur bæði á iOS og Android.

DIGITAL DAÐI FREYR

Mánudaginn 26. júní lenti Mussila Planets frá íslenska leikjafyrirtækinu Rosamosi í App Store og Google Play. Mussila Planets er fjórði leikurinn í Mussila seríu Rosamosa. Í Mussila Planets ferðast spilarinn um framandi plánetur – allt frá stjörnuskreyttum himingeimi niður í forvitnileg undirdjúpin. Á leið sinni tekst spilarinn á við tónlistarlegar áskoranir af ýmsu tagi, nælir í nótur og spilar laglínur, forðast feilnótur, safnar stigum og keppist við að komast í efsta sæti með aðstoð frá svífandi bleikum höfrungum og píranafiskum svo fátt eitt sé nefnt.

Þann 22. september kom svo út leikurinn Neon Planets ft. Daði Freyr þar sem tónlistarmaðurinn Daði Freyr spilar sig í gegnum lögin með sama hætti og í Mussila Planets. Daði Freyr samdi tónlistina í leiknum sem er eingöngu hægt að hlusta á með því að spila leikinn.

PS4 SPILARAR UPP Á EVEREST

Íslenska fyrirtækið Sólfar hefur í samvinnu við RVX unnið að PlayStation VR útgáfu af sýndarveruleikaupplifuninni EVEREST VR sem lenti á PlayStation Store þann 3. október. Upplifunin hefur nú þegar verið gefin út fyrir HTC Vive og Oculus Rift sýndarveruleikagleraugun á PC. EVEREST VR er upplifun frekar en leikur í hefðbundnum skilningi þar sem hægt er að upplifa nokkur mismunandi atriði sem gerast á Everest fjalli í fyrstu persónu, þar á meðal er hægt að standa uppi á toppi þessa fræga fjalls.

NÝ VIÐBÓT VIÐ EVE VALKYRIE

Í nýrri viðbót fyrir EVE Valkyrie, EVE Valkyrie Warzone, geta PC og PS4 spilarar spilað auk þess sem spilarar geta valið á milli þess að spila leikinn með eða án VR tækni. EVE Valkyrie er VR- geimskotleikur frá CCP sem hægt er að spila með PS VR, HTC Vive og Oculus Rift sýndarveruleikagræjunum. Útgáfudagur viðbótarinnar var 26. september.

EVE ONLINE LIFEBLOOD UPPFÆRSLA

EVE Online er þekktasti leikur CCP og virðist leikurinn enn lifa góðu lífi. CCP kynnti nýja uppfærslu við EVE Online sem kallast Lifeblood og kom út þann 24. október. Ekki er langt síðan að CCP kynnti þann möguleika til sögunnar að spila EVE Online frítt, en áður var nauðsynlegt að borga mánaðargjald. Hægt er að sækja EVE Online ókeypis á www.eveonline.com og lesa nánar um uppfærsluna hér.

STARBORNE AFTUR Í ALFA

Starborne er fjölspilunarleikur þar sem spilarar kanna heima og geima og fá frjálsar hendur til að mynda bandalög, taka þátt í pólitík, og hugsa taktísk um sitt og annara manna yfirráðasvæði í risavöxnum heimi. Fyrirtækið hefur verið að vinna að gerð leiksins undanfarin ár og er leikurinn nú kominn á alfa-prófunarstig. Nýlega var opnað fyrir nýja lotu í alfa-prófun. Hægt er að skrá sig til leiks hér á www.starborne.com.

Mynd: Neon Planets, Sparc og YamaYama

Lumar þú á frétt eða áhugaverðu efni?

Sendu okkur póst á nordnordursins@gmail.com

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑