Menning

Birt þann 29. ágúst, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

TEDxReykjavík 2017 – Ný hugsun

Laugardaginn 9. september verður TEDxReykjavík ráðstefnan haldin í Tjarnarbíói. Þetta er í sjöunda sinn sem ráðstefnan er haldin hér á landi og er þema viðburðarins að þessu sinni ný hugsun, eða „re-imagine“. Fyrirlesarar munu fjalla um hvernig megi endurhugsa nálgun okkar við samfélag okkar og umhverfi. Rætt verður um hvernig má koma á jákvæðum breytingum í von um að skapa betri heim.

Nálgast verður viðfangsefnið frá mörgum mismunandi áttum. Joon (Jonatan Hove), leikjahönnuður, mun flytja fyrirlestur um það þegar spilarar ákveða að spila leiki á allt annan hátt en leikurinn var hannaður fyrir (transgressive play). Einnig verða fyrirlestrar um listir, ljósmyndir, mataræði og margt fleira.

Fyrirlesarar TEDxReykjavík 2017

Jonatan „Joon“ Van Hove – leikjahönnuður – Veitir innsýn inn í nýja hreyfingu meðal ungra tölvuleikmanna og hvaða ályktanir má draga frá henni. Af hverju ákveða sumir leikmenn að brjóta allar reglur og spila leiki á allt annan hátt en leikjahönnuðurinn gerði ráð fyrir?

Tristan Elizabeth Gribbin – stofnandi og framkvæmdastjóri FLOWVR – ræðir um mikilvægi og gildi hugleiðslu, hvernig hún hefur endurhugsað leiðir til hugleiðslu og gert nútímafólki kleift að hugleiða með aðstoð hugbúnaðar á borð við sýndarveruleika.

Halldóra Mogensen – þingkona – mun hvetja til umræðu um almenn borgaralaun, endurskoðun á íslenska efnahagskerfinu og leggja fram tillögur að sjálfbæru efnahagskerfi.

Sigurður Ólafur Sigurðarsson – ljósmyndari – skoðar hvernig ljósmyndun getur sýnt okkur nútímavandamál frá nýju sjónarhorni. Getur ljósmynd raunverulega sagt alla söguna?

Ari Jóns – nemi í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands – mun kynna hugmynd sína um vatnsflösku sem brotnar niður í náttúrunni á einungis nokkrum dögum. Hann fékk hugmyndina þegar hann komst að því að 50% plasts er notað einu sinni og hent í ruslið. Hann skorar á okkur að nálgast vandann við aukna plastnotkun á skapandi hátt.

Aishling Muller – listakona – vill endurskoða hlutverk lista í heiminum og okkar eigin lífi. Hún heldur því fram að listir eigi ekki einungis við listafólk heldur eigi allir að geta notið þess að skapa. Ættu fleiri manneskjur að nýta sér listir til að takast á við og njóta lífsins?

Benjamín Sigurgeirsson – doktor í líftækni – Ræðir um mataræði mannkynsins. Hann segir að við höfum ómeðvitað þróað með okkur matarvenjur sem séu skaðlegar umhverfinu og lífi á jörðinni. Benjamín hvetur okkur til að endurhugsa ályktanir okkar um mataræði og skoða hvað það getur haft gríðarlegan ávinning í för með sér.

Hægt er að nálgast miða á viðburðinn á Midi.is.
Miðaverð er 5.900 kr.

 

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑