Fréttir

Birt þann 6. júní, 2017 | Höfundur: Daníel Rósinkrans

Það helsta frá Pokémon Direct

 

Pokken Tournament Deluxe væntanlegur fyrir Nintendo Switch

Nintendo héldu átta mínútna Pokémon Direct kynningu fyrr í dag sem sýndi allt það sem er á döfinni fyrir Pokémon aðdáendur.

Kynningin byrjaði á Pokken Tournament Deluxe sem er væntanlegur á Nintendo Switch í september. Um er að ræða endurbætta útgáfu af Pokken Tournament sem kom út fyrir Wii U árið 2015. Ekki ósvipuð herkænska og þeir beittu fyrir Mario Kart 8 Deluxe. Leikurinn mun innihalda fimm ný vasaskrímsli, þá Darkrai, Scizor, Empoleon, Crogunk og Decidueye ásamt 3vs3 bardagakerfi og fleiri nýjungum.

Pokken Tournament Deluxe er væntanlegur fyrir Nintendo Switch þann 22. september næstkomandi.

 

Pokémon Sun og Moon fá Ultra útgáfur

Þann 17. nóvember næstkomandi munu Nintendo gefa út nýjar útgáfur af Pokémon Sun og Moon fyrir 3DS og kallast þær einfaldlega Ultra Sun og Ultra Moon. Báðir leikirnir munu skarta nýjum viðbætum, svo sem nýjum vasaskrímslum, viðbætum við söguna og aðrar uppfærslur fyrir Slogaleo og Lunala, en þeir eru goðsagnir leikjanna beggja. Margir höfðu vonast til að Nintendo mundu kynna til leiks Pokémon Stars sem þriðju útgáfuna af Sun og Moon. En svo varð því miður ekki.

Sun og Moon hafa nú þegar selst í 15 milljónum eintaka svo að Pokémon leikirnir eru að gera það gott fyrir Nintendo þessa dagana.

 

Nintendo endurgefa Pokémon Gold og Silver fyrir 3DS

Ásamt Pokken Tournament Deluxe og Pokémon Ultra Sun og Ultra Moon kynntu Nintendo til sögunnar endurútgáfur af klassískum Pokémon titlum, þá Pokémon Gold og Pokémon Silver.

Snemma á síðasta ári komu Red, Blue og Yellow út á 3DS í gegnum eShop, vefverslun 3DS. Nú hafa þeir ákveðið að halda þeirri hefð áfram og gefa út Gold og Silver sem skörtuðu annari kynslóð vasaskrímsla, eða Gen II eins og þeir eru kallaðir á ensku. Aðdáendum gefst þá tækifæri til að heimsækja Kanto svæðið á ný í þessum klassísku útgáfum. Leikirnir munu styðjast við Pokémon bankann sem gerir spilurum kleift að flytja vasaskrímslin á milli leikja.

Pokémon Gold Version og Pokémon Silver Version eru væntanlegir á eShop fyrir 3DS þann 22. september, sami útgáfudagur og Pokken Tournament Deluxe fyrir Switch.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑