Spil

Birt þann 15. apríl, 2017 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson

Spilarýni: Kingdom Builder – „Þrælfínt fjölskylduspil

Spilarýni: Kingdom Builder – „Þrælfínt fjölskylduspil Magnús Gunnlaugsson

Samantekt: Þrælfínt fjölskylduspil, en reyndari spilarar ættu ekki heldur að láta það framhjá sér fara.

5

Fullt hús!


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Ég keypti mér Kingdom Builder á spilaústölu Nexus sem haldin var á Alþjóðlega Borðspiladeginum á síðasta ári. Þetta voru svona skyndikaup þar sem ég fékk eintakið á góðu verði og stakk því í pokann ásamt einhverjum öðrum spilum. Eins og gengur og gerist þegar mörg spil eru keypt í einu er alltaf hætta á því að einhver þeirra sitji í hillunni og í plastinu um ókominn tíma.

Í þessu tilviki kom það fyrir Kingdom Builder, en það var ekki spilað í fyrsta sinn fyrr en fjórum mánuðum seinna eða seint í ágúst skv. BG-Stats appinu mínu. Ég setti mér því markmið í lok 2016 að spila Kingdom Builder a.m.k tíu sinnum árið 2017. Því markmiði lauk núna föstudaginn 7.apríl síðastliðinn.

YFIRLIT

Kingdom Builder er fyrir 2-4 leikmenn sem keppast að því að byggja upp ríkasta konungsdæmið. Hver leikmaður byrjar með 40 hús sem gerð eru úr litlum trébitum líkt og húsin úr hinu klassíska spili Catan/Landnemarnir. Spilið samanstendur af átta mismunandi fjórðungum sem mynda spilaborðið og eru fjórir valdir í upphafi. Hver fjórðungur inniheldur sjö mismunandi landsvæði: graslendi, skóg, gljúfur, eyðimörk, blómabreiður, fjöll og vatn, auk þess eru sérstakir kastala- og borgarreitir.

Sá sigrar sem fengið hefur flest stig samkvæmt þremur slembivöldum Konungsspilum, af mögulegum tíu, sem dregin eru í uppsetningu spilsins. Konungsspilin ákvarða hvernig leikmenn fá stig í hverjum leik fyrir sig.

Spilið tekur um 45-60mín í spilun.

HVERNIG SKAL SPILAÐ

Reglurnar í Kingdom Builder eru sáraeinfaldar. Í hverri umferð draga leikmenn spil sem ákvarðar eitt af fimm landssvæðum sem hægt er að leggja hús á, vatn er ekki leyfilegt nema í sérstökum tilvikum og ekki er hægt að byggja á fjöllum. Leikmenn setja því næst út þrjú hús á það svæði sem spilið sýnir.

Ef leikmenn setja hús upp við borgarreit taka þeir eitt tákn af reitnum sem veitir þeim sérstaka hæfileika sem þeir geta nýtt í hverri umferð út allt spilið. Þessir hæfileikar geta verið t.d að bæta við húsi í eyðimörk eða graslendi. Færa hús frá einu landsvæði yfir á það landsvæði sem spilið sem þeir drógu sýnir eða bæta við húsi svo fremi sem það séu a.m.k þrjú hús í beinni línu. Kastalareitirnir veita leikmönnum svo þrjú stig í lok leiks sé a.m.k eitt hús við hlið þess reits. Sé spilað með eftirfarandi Konungspilum: Veiðimönnum (e.fishermen), Námumönnum (e.Miners) og Smiðum (e.Workers) þá fá leikmenn eitt stig fyrir hvert hús sem að liggur upp við vatnsreiti, fjöll og í kringum borgir og kastala.

Það er þó einn stór hængur á þessu öllu saman. Í hvert skipti sem leikmenn setja út hús verða þeir að setja húsin sín upp við hús sem þeir eiga nú þegar á borðinu. Sértu t.d með hús í eyðimörk og það liggur upp við ýmist skóg eða graslendi og spilið sem þú dróst sýnir annaðhvort þessa landsvæða þá verður þú að gjöra svo vel að setja húsin þín þar. Leikmönnum er því ekki heimilt að stökkva hvert sem er á borðinu nema ákveðin skilyrði séu uppfyllt: Landsvæðið sem þú dróst hefur ekki pláss fyrir fleiri hús og ekkert annað hús sem þú átt liggur upp við landsvæði af sömu tegund.

UPPLIFUN

Mín fyrsta og önnur spilun af Kingdom Builder var ekkert sérstök, mér þótti spilið alltof handahófskennt hvaða landsvæði ég fékk og ég skyldi lítið hvernig hæfileikarnir af borgarreitunum gætu nýst manni til góðs til annars en að klára húsin sín og enda spilið sem fyrst. Ég held að ég hafi náð að klóra í um 20 stig. Síðan þá hef ég spilað það í heildina 18 sinnum og þar af 10 sinnum á þessu ári eins og áður kom fram, og með hverri spilun hefur Kingdom Builder hækkað í áliti hjá mér

POSITION IS EVERYTHING!

Kingdom Builder snýst ekki um að vera fyrstur til að klára húsin sín heldur að staðsetja húsin sín hvað best í samræmi við konungspilin.

Kingdom Builder snýst ekki um að vera fyrstur til að klára húsin sín heldur að staðsetja húsin sín hvað best í samræmi við konungspilin. Spilið er ennþá jafn handahófskennt og í fyrstu spilun þ.e. hvaða landsvæði þú mátt leggja niður á, en ef þú spilar húsunum þínum rétt út og notfærir þér borgarhæfileikana á sniðugan máta til að gefa þér sem mesta möguleika á að færa þig um kortið ertu líklegri til að næla þér í fleiri stig en andstæðingar þínir.

MÖGULEIKARNIR ERU „ENDALAUSIR“

Endurspilunar mögleikarnir í spilinu eru gríðarlegir þar sem hverjum fjórðungi er hægt að snúa á tvo mismunandi vegu og valdir eru fjórir af átta hverju sinni.

Endurspilunar mögleikarnir í spilinu eru gríðarlegir þar sem hverjum fjórðungi er hægt að snúa á tvo mismunandi vegu og valdir eru fjórir af átta hverju sinni. Fyrir þá sem eru góðir í fléttufræði (e.combinatorics) eru þetta því 1820 mismunandi mögulegar uppstillingar, mögulega tvöfalt fleiri ef tekið er tillit til umröðunar. Þegar að kemur að Konungspilunum eru samsetningarnar 120. Hér erum við einungis að tala um grunnspilið en til eru þrjár viðbætur sem bæta við fleiri landsvæðum, borgarreitum og fimmta spilara. Þær viðbætur eru þó ekki til umfjöllunar hér.

Hver spilun er því að öllum líkindum aldrei eins en ég get þó viðurkennt að eftir tæplega tuttugu spilanir er ekkert að fara koma manni neitt sérstaklega á óvart. Þú ert líklegast búinn að prófa alla mismunandi hæfileikana sem í boði eru og reglurnar til að skora stig svo nú er bara að halda áfram að hámarka árangurinn og komast sem hæst á stigaborðinu, en aftan á hverjum fjórðungi er stigaborð sem nær frá 0-100. Hæsta skorið sem ég hef séð í mínum spilunum er 82stig, það er því enn möguleiki á að bæta sig.

SAMANTEKT

Allt í allt er ekki annað en hægt að mæla með Kingdom Builder sem þrælfínu fjölskylduspili en reyndari spilarar ættu alls ekki að láta það framhjá sér fara. Það er ekki að ástæðulausu að spilið hlaut Spiel des Jahres verðlaunin árið 2012. Einfaldar reglur og spilatími sem er ekki nema 45-60 mínútur með miklum möguleikum á endurspilun.

Myndir: BoardGameGeek

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑