Fréttir

Birt þann 1. apríl, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Ætlar að gefa út Doom mod fyrir Stafakarlana

Brynjar H. Einarsson, tölvunarfræðinemi á þriðja ári, hefur tekið að sér það metnaðarfulla verkefni að gefa út þrjú mismunandi mod fyrir Stafakarlana. Mod eru viðbætur við tölvuleiki sem notendur hafa sjálfir búið til. Engin mod hafa verið gefin út fyrir Stafakarlana hingað til. Þessi þrjú mod sem Brynjar vinnur að eru: Doom mod, VR mod og LOTR mod. Hugmyndina fékk hann í Game Jam verkefni sem hann tók þátt í með skólafélögum sínum.

Í moddinu hefur stafurinn U breyst í uppvakning, F í fjársvikara og V í veipara.

Í Doom moddinu getur spilarinn skotið Stafakarlana „sem hafa breyst í allskonar skrímsli, furðuverur og samfélagsmein“ eins og Brynjar orðar það. Í moddinu hefur stafurinn U breyst í uppvakning, F í fjársvikara og V í veipara. Grafíkin og stemningin í leiknum mun svipa til Doom II að sögn Brynjars. Í VR moddinu verður hægt að spila Stafakarlana í sýndarveruleika í gegnum snjallsíma og í LOTR verður íslenskunni breytt yfir í álfamál og eiga spilarar leiksins að geta borið fram nokkur orð á álfamáli eftir að hafa spilað moddið.

Brynjar fær verkefnið metið til eininga en gerir þetta einnig sér til skemmtunar. „Annars væri ég ekki að þessu. Bara gaman að geta bætt einhverju nýju við leikinn. En ef ég væri ekki að fá einingar fyrir þetta myndi ég nú bara sleppa þessu.“ segir Brynjar fullur af metnaði.

Moddin þrjú eru væntanleg um mitt sumar á þessu ári.

Bætt við 2. apríl:

Þessi færsla var aprílgabb!

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑