Leikjarýni

Birt þann 25. september, 2016 | Höfundur: Steinar Logi

Leikjarýni: NBA 2K17 – „Spilunin hefur tekið stökk fram“

Leikjarýni: NBA 2K17 – „Spilunin hefur tekið stökk fram“ Steinar Logi

Samantekt: 2K serían er enn að þróast á góðan hátt

4.5

Toppleikur


Einkunn lesenda: 3.6 (3 atkvæði)

NBA2K serían hefur verið á samfleyttri sigurgöngu í mörg ár en að margra mati þá tók serían skref framá við með NBA2K11 þegar þeir heiðruðu besta körfuboltamann allra tíma; Michael Jordan. Síðan hafa margir mætir kappar verið andlit leiksins og núna er komið af Paul George, leikmanni Indiana en einnig var gefin út takmörkuð Kobe Bryant Legends útgáfa fyrir þá sem vilja meira (en því miður eru engar Kobe Bryant áskoranir eins og voru fyrir MJ og Lebron, vonandi verður samt eitthvað gert fyrir KB, Tim Duncan og Kevin Garnett í NBA2K18 sem hafa allir nýlega lagt skóna á hilluna).

því miður eru engar Kobe Bryant áskoranir eins og voru fyrir MJ og Lebron

En í raun ert þú, spilarinn, í aðalhlutverki því að eins og áður þá skapar maður sinn eigin leikmann í byrjun síns ferils og þróar hann upp í stórstjörnu (MyCareer). Í NBA2K16 þá leikstýrði Spike Lee nokkurs konar bíómynd í kringum leikmanninn þinn sem fjallaði um lífið sem fylgdi þessum miklu breytingum að komast í NBA. Með fullri virðingu fyrir Spike Lee, þá átti þetta bíó alls ekki heima í svona íþróttaleik og þetta fjölskyldudrama varð bara þreytandi til lengdar. NBA2K17 gerir þetta miklu betur, það er mun meiri fókus á bara körfuboltann sjálfan og sagan er ekki að taka frá leiknum sjálfum. Við fáum að spila nokkra mikilvæga leiki í háskólaboltanum og spreyta okkur á Ólympíuleikunum með öllum stjörnunum svona eins og Christian Laettner gerði með Draumaliðinu. Síðan eignumst við góðan vin í NBA, Justice Young leikinn af Michael B. Jordan, sem er ekki bara með mjög kunnuglegt nafn heldur ansi frambærilegur leikari. Það myndast gott samband milli spilarans og Justice, bæði utan og innan vallar og það er gaman að vita af einhverjum sem maður þekkir á annan hátt en NBA stjörnur með sér á vellinum. Þetta tengist líka nýjung hjá NBA2K sem fókusar á tvíeyki eða „Dynamic Duo“ þar sem tveir aðilar spila betur ef þeir eru saman á vellinum (sb. Stockton og Malone eða Kevin Durant og auðvelda leiðin).

nba2k17_01

 

…nýjung hjá NBA2K sem fókusar á tvíeyki eða „Dynamic Duo“ þar sem tveir aðilar spila betur ef þeir eru saman á vellinum…

Það er meira lagt upp úr alls konar litlum senum; Ernie, Shaq og Kenny kynna leikina eins og áður og það eru margir lýsendur fyrir sjálfan leikinn eins og Kevin Harlan, Steve Smith og Greg Anthony. Einnig sjáum við David Aldridge á vellinum og allir hafa eitthvað fram að færa þó að óumflýjanlega verði eitthvað um endurtekningar. Það er búið að bæta við smávídeóum þar sem þjálfarar peppa mann upp eða leikmenn ganga niðurlútir eða glaðbeittir í átt að búningsklefanum. Þannig að þetta er allt til fyrirmyndar þó að það endi oft á því að maður sleppi að horfa á einstaka vídeó þegar maður vill bara spila (sá hrikalega eftir að hafa óvart sleppt vídeói af Coach Pop í hálfleik, það hefur áræðanlega verið skemmtilegt).

Spilunin hefur tekið stökk fram, það er mun betra flæði í leiknum, leikurinn er hraðari og fjölbreytilegri hvað hreyfingar varðar

Spilunin hefur tekið stökk fram, það er mun betra flæði í leiknum, leikurinn er hraðari og fjölbreytilegri hvað hreyfingar varðar. Maður tekur fljótlega eftir að leikmenn eru þarna, maður rekst í þá og getur ekki bara hlaupið á milli þeirra eins og mannlegur áll. Það er hnoð og hendur alls staðar þannig að það er meira um að stuldi og varða bolta en samt í þokkalegu jafnvægi. Það sem gladdi mig núna er að „alley-oop“ og það að blaka boltanum ofan í körfuna eftir fráköst er betra. „Alley-oop“ sendingar enda ekki alltaf með troðslu heldur stundum bara með blaki ofan í körfuna. Eins með fráköstin, maður þarf ekkert endilega að ýta akkúrat á rétta takkann, leikmaðurinn gerir sitt besta til að reyna að skora. Það eru fleiri svona atriði sem hafa batnað eins og sendingar, það var t.d. pirrandi hve margar sendingar lentu beint í höndunum á andstæðingnum í NBA2K16, oft eins og hann hafði augu í hnakkanum. Það er samt ekki allt dans á rósum, einstaka sinnum stígur leikmaður útaf þegar hann ætti ekki að gera það t.d. en það er mun minna af svona atriðum en áður. Ég prófaði að spila MyCareer í NBA2K16 og 17 rétt á eftir og það er hreinlegra skemmtilegra að spila nýja leikinn af áðurnefndum ástæðum. Ef ég ætti að kvarta yfir einhverju þá kom á óvart hvað liðsfélagar eru tregir til að gefa boltann í byrjun, jafnvel þegar maður er í opnu færi, en mér skilst að það lagist eftir því sem traustið eykst hjá liðsfélögum.

nba2k17_03

Leikmenn láta finna fyrir sér og eru í vegi manns, snerting er betur tækluð í NBA2K17 en áður

MyCareer er með mikla áherslu á að æfa og byggja upp leikmanninn þinn sem getur orðið leiðingjarnt þegar maður gerir sömu æfingar aftur og aftur. Auðvitað getur maður sleppt þeim því að flestar eru bara valmöguleiki en leikurinn verðlaunar þig fyrir erfiðið bæði upp á söguþráðinn og til að hækka getuna hjá leikmanninum þínu (protip: það er gym við hliðina á æfingarkörfuboltavellinum, ég uppgötvaði það fyrst eftir þó nokkrar æfingar en þar er hægt að gera hnébeygjur, æfa viðbrögðin, tékka hvað maður stekkur hátt o.s.frv.). Samfélagsmiðlar spila mikið inní eins og áður, allir eru að senda þér sms og svo getur maður ekki misst af hvað allir eru að segja um mann í gegnum „twitter“ leiksins.

MyCareer hefur tekið framförum frá síðasta ári, áðurnefnd spilun er betri og sagan er þéttari þó að grunnurinn sé sá sami. Það virðist ekki vera hægt að fá leikmannaspil fyrir MyTeam leikinn í MyCareer sem mér fannst vera kostur í NBA2K16 nema það verði mun seinna í leiknum. Það er hægt að flýta fyrir hversu góður leikmaðurinn er með því að kaupa VC (virtual currency) með alvöru pening en þróunin er ekki það hæg að maður neyðist til þess, sérstaklega þegar maður fær að fá góða skósamninga sem gefa talsvert af sér.

nba2k17_02

Þegar ég spilaði NBA2K16 var ég lengst af í MyTeam þar sem maður safnar spjöldum af NBA leikmönnum og getur notað þá til að byggja upp liðið sitt, bæði til að spila á móti öðrum yfir netið eða á móti tölvunni. Í raun hefur þetta ekki breyst það mikið fyrir NBA2K17; það er áfram heill hellingur af spilum sem maður getur safnað til að gera liðið sitt sem best og þetta er líklega staðurinn þar sem 2K Sports græðir mest því að það er ansi freistandi að eyða pening í nokkra pakka. En það eru margar aðferðir til að vinna sér inn spjöld innan leiksins. Maður getur spilað á móti liðunum í deildinni og svo sögulegum liðum rétt eins og í NBA2K16 (Domination) og það er líka hægt að vinna sér inn VC í gegnum símaapp. Domination var skemmtilegt í NBA2K16 þar sem maður fékk að spila á móti mörgum þekktustu liðum NBA sögunnar en gallinn var að það var ekki nóg að vinna leikina heldur þurfti maður að spila fáránlega vel til að fá öll spilin í boði fyrir hvern leik. NBA2K17 virðast vera búnir að lækka kröfurnar, eða að ég er orðinn of góður eftir NBA2K16, því að í fyrstu leikjunum var ég með vel yfir tvöföld stig fyrir það sem þurfti til að ná öllu á sjálfgefna erfiðleikastiginu.

Aðrar leiðir til að vinna sér inn spil eru vikulegar áskoranir þar sem maður þarf ekki endilega að spila heilan leik, heldur sigrast á aðstæðum eins og að vera tíu stigum undir á móti Toronto Raptors í síðasta leikhluta og þurfa að vinna. Það er enn það sem kallaðist „Gauntlet“ áður þar sem maður spilaði með þremur á móti þremur gegn öðrum spilurum en er núna hluti af Blacktop. Að endingu er það basarinn eða „Auction House“ þar sem maður getur keypt eða selt spil.

MyPark og Pro-am eru áfram „E-sports“ hluti NBA2K17 þar sem vanari leikmenn ráða ríkjum

MyPark virðist vera álíka og áður en þetta er „E-sports“ hluti NBA2K leikjanna (ásamt Pro-am þar sem MyPark spilarar mynda 5 manna og fara innandyra) þar sem þeir bestu spreyta sig og ég er svo sannarlega ekki í þeim hópi. Maður þarf tíma og vini til að ná langt í þessari leikjategund sem byggist á “streetball” körfubolta og hann er ekki auðveldur fyrir nýgræðinga að vinna sig upp í en hann hefur það þó að maður notar MyCareer spilarann sinn og því betri sem hann er, því betri er hann í MyPark. Það tekur bara ferlega langan tíma að komast inn í leiki ef maður er ekki í liði. Uppsetningin er nokkuð sniðug en tímafrek þvi að ef maður vill komast í leik þá þarf maður að bíða á hliðarlínunum eftir að fyrri leikur klárist (og maður horfir á hann á meðan) en það er hægt að spila 2 vs 2, 3 vs 3 eða 4 vs 4.

Síðan er hægt að spila sem bestu leikmenn í NBA fyrr eða síður með og á móti öðrum spilurum. Gallinn við þetta er að margir af leikjunum enda með því að flestir hætta og á endanum eru bara örfáir að spila og flestar stöður eru tölvustýrðar. Ástæðan er bæði að leikirnir eru frekar langir og að stundum er annað liðið áberandi betra og því hætta margir í lélegra liðinu. Það er algerlega óskiljanlegt af hverju 2K Sports leyfir ekki spilurum að detta inn í miðjan leik og laga þar með þetta vandamál rétt eins og með marga aðra leiki yfir netið. Þetta er synd því að það mjög skemmtilegt að spila þetta að öðru leyti, maður getur valið sögufræga leikmenn eins og John Stockton eða Shaq upp á sitt besta.

MyGM / MyLeague er eitthvað sem hægt er að mæla með fyrir spilurum sem hafa gaman af því að setjast í stól framkvæmdarstjórans og ráða öllu

MyGM / MyLeague er „Football manager“ hluti NBA2K17 og þrátt fyrir að hann höfði ekki til mín þá er þetta hiklaust eitthvað sem hægt er að mæla með fyrir spilurum sem hafa gaman af því að setjast í stól framkvæmdarstjórans og ráða öllu. Það er allt til þarna, áður en keppnistímabilið sjálft byrjar eru margir hlutir sem þarf að gera s.s. ákveða verð á miðum, veitingum og bílastæðum, ráða starfslið þ.á.m. þjálfara, aðstoðarþjálfara, fjármálastjóra, íþróttaþjálfara o.sfrv. Svo þarf að skoða unga leikmenn, þá sem eru með lausa samninga og hugsanlega berjast við önnur lið um þá ef viðkomandi er eftirsóttur. Síðan kemur sjálft nýliðavalið og allir í starfsliðinu hafa einhverja skoðun á hvern skal reynt að ná í, ekki bara sá sem sér um að fylgjast með leikmönnum (scout). Það er hægt að telja svona áfram en þessi leikjategund er mjög öflug í ár.

Það er erfitt að vera annað en ánægður með NBA2K17, hann fór fram úr mínum vonum því að ég bjóst ekki við að þeir myndu bæta sjálfa spilunina svona mikið milli ára, sem er jú eitt af því sem skiptir mestu máli. Ég finn fyrir mun minna pirringi gagnvart NBA2K17 en 16 því það er búið að laga marga litla hluti. Mæli með þessum fyrir aðdáendur NBA2K seríunnar og annarra sem vilja prófa frábæran íþróttaleik.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑