Leikjarýni

Birt þann 12. ágúst, 2016 | Höfundur: Steinar Logi

Fyrstu kynni: No Man’s Sky

Undanfarið hefur sumt í skemmtanabransanum verið yfirhæpað (svo ég sletti smá) eins og Batman v Superman og Suicide Squad. No Man’s Sky fellur í þann flokk en það var ekki endilega hönnuðurinn Hello Games sem olli því heldur varð fólk hrifið af hugmyndinni bak við leikinn á þessum tímu framhaldsleikja og fárra nýrra hugmynda. Það að geta flogið um alheiminn í leit af nýjum plánetum og sólkerfum höfðar til margra, sérstaklega þegar pláneturnar í leiknum eru 18 kvintilljónir (18.446.744.073.709.511.616). (Fyrir áhugasama þá er grein á ScienceBlogs sem metur fjöldann ca. 1024 af plánetum í okkar eigin alheimi en No Man’s Sky er á skalanum 1018)

Hver spilari byrjar við enda alheimsins og nokkurs konar takmark leiksins er að komast að miðjunni en þar sem þetta er nær algerlega sandkassaleikur þá er það ekkert endilega takmark frekar en maður vill.

Hver spilari byrjar við enda alheimsins og nokkurs konar takmark leiksins er að komast að miðjunni en þar sem þetta er nær algerlega sandkassaleikur þá er það ekkert endilega takmark frekar en maður vill. Það er hægt að skoða plánetur, uppgötva lífsform (plöntur og dýr), selja og kaupa hluti, uppfæra geimskipið sitt, byssuna sína (sem er líka notað til að ná í ýmis frumefni þ.e.a.s. „Mine“ enda minnir sumt á Minecraft) eða geimbúninginn sinn sem sér um að verja mann fyrir mishættulegu andrúmslofti og sveiflum í hitastigi. Til að kynnast og versla við aðrar geimverur þá þarf maður smátt og smátt að læra tungumálin þeirra með ýmsum aðferðum svo sem að finna dularfulla orkusteina (monoliths). Þannig að það er ýmislegt hægt að gera annað en að fljúga eða ganga um.

No_Mans_Sky_02

Eitt sem hefur verið að valda taugatitringi er að degi eftir útgáfu leiksins þá náðu tveir spilarar að hittast á sömu plánetu sem er eitthvað sem átti að vera nánast ómögulegt…

Eitt sem hefur verið að valda taugatitringi er að degi eftir útgáfu leiksins þá náðu tveir spilarar að hittast á sömu plánetu sem er eitthvað sem átti að vera nánast ómögulegt skv. Hello Games. Þetta gerðist því að annar spilarinn sá að einhver hafði nefnt sólkerfi og setti sig í samband við þann aðila. Þeir streymdu upplifun sína á Twitch en þrátt fyrir að vera á nákvæmlega sama stað þá sáu þeir ekki hvorn annan. Sean Murray, framkvæmdarstjóri Hello Games, hefur alltaf sagt að það sé mjög ólíklegt að hittast og að No Man’s Sky sé ekki fjölspilunarleikur. En hann hefur samt verið að gefa spilurum undir fótinn með því að segja að það sé hægt að sjá aðra spilara t.d. í The Colbert Show þannig að skiljanlega vill fólk fá þetta á hreint. Persónulega er þetta ekki stórt atriði fyrir mig enda hef ég aldrei litið á þetta sem fjölspilunarleik þó að það sé gaman að vita af öðrum í alheiminum t.d. með því að sjá eitthvað sem hefur verið skírt af öðrum spilara. Væntanlega taka Hello Games einhvern veginn á þessu en þetta 15 manna teymi hefur náð að skapa eitthvað einstakt þrátt fyrir minniháttar gagnrýni og segjast ætla að bæta reglulega við ókeypis uppfærslum.

No_Mans_Sky_01

Eftir að hafa spilað um 8 tíma af leiknum þá er ég fangaður af honum.

Eftir að hafa spilað um 8 tíma af leiknum þá er ég fangaður af honum. Þetta er leikurinn sem maður hefur vonast eftir síðan maður silaðist um á M35 Mako á einhverri óþekktri plánetu í Mass Effect. Þar voru bara örfáir staðir sem maður gat farið á til að námuvinna efni, klára eitthvað verkefni og einstaka sinnum lendi maður í risastórum sandormi en svo minnkaði áherslan á þetta í ME2 og ME3. Þrátt fyrir að ME1 hafi verið lakari leikur þá kitlaði þetta eitthvað í manni en varð leiðinlegt til lengdar því að Mako lét ekki vel að stjórn. Þetta er alls ekki tilfellið í No Man’s Sky því að geimskipið þitt lætur betur að stjórn hvort sem það er við yfirborð plánetu eða úti í geimi og maður fær þessa sjaldgæfu leikjatilfinningu að vera skoða eitthvað nýtt og óuppgötvað.

En þó að þessi leikur virki fyrir undirritaðan hingað til (bíð með lokaniðurstöðu þar til ég hef spilað hann talsvert meira) þá er ekkert víst að hann virki fyrir aðra. Þetta er leikur sem maður þyrfti helst að prófa eða horfa á til að finna hvort hann henti og það eru hugsanlega margir svekktir sem forpöntuðu leikinn. Það fer allt eftir væntingum manns og sumir hafa líst honum sem mjög grunnu en víðáttumiklu hafi. Í svona risastórri veröld þá eru eðlilega hlutir sem endurtaka sig og það er hugsanlegt að maður verði þreyttur á að sjá sömu dýr, plöntur og umhverfi bara í öðrum lit og með annarri samsetningu.

En leikurinn hefur bara verið til staðar í örfáa daga og líka fyrir gagnrýnendur því að hann fékk stóra uppfærslu rétt fyrir útgáfudag og mælst var til að gagnrýnendur tæku mið af þeirri útgáfu. Nörd Norðursins kemur með gagnrýni væntanlega eftir þó nokkrar plánetur, en ekki allar því að það myndi taka 5 milljarða ára.

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑