Spil

Birt þann 27. maí, 2016 | Höfundur: Þóra Ingvarsdóttir

Spilarýni: Love Letter – „gott spil þrátt fyrir að það sé í einfaldari kantinum“

Spilarýni: Love Letter – „gott spil þrátt fyrir að það sé í einfaldari kantinum“ Þóra Ingvarsdóttir

Samantekt: Reglurnar eru tiltölulega einfaldar og auðlærðar, en spilið leynir þó á sér og býður upp á furðu mikla strategíunotkun af svona einföldu spili að vera.

4

Gott


Einkunn lesenda: 3.9 (1 atkvæði)

Love Letter er tiltölulega einfalt kortaspil frá Alderac Entertainment Group fyrir 2-4 spilara sem gengur út á að verða síðasti spilarinn með spil á hendi, og þar með sá sem kemur bréfi sínu til prinsessunnar. Reglurnar eru tiltölulega einfaldar og auðlærðar, en spilið leynir þó á sér og býður upp á furðu mikla strategíunotkun af svona einföldu spili að vera.

Hver umferð byrjar á því að allir spilarar draga eitt spil úr stokknum. Spilastokkurinn samanstendur af spilum með myndum af 8 mismunandi persónum við hirðina – kóngum, prinsessum, hertogum, hirðmeyjum o.s.frv. – og hver persóna hefur tölu frá 1 til 8 eftir mikilvægi hennar við hirðina. Hvert persónuspil hefur síðan mismunandi eiginleika þegar því er spilað – sum gera annan spilara úr leik undir ákveðnum kringumstæðum (t.d. ef sá sem spilaði því getur giskað rétt á hvað hinn spilarinn sé með á hendi), á meðan önnur leyfa spilaranum að gera hluti eins og að skipta um hendi við aðra spilara eða sjá hvað aðrir eru með á hendi.

Love_Letter_01

Síðan skiptast spilarar á við að draga eitt spil úr stokknum og spila svo öðru hvoru spilinu sem þeir eru nú með. Það er hér sem strategían kemur til leiks – með því að muna hverju hinir spilararnir hafa spilað, hvað þeir vita um aðra spilara, og velja að spila rétt í samræmi við þessar upplýsingar, reynir maður að gera hina spilarana úr leik. Sá spilari sem er síðan að lokum einn eftir með spil á hendi vinnur umferðina. Fari svo að fleiri en einn spilari hafi ennþá spil á hendi þegar stokkurinn er búinn, sýna allir spilin sín og sá sem er með spilið með mest mikilvægi við hirðina (þ.e. með hæstu töluna) vinnur þá umferðina.

Love Letter er mjög auðlært og auðskilið – það er gott spil til að kenna fólki sem hefur kannski ekki mikla reynslu af flóknum spilum, eða þolinmæði við löng spil.

Love Letter er mjög auðlært og auðskilið – það er gott spil til að kenna fólki sem hefur kannski ekki mikla reynslu af flóknum spilum, eða þolinmæði við löng spil. Sjálf hef ég kennt Love Letter fólki sem hafði áður ekki spilað neitt flóknara en ólsen ólsen og lúdó, og það sló algjörlega í gegn hjá þeim og vakti áhuga þeirra á að byrja að prófa önnur spil. Myndirnar á spilunum eru einfaldar en fallegar, og spilið er líka ekki stærra en lítill spilastokkur þannig að það er mjög fyrirferðalítið. Eins og áður sagði leynir það samt á sér, það er nauðsynlegt að nota heilann og hugsa taktískt til að vinna.

Love_Letter_02

Hinsvegar er auðvitað takmarkað hversu mikla fjölbreytni er hægt að fá út úr spili sem byggist eingöngu á 16 spila stokk. Eftir að maður er búinn að ná tökum á spilinu er ekki mikið nýtt sem maður fær út úr því, allar spilanir eru frekar svipaðar. Einnig skiptir litlu máli hversu vel maður spilar, ef maður dregur eingöngu léleg spil í umferðinni er lítið sem maður getur gert til að sporna við slæmu gengi.

Love Letter er að mínu mati mjög gott spil þrátt fyrir að það sé í einfaldari kantinum, og þegar mann vantar spil sem er fljótlegt bæði að kenna og spila eru fá betri.

Love Letter er að mínu mati mjög gott spil þrátt fyrir að það sé í einfaldari kantinum, og þegar mann vantar spil sem er fljótlegt bæði að kenna og spila eru fá betri. Fyrir þá sem eru ekki nógu hrifnir af prinsessuþemanu hafa ýmsar mismunandi útgáfur komið út – teiknimyndasöguáhugafólk ætti t.a.m. að kynna sér Batman útgáfuna, og einnig er til útgáfa byggð á The Hobbit og Munchkin útgáfa.

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑