Menning

Birt þann 29. mars, 2016 | Höfundur: Nörd Norðursins

Myndasögusýning í myndasögudeild: Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir

Laugardaginn 2. apríl kl. 15 opnar Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir myndasögusýningu í myndasögudeild Borgarbókasafnsins í Grófinni.

Lóa er útskrifuð úr Myndlistadeild Listaháskóla Íslands og lærði síðan myndskreytingar í Parsons í New York. Hún er um það bil að ljúka meistaranámi í ritlist við Háskóla Íslands.

Hún hefur sent frá sér bækurnar Alhæft um þjóðir (2009), Lóaboratoríum (2014) og Lóaboratoríum: Nýjar rannsóknir hafa mögulega leitt eitthvað í ljós (2015) og birt myndasögur í ýmsum ritum, m.a. Grapevine, (gisp!), Mannlífi, ÓkeiPiss og Very Nice Comics. Hún teiknaði hluta teiknimyndaseríunnar Hulli (2013 og 2016) og talsetur einnig. Lóa nefnir tvær ólíkar konur sem áhrifavalda, René French og Halldóru Thoroddsen. Fyrir utan að vera myndlistarkona, teiknari, myndskreytir og myndasöguhöfundur er Lóa þekkt fyrir að vera söngkona hljómsveitarinnar FM Belfast.

Myndverk Lóu má skoða á facebook síðu hennar, https://www.facebook.com/loaboratorium.

Á sýningunni, sem staðsett er í myndasögudeild á annarri hæð Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15, má finna myndasögur, skissur og teikningar. Sýningarrýmið er óhefðbundið og markmið sýningarinnar er að vekja athygli á íslenskum myndasöguhöfundum og verkum þeirra. Að auki er hið hefðbundna bókasafnsrými myndasögudeildarinnar gert meira lifandi með því að hafa þar reglulegar myndasögusýningar.

Myndasögusýning Lóu stendur yfir 2. apríl – 30. maí 2016.

Fréttatilkynning

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑