Fréttir

Birt þann 28. mars, 2016 | Höfundur: Nörd Norðursins

EVE Fanfest 2016 hefst 21. apríl

Bjarki Þór Jónsson skrifar:

Eftir aðeins meira en þrjár vikur eiga EVE Online spilarar og starfsmenn CCP eftir að sameinast í Hörpu þar sem EVE Fanfest fer fram dagana 21.-23. apríl. EVE Fanfest er árlegur viðburður sem íslenska tölvuleikjafyrirtækið CCP stendur fyrir þar sem hönnuðir leiksins og spilarar hans mætast og ræða saman um framtíð leiksins og um leið fer CCP yfir þær breytingar sem hafa átt sér stað í EVE Online og kynna hvað er væntanlegt frá fyrirtækinu.

EVE Fanfest snýst ekki eingöngu um EVE Online (þó sá leikur er augljóslega í aðalhlutverki) heldur eru aðrir leikir CCP einnig til umfjöllunar. Frá seinasta Fanfesti hefur fyrstu persónu skotleikurinn DUST 514 nánast horfið af sjónarsviðinu, en það á að slökkva á netþjónum leiksins síðar á þessu ári (GameSpot). Leikurinn hefur verið ókeypis á PlayStation 3 en hann virðist ekki hafa náð þeim vinsældum sem vonast var eftir. Undanfarin tvö ár hefur CCP verið að skoða möguleika sýndarveruleika með tilkomu VR tækja. Fyrirtækið hefur síðan þá gefið út EVE Gunjack fyrir Samsung Gear VR og EVE Valkyrie er að detta í verslanir samhliða útgáfu Oculus Rift. Fyrirtækið tilkynnti fyrir stuttu að Gunjack væri væntanlegur à Oculus og Vive, en EVE Valkyrie verður einnig fáanlegur á PlayStation VR sem kemur í verslanir í október á þessu ári.

EVE Fanfest er stærsti tölvuleikjatengdi viðburðurinn á Íslandi og er auðveldlega hægt að mæla með þessari ráðstefnu-hátíð fyrir alla, sama hvort þeir spili EVE eða ekki. Líkt og önnur ár endar Fanfestið með The Party at the Top of the World þar sem Skálmöld mun spila fyrir gesti en CCP notaði einmitt lagið þeirra Árás í EVE Online kynningarmyndbandi árið 2012. Permaband (starfsmenn CCP) munu einnig taka lagið, en þau hafa meðal annars sent frá sér slagarana HTFU og Killing is Just a Means.

Miði á alla hátíðina kostar 220 dollara, eða í kringum 27.000 krónur.
Smelltu hér til að kaupa miða.

Sjáumst á Fanfest!

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑