Bíó og TV

Birt þann 24. maí, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins

Kvikmyndarýni: Mad Max: Fury Road

Kvikmyndarýni: Mad Max: Fury Road Nörd Norðursins

Samantekt: Þetta er algert tímamótaverk og kemur sem ferskur vindur inn á markað þar sem hasarmyndir eru orðnar frekar keimlíkar og staðlaðar.

5

Tímamótaverk!


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Steinar Logi Sigurðsson skrifar:

Ástæðan fyrir því að ég dreif mig á Mad Max voru ekki auglýsingarnar í þessum óteljandi leikhléum í NBA úrslitunum eða glimrandi gagnrýni bíóspekúlanta heldur eitt tíst frá leikstjóranum Rian Johnson. Tístið var svohljóðandi: „GEORGE MILLER JUST TOOK US ALL TO SCHOOL“ (@rianjohnson 15 maí). Rian þessi gerði Looper sem ég hafði mjög gaman af og fannst frumleg þannig að ef hann var sendur í skóla þá hlaut þetta nú að vera eitthvað.

Flestir þekkja Mad Max myndirnar sem komu út fyrir mörgum árum með Mel nokkrum Gibson. Mad Max: Fury Road er ekki endurgerð þeirra mynda heldur nokkurs konar endursköpun. Söguþráðurinn er í stutta máli að Mad Max er illa þjakaður af fortíðardraugum og ber nafn með rentu í upphafi myndarinnar. Hans eini tilgangur í lífinu er að komast af. Heimurinn er sá sami og í fyrri myndunum og jafnvel enn verr farinn eftir að mannkynið hefur gerst sitt besta til að útrýma sér (post-apocalyptic). Eftirlifendurnir skiptast í nokkurs konar þjóðflokka og Mad Max er fangaður af einum þeirra. Stuttu seinna fer allt í bál og brand. Þið verðið að afsaka þessa hallærislegu setningu en tilgangurinn er að spilla ekki neinu.

MadMax04

Mad Max er leikinn af Tom Hardy og Charlize Theron leikur Imperator Furiosa og þau eru bæði í aðalhlutverki. Reyndar er Fury Road frekar saga Furiosa heldur en Mad Max og stendur Charlize sig ótrúlega vel. Einhvern veginn nær hún að vera mesti harðhaus síðan Linda Hamilton í Terminator 2 en samt finnur maður að það er persóna með tilfinningar þarna undir. Reyndar gerir Tom Hardy þetta líka og ég er nokkuð viss um að ástæðan eru augun. Mér er minnistætt þegar Christopher Nolan hrósaði Tom Hardy fyrir að „leika með augunum“ því að það var nákvæmlega það sem hann þurfti að gera í hlutverki Bane í Dark Knight Rises. Það sama á við með Charlize Theron, þau kunna að nota andlitið.

Þegar maður heldur að toppnum sé náð þá gerir myndin betur aftur og aftur. George Miller hefur tekist að sameina tæknibrellur og áhættuleik […] og gera hann það raunverulegan að það er eins og maður hafi stigið úr tímavél.

Myndin er kannski 80% stanslaus hasar og hann er hreint ótrúlegur. Þegar maður heldur að toppnum sé náð þá gerir myndin betur aftur og aftur. George Miller hefur tekist að sameina tæknibrellur og áhættuleik (það er ansi mikið um áhættuleik í myndinni) og gera hann það raunverulegan að það er eins og maður hafi stigið úr tímavél. Það er ómögulegt að finna galla í þessum atriðum og reyndar á þessum kvikmyndaheimi. Ef Fury Road vinnur ekki að minnsta kosti verðlaun fyrir búningagerð þá verð ég mjög svekktur. Hún á reyndar skilið talsvert fleiri verðlaun en það.

MadMax02

Farið var á myndina í 3D í Egilshöll og hún kom einstaklega vel út sem slík en hún virkar eflaust vel í 2D líka. Eitt er víst að svona mynd þarf að sjá á stórum skjá ef maður hefur færi á. Tónlistin er samin af Junkie XL (Tom Holkenborg) og hún passar mjög vel við myndina. Það er ekki oft sem undirritaður tekur sérstaklega eftir tónlistinni þegar fylgst er með hasar en það komu augnablik þar sem það var ekki annað hægt en að dást af hvernig tónlistin passaði vel við. Enn eitt dæmið um að það er erfitt að finna veika punkta á þessari mynd. Eina sem manni dettur í hug er að hún er bönnuð innan 16 en ofbeldið var frekar vægt miðað við þennan heim og aðrar myndir nútímans. En það er hægt að vekja óhug og láta mann finna fyrir því að hetjurnar eru í hættu á annan hátt.

Mad Max: Fury Road er nýkominn út og er strax búinn að setja sig á stall bestu hasarmynda sögunnar. Þetta er algert tímamótaverk og kemur sem ferskur vindur inn á markað þar sem hasarmyndir eru orðnar frekar keimlíkar og staðlaðar. Þetta er Matrix okkar tíma og á eftir að hafa áhrif á hasarmyndir héðan af og það þurfti 70 ára leikstjóra gömlu myndanna sem var farinn að dunda sér við barnamyndir eins og Happy Feet og Babe: Pig in the City til að gera það.

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑