Íslenskt

Birt þann 27. mars, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Aaru’s Awakening

Aaru’s Awakening er pallaleikur í tvívídd (scrolling platformer) frá íslenska leikjafyrirtækinu Luminox Games, átta manna fyrirtæki staðsett í Hafnarfirðinum. Fyrirtækið var stofnað 2012 og Aaru’s Awakening er fyrsti og eini leikurinn þeirra hingað til. Sjálfur fékk ég að prófa leikinn á Haustráðstefnu Advania 2013 og þótti hann áhugaverður.

Aaru þessi er, í orðum Lumenox, blanda af hana og górillu og er Meistari Dögunar. Í þessum heimi eru guðirnir kenndir við mismunandi birtuskilyrði og nefnast Dögun, Dagur, Rökkur og Nótt (Dawn, Day, Dusk and Night). Guðirnir hafa gert samning sín á milli til að allt gangi friðsamlega fyrir sig en nú ógnar Nótt þessu jafnvægi og því er Aaru sendur í hættuför til konungsdæmis Nætur.

Aarus01

Reyndar er sagan einn veikasti þáttur leiksins og virkar óljós og óspennandi. Sagan er lesin af konu eða stúlku, sem stendur sig prýðilega, en það er mjög erfitt að ná tengingu við þennan Aaru og hans sögu. Textinn hefði mátt vera hnitmiðaðri og minna orðagljáfur. Það hefði verið hægt að lýsa þessum heimi betur t.d. vísað í hinar ýmsu verur sem verða á vegi Aaru.

Sérstaða Aaru’s Awakening liggur í tvennu; annars vegar útlitinu og hins vegar „teleportation“ eiginleikum Aaru.

Sérstaða Aaru’s Awakening liggur í tvennu; annars vegar útlitinu og hins vegar „teleportation“ eiginleikum Aaru. Allt sem maður sér í leiknum er handteiknað af dönskum listamönnum Lumenox þ.e.a.s. allt sem er til í leiknum hefur verið til á pappír fyrst. Þess vegna er Aaru’s Awakening með mjög sérstakt og fallegt útlit. Að vísu leiðir það stundum til minni háttar hnökra eins og það að aðgreina hluti sem maður getur t.d. brotið eða gert eitthvað við í umhverfinu frá öðrum hlutum, getur verið erfitt. Það er samt smávægilegt miðað við hvers einstakt útlit leikjarins er.

Aarus02

Leikinn sjálfan er hægt að flokka óformlega sem „erfiðan leik“ í anda Shovel Knight, Rogue Legacy, Super Meat Boy o.s.frv. þar sem það óhjákvæmilegt að drepast oft. Þessir leikir eru samt frekar ólíkir hvað varðar spilun og það sama á við Aaru’s Awakening. Til að komast áfram þarf maður ýmist að nota skrokkinn til að brjótast í gegnum veika punkta í umhverfinu eða skjóta kúlu (sem á að vera sál Aaru’s) sem maður getur svo flutt sjálfan sig á. Upphaflega byggði maður upp hraða kúlunnar með því að halda inni músarhnappinum þannig að maður þurfti að halda honum inni í dýrmæt sekúndubrot til að skjóta sér snöggt í burtu. Með uppfærslu 2.0 sem kom út 6. mars sl. var þessu snúið við, núna getur maður notað kúluna til að koma sér fljótlega í burtu og það virkar eðlilegra og gerir spilun skemmtilegri.

Sjálfur sæki ég frekar í erfiðari leiki, undanfarið hef ég t.d. spilað The Binding of Isaac og Rogue Legacy talsvert. Það sem vantar uppá að Aaru’s komist í þann flokk leikja er að verðlauna spilarann meira.

Aaru’s Awakening er ekki fyrir alla. Útlitið heillaði t.d. 8 ára son minn og hann prófaði að spila hann eitthvað en þrátt fyrir að vera yfirleitt góður í leikjum þá gafst hann fljótlega upp vegna erfiðleikastigs. Sjálfur sæki ég frekar í erfiðari leiki, undanfarið hef ég t.d. spilað The Binding of Isaac og Rogue Legacy talsvert. Það sem vantar uppá að Aaru’s komist í þann flokk leikja er að verðlauna spilarann meira. Í Isaac þá er fullt af hlutum sem maður getur notað og samsetning þessara hluta er nánast óendaleg. Í Rogue Legacy byggir maður kallana sína smátt og smátt upp með alls konar leiðum. Ekkert svoleiðis er til staðar í Aaru’s nema ef maður vill keppa við vini sína og aðra í hver er fljótari á ákveðnum borðum (leaderboards).

Aarus03

Leikurinn er samt ekki leiðinlegur, þvert í móti, hann er erfiður en ekki óyfirstíganlegur. Einstaka sinnum eflist samt pirringurinn hjá manni, t.d. þegar maður loksins nær einhverju takmarki en þá uppgötvar maður að þetta var bara fyrsta skref af tveimur eða þremur. Þetta er semsagt hannað til að spila oft þannig að maður læri borðin. Gallinn er bara, eins og áður sagði, að án þess að vera verðlaunaður meira þá er maður ekki mikið að spila borðin aftur. Það vantar hvatninguna.

Markhópurinn er semsagt ekki stór en þeir sem hafa gaman af svona leikjum og horfa t.d. á Bananasaurus Rex á Twitch ættu að hafa gaman af þessum leik.

Einkunn: 3 af 5

 

Höfundur er Steinar Logi Sigurðsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑