Leikjarýni

Birt þann 24. desember, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Metal Gear Solid V: Ground Zeroes

Hideo Kojima kemur með Metal Gear Solid V: The Phantom Pain einhvern tímann á næsta ári. Í sárabætur fengum við Metal Gear Solid V: Ground Zeroes til að svala forvitninni. Þessi stutti leikur er stutt forsaga Phantom Pain og virkar í rauninni sem spilunarleiðbeiningar. Metal Gear leikirnir hafa stokkið fram og til baka hvað varðar tíma en þessi leikur er beint framhald leiksins Metal Gear Solid 3: Peace Walker. Þessi leikur var spilaður á PlayStation 3.

Hinn eitursvali Snake er sendur í enn eina hættuförina þar sem hann þarf að bjarga tveim manneskjum á leynilegri bandarískri herstöð á Kúbu og hann er aðeins einn á móti heilum her. Eins og í fyrri leikjum í þessari vinsælu leikjaseríu er áherslan lögð á að komast í gegnum sendiförina óséður og forðast átök. Þegar maður klárar verkefnið opnast 4 ný verkefni sem notast við sama borðið en umhverfið og verkefnin eru mjög ólík. T.d. er talsverður munur á staðsetningum á vissum hlutum og hermönnum ástamt því að sum verkefnin gerast að degi til í bongó blíðu. Eitt verkefnið byrjar með látum þar sem maður er í þyrlu og öll herstöðin veit af manni. Þannig að það er mikil fjölbreytni þrátt fyrir að sama borðið sé notað. Ekki nóg með það þá er hægt að opna 2 aukaverkefni með því að finna öll einkennismerki sem eru á víð og dreif á herstöðinni. Svo er einnig hægt að klára önnur smáverkefni í hverju verkefni eins og að opna allar læstar hurðir á sem stystum tíma eða skjóta alla hrafnana. Ef maður kann á borðið og maður veit hvað á að gera þá er hægt að klára það á rosalega stuttum tíma. Þegar leikurinn er svona opinn og það er hægt að spila hann á marga vegu þá er eiginlega ómögulegt að segja til um endinguna. Flestir segja að það sé hægt að ná allt frá 8 til 12 tíma í spilun ef maður ætlar sér að safna öllu því sem hægt er að safna og gera.

MGSV_Ground_Zeroes_01

Ég hef aðeins spilað Metal Gear Solid leikinn sem kom út á gömlu góðu PlayStation tölvunni árið 1998. Þannig að ég var mjög hissa þegar ég heyrði rödd Kiefer Sutherland sem Snake. Eftir smá tíma var maður hættur að hugsa um þetta og hann Kiefer er alveg með þetta á hreinu og alls ekki hægt að segja neitt slæmt um talsetninguna í leiknum. Tónlistin er sömuleiðis til fyrirmyndar og síðan er einnig möguleiki á að spila sína eigin tónlist. Það er hægt að velja 10 mp3 lög af harða disknum og ég endaði á því að vera oft með Doobie Brothers í kasettutækinu hans Snake. Það passaði nokkuð vel við leikinn þar sem það var ansi nálægt tímabilinu sem þessi leikur á að gerast. Eini gallinn við það að spila sína eigin tónlist var að það kom pínu hökt á leikinn þegar skipt var um lag. Þetta gerðist ekki með lögin sem fylgdu með leiknum.

MGSV_Ground_Zeroes_02

Leikurinn er gríðarlega flottur og allar senurnar í leiknum jafnast á við Hollywood mynd. Til dæmis er byrjunarsenan eitt langt óklippt skot sem væri ansi erfitt að leika eftir á raunveruleikanum án brellna. Baksögu leiksins fær maður að heyra í hljóðformi og notast maður við vasadiskóið til að hlusta á það. Þeir komast upp með þó nokkuð mikið að segja okkur söguna svona í hljóðformi þar sem maður hlustar á upptökur með pyntingum á. Aðalsöguþráðurinn endar á sannkallaðri sprengju og er maður ansi spenntur að sjá hvað kemur í framhaldinu og sagt er að framhaldið sé 200 sinnum stærra en svæðið sem stendur til boða í þessum leik.

Ég mæli hiklaust með leiknum fyrir þá sem hafa gaman af fyrri leikjum eða Hitman seríunni. Leikurinn er mjög stuttur en það er bara svo mikið hægt að gera í honum og endalaust hægt að prófa sig áfram. Fjórar stjörnur af fimm mögulegum.

 

Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑