Bækur

Birt þann 7. október, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

„Ævintýri og furðuheimar voru mér alltaf ofarlega í huga“ – Viðtal við Emil Hjörvar Petersen

Við hjá Nörd Norðursins tókum Emil Hjörvar Petersen tali í tilefni af útkomu þriðju og síðustu bókarinnar í þríleiknum Saga eftirlifenda, en Emil gefur bækurnar sjálfur út. Það er margt spennandi um að vera hjá Emil þessa dagana, auk þess að leggja lokahönd á útgáfu bókarinnar Níðhöggur og halda úti forsölu á Karolina Fund til að fjármagna útgáfuna, vinnur hann að endurprentun fyrstu og annarrar bókar í þríleiknum. Hann vinnur einnig, í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, að verkefninu Furður í Reykjavík. Emil er harður fantasíuaðdáandi og þaulreyndur lesandi en auk þess að lesa og skrifa fantasíur hefur hann lagt stund á nám í bókmenntafræði með áherslu á furðusögur og skrifaði hann meistararitgerð sína um borgarfantasíuna American Gods eftir Neil Gaiman. Það var því ekki úr vegi að rabba við hann um heim fantasíunnar.

 

Hefurðu alltaf haft áhuga á fantasíum?

Síðan ég man eftir mér hef ég haft gaman að því að hlusta á og segja sögur. Mér hefur verið sagt að sem barn gat ég setið tímunum saman og dundað mér við að krota og dikta upp einhverjar frásagnir. Ævintýri og furðuheimar voru mér alltaf ofarlega í huga, og þegar ég komst á unglingsárin opnaðist heimur fantasía og vísindaskáldskapar fyrir mér — og nördinn braust fram.

 

Hver er uppáhalds fantasían þín og af hverju?

Mér koma til hugar þrjár uppáhaldsbækur. Fyrst er það American Gods eftir Neil Gaiman. Að mínu mati er bókin einn af hornsteinum borgarfantasía og hvernig unnið er með goðsagnir í slíkum sögum. Svo er það The Road eftir Cormac McCarthy, en ég held að hún sé eitt besta post-apocalyptic-verkið sem skrifað hefur verið, drungalegt, lágstemmt en hrollvekjandi. Jonathan Strange & Mr. Norrell eftir Susanna Clarke er einnig í uppáhaldi, skemmtileg, frumleg og vel útfærð hliðarsaga.

 

En hver er uppáhalds íslenska fantasían þín?

Ef ég ætti að nefna eitthvert eitt íslenskt verk væri það Argóarflísin eftir Sjón. Þótt sagan flokkist ekki opinberlega sem furðusaga ber hún mörg einkenni hennar. Efniviður bókarinnar, goðsagnir og úrvinnsla þeirra, er minn tebolli.

 

Hver er síðasta fantasían sem þú last?

Ég las nýlega Mythago Wood eftir Robert Holdstock, sem fjallar um bræður og föður þeirra sem verða helteknir af skóginum umhverfis ættarsetrið, og hver af öðrum týnast þeir í honum. Kláraði Gunslinger eftir Stephen King um daginn og ætla að halda áfram með Dark Tower-seríuna. Einnig las ég fyrir skömmu gömlu íslensku þýðinguna á 20.000 Leagues Under the Sea (eða Sæfarann) eftir Jules Verne. Núna er ég að lesa Kraken eftir China Miéville og þriðju bókina í Earthsea-kvartettinum eftir Ursulu Le Guin.

 

Er einhver grein fantasíunnar sem þú ert hrifnari en aðrar?

Í augnablikinu heilla mig mest borgarfantasíur, post-apocalyptic og gufupönk. En ég tek ekkert fram yfir annað. Ef áhugaverð og góð háfantasía verður á vegi mínum les ég hana upp til agna.

 

Saga_eftirlifenda_01Af hverju ákvaðstu að skrifa fantasíu?

Ég man eftir augnablikinu þegar ég ákvað að Saga eftirlifenda skyldi verða furðusaga. Í byrjun átti sagan að vera öðruvísi, ég hafði gefið út tvær ljóðabækur og ég ætlaði að reyna að skrifa skáldsögu inn í íslenska bókmenntahefð, þ.e.a.s. sögu sem íslenskir útgefendur yrðu hrifnir af. En ég man eftir því að hafa starað á tölvuskjáinn, hrist höfuðið og muldrað: „Nei, þetta er bara ekki að virka.“

Hugmyndina um að segja sögu ásanna sem lifðu af Ragnarök fékk ég tveimur árum áður en ég raunverulega byrjaði að skrifa hana. Ég þróaði hugmyndina meðfram skóla og vinnu, prófaði að skrifa staka kafla, og í byrjun aðeins út frá Heði. Eftir að Baldur kom til sögunnar og ég þróaði fleiri persónur og grindur að plotti fann ég fljótlega fyrir því að ég þyrfti að nálgast söguna á annan hátt. Ég hugsaði: „Þetta virkar ekki nema ég skrifi söguna sem furðusögu. Ég skrifa bara nákvæmlega eins og ég vil, ekki neinum til geðs, ég leyfi öllu því sem ég hef áhuga á að flæða í gegn. Útgefendur eiga eflaust ekki eftir að vilja að taka neinn séns með þetta, ég veit það, engin hefð er hérna fyrir svona bókum, en ég verð að segja þessa sögu og ég verð að segja hana algjörlega á mínum forsendum. Sjáum hvernig það gengur.“ Þá fóru hlutirnir nefnilega að gerast. Ég henti nær öllu því sem ég hafði skrifað fram að því, geymdi grunnhugmyndirnar og byrjaði aftur frá byrjun. Eldmóðurinn braust fram á ný, ég skemmti mér konunglega við að skrifa.

 

Af hverju varð goðsögulegt efni fyrir valinu?

Ég hef alla tíð haft áhuga á goðsögum, þær eru botnlaus brunnur innblástur. Goðsögur eru vitnisburður um sammannlegan þankagang, sammannleg vandamál og breyskleika, því að formgerð sagnanna er áþekk hvar sem er í heiminum. Og mér finnst þær einfaldlega heillandi.

Frá því að ég og bræður mínir fengum íslenska hlutverkaspilið Ask Yggdrasils í jólagjöf fyrir tuttugu árum hef ég haft óslokknandi áhuga á norrænni goðafræði, og þessar spurningar blunduðu í mér lengi: Af hverju lifðu endilega þessi af Ragnarök? Til dæmis þessir bræður sem drápu hver annan (Höður drap Baldur og Váli drap Höð)? Nótt eina mörgum árum síðar, þegar ég var byrjaður að skrifa af viti, fékk ég hugmyndina. Þá var ekki aftur snúið.

 

Sóttirðu innblástur annars staðar að en úr hinum norræna goðsögulega heimi?

Algjörlega. Þótt ég vinni mikið með norrænar goðsagnir eru þær aðeins brotabrot af því sem ég sæki innblástur til. Ég byggi og þróa nýjan furðuheim ofan á þann veruleika sem við þekkjum. Goðsagnir heimsins, mannkynssagan, stjórnmál, trúarbrögð, bókmenntir, tungumál, heimspeki, aðrir menningarheimar og svo mætti lengi telja; allt er þetta kveikjan að einhverju sem gerist eða er fjallað um í sögunni. Sagan hefur krafist mikillar rannsókarvinnu.

 

Saga_eftirlifenda_02Hvernig hefur gengið að gefa út sjálfur?

Mjög vel — og það ferli hefur verið lyginni líkast. Þetta hefur auðvitað verið mikil vinna, verið ansi áhættusamt, en gengið framar vonum, og það er ótrúlega ánægjulegt að sjá söguna öðlast líf meðal lesenda. En í fyrsta skipti, núna þegar ég þarf að prenta þrjár bækur í einu (frumprenta þriðju og endurprenta fyrri tvær), er fjárhæðin svo há að það er tvísýnt að ég nái að komast yfir núllið. Þess vegna leita ég eftir aðstoð í gegnum forsölu/hópfjáröflun.

Áður en ég opnaði Karolina Fund-síðuna hafði ég aldrei rætt um það opinberlega hvernig ég hef sjálfur fjármagnað útgáfuna, þ.e.a.s. að hún hafi hingað til verið alfarið borguð með mínum eigin peningum — mér, tiltölulega nýskriðnum úr háskóla með sáralitlar tekjur. Þegar fyrsta bókin kom út 2010 var ég nýbúinn að fá námslánsgreiðslu. Ég tæmdi bankareikninginn þegar ég borgaði prentunina og krossaði fingur. Svo kom fyrsti dómurinn í Mogganum, sem var svona rosalega jákvæður, fjallað var um söguna í Kiljunni og fólk fór að veita því eftirtekt að ég væri að gera eitthvað sem ekki hefði verið gert áður hér á landi. Salan var góð og ég fékk peninginn til baka, en gróðinn var ekki mikill. Þegar ég var á kafi í Heljarþröm, annarri bókinni, hafði framhaldsskóli samband við mig og spurði hvort til væru eintök af Heði og Baldri fyrir heilan árgang. Bókin var þá tekin inn í kennslu þar og einnig nokkrum öðrum framhaldsskólum í kjölfarið. Það var mikil hvatning.

Ég trúi því varla sjálfur að mér hafi tekist þetta, bæði að skrifa söguna og gefa hana út. Helst er því að þakka hversu góða ég á að. Fjölskylda mín, vinir og unnusta hafa sýnt mér stuðning allan tímann.

 

Nú hefurðu valið þá leið að safna fyrir útgáfu á þriðju bókinni í gegnum Karolina Fund, hvernig hafa viðbrögðin verið?

Alveg frábær! Allir eru mjög jákvæðir og hjálpsamir. Fólk samgleðst mér að síðasta bókin sé að koma út, að mér sé að takast þetta.

Saga_eftirlifenda_03

Forsíða þriðju og síðustu bók skáldsagnaþríleiksins Saga eftirlifenda sem kemur út í október

 

Ertu bjartsýnn á að markmiðið náist?

Þetta lítur ágætlega út, en ég vil ekki „jinxa“. Það þarf töluvert til svo að þetta komist upp í 100%, og ef það gerir það ekki fellur fjáröflunin alveg niður og engin upphæð er tekin af kortunum. Ég er í raun að safna fyrir þriðjungi af heildarútgáfukostnaði. Ef ég næ þessu léttir það töluvert af byrðinni og tryggir það að ég komist yfir núllið. So far, so good. Öll aðstoð er vel þegin!

 

Hefur einhvern tímann hvarflað að þér að gefast upp?

Aldrei. Ritstörf eru mitt líf og yndi, og þótt herjað sé að bókmenntaheiminum úr öllum áttum núna með niðurskurði og skattahækkunum, held ég áfram. Ég skal alveg viðurkenna að þetta hefur verið erfitt á köflum, en það væri líka skrítið ef þetta væri auðvelt. En ég nýt þess að skrifa, það er það skemmtilegasta sem ég geri. Þetta er mikil og krefjandi vinna og ég ögra sjálfum mér hvern dag, sem er jákvætt, því að ég finn að ég get alltaf lært eitthvað nýtt, get alltaf bætt mig; það drífur mig áfram.

 

Hvað geturðu sagt okkur verkefninu sem þú vinnur í samstarfi við Reykjavík bókmenntaborg UNESCO?

Verkefnið kallast Furður í Reykjavík og er hluti af Lestrarhátíð í október, í Reykjavík bókmenntaborg UNESCO. Ég byrja á því að flytja þrjá opna fyrirlestra um furðusögur. Hver fyrirlestur er með sína áherslu. Í kjölfarið hef ég umsjón með ritsmiðjum, en hópurinn hittist fjórum sinnum. Áhersla ritsmiðjanna er á furðusögur og hvað liggur að baki því að skrifa slíkar sögur á íslensku. Þátttakendur geta spreytt sig á því að vinna úr hugmynd stig af stigi. Skráning er hafin, það er takmarkaður sætafjöldi, en ég held að það séu nokkur eftir.

Með fyrirlestrunum og ritsmiðjunum langar mig að deila þeirri þekkingu sem ég hef aflað mér og einnig þeirri reynslu sem ég hef öðlast eftir að hafa skrifað þríleikinn Sögu eftirlifenda. Ég vonast til þess að verkefnið verði þáttur í því að efla íslenska furðusagnamenningu.

 

Emil hefur tjáð okkur að nú þegar Sögu eftirlifenda sé að ljúka sé hann strax kominn með hugmyndir að tveimur fantasíum svo spennandi verður að fylgjast með framhaldinu. Nörd Norðursins fagnar því að hinn íslenski fantasíuheimur sé sífellt að eflast og færast af jaðri bókmenntaheimsins inn á miðjuna, fyrirlestraröð og ritsmiðja fyrir almenning á ugglaust eftir að styrkja stöðu fantasíunnar hér á landi. Hafi lesendur áhuga á að kynna sér verkefnið nánar og skrá sig bendum við á heimasíðu verkefnisins og viðburð verkefnisins á Facebook.

Hafi lesendur áhuga á að styrkja útgáfu Emils og fá í staðinn eintök af bókinni, allan þríleikinn eða jafnvel upplestur frá sjálfum höfundinum bendum við á styrktarsíðu hans á Karolina Fund.

 

Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir,
nemi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑