Greinar

Birt þann 10. október, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

11 nýlegir norrænir leikir sem þú verður að prófa

Mikil gróska hefur átt sér stað í hinum norræna leikjaiðnaði undanfarin ár. Hér á Íslandi hafa leikjafyrirtækin CCP og Plain Vanilla Games verið mest áberandi í umræðunni en á sama tíma eru ný leikjafyrirtæki að taka sín fyrstu skref með ferskar leikjahugmyndir. Þar má meðal annars nefna Lumenox Games með leikinn Aaru’s Awakening sem er væntanlegur á PlayStation 4 síðar á þessu ári og Asunder: Earthbound, fyrsta útgefna Oculus Rift leikinn frá íslensku fyrirtæki, sem leit dagsins ljós á seinast ári.

Á Norðurlöndunum má finna fjölmörg leikjafyrirtæki sem margir tölvuleikjaspilarar ættu að kannast við; Rovio frá Finnlandi (Angry Birds), DICE frá Svíþjóð (Battlefield), IOI frá Danmörku (Hitman) og svo mætti lengi telja, svo ekki sé minnst á þau fjölmörgu smærri leikjafyrirtæki. Margir góðir leikir eiga það til í að týnast í öllu þessu leikjaflóði svo ég ákvað að setja saman lista yfir 11 nýlega norræna leiki sem ég mæli sterklega með að prófa. Leikirnir eru birtir í stafrófsröð.

 

140

140

Þessi er í persónulegu uppáhaldi. 140 sýnir og sannar að leikur þarf ekki að vera flókinn til að vera góður. Leikurinn er ótrúlega mínimalískur og nokkuð erfitt er að lýsa honum með orðum – þú verður einfaldlega að prófa hann. Í 140 stjórnar spilarinn umbreytanlegu formi (kassi, hringur og þríhyrningur) sem þarf að leysa þrautir í litríkum heimi sem samanstendur af einföldum formum og taktfastri tónlist. Tónlistin í leiknum spilar stóran þátt í leiknum þar sem nauðsynlegt er að leysa sumar þrautir með því að fylgja taktinum í tónlistinni og ýta á réttan takka á rétta augnablikinu, til dæmis akkúrat á meðan trommutakturinn eða bassalínurnar hljóma í laginu. Spilarinn safnar svo litlum kúlum í gegnum leikinn sem bæta nýjum takti við tónlistina og þar með opnast fyrir fleiri möguleika í leiknum.

Hljómar súrealískt? Eins og ég segi, þú verður að prófa þennan til að skilja hann almennilega, þú munt ekki sjá eftir því. Spilun leiksins er ótrúlega einföld (örva-takkarnir og einn hoppu-takki), en á sama tíma hættulega ávanabindandi. Það er Daninn Jeppe Carlsen sem stendur á bak við leikinn en hann kom einnig að gerð Limbo sem kom út árið 2010 sem hefur notið mikilla vinsælda í gegnum árin. 140 hlaut nýlega Nordic Game verðlaun fyrir listræna nálgun.

Skoða stiklu á YouTube | Skoða heimasíðu leiksins

 

BADLAND

Badland

Ef þú elskar vel gerða og hraða þrautaleiki sem auðvelt er að læra á og enn auðveldara að hoppa í og úr, þá ættiru að prófa Badland frá finnska leikjafyrirtækinu Frogmind. Í leiknum stjórnar spilarinn svartri dularfullri krúttveru sem flýgur í gegnum hvert borðið á fætur öðru. Hvert borð er stutt sem gerir það að verkum að auðveldara er að hoppa í og úr leiknum. Það eina sem spilarinn stjórnar er hversu hátt eða lágt þessi krúttvera flýgur og þarf að forða henni frá hnífsblöðum, sprengjum og fleiri stórhættulegum gildrum.

Skoða stiklu á YouTube | Skoða heimasíðu leiksins

 

BROTHERS: A TALE OF TWO SONS

Brothers

Á bakvið leikinn stendur sænska leikjafyrirtækið Starbreeze Studios sem gerði meðal annars Payday 2, Syndicate og The Darkness. Í Brothers: A Tale of Two Sons er farið í gegnum dramatíska þroskasögu tveggja bræðra sem er full af fegurð, spennu, drunga og ævintýrum. Útlit leiksins er hreint út sagt gullfallegt og nauðsynlegt að staldra stundum við í leiknum hreinlega til að dást af útsýninu sem blasir við söguhetjum leiksins. Sagan er góð og hefur augljóslega mikil vinna verið lögð í söguhluta leiksins. Spilun leiksins er nokkuð sérstök – en spilarinn stjórnar báðum bræðrunum á sama tíma – sem getur verið svolítill höfuðverkur til að byrja með en venst nokkuð fljótt. Í ferðum sínum þurfa bræðurnar að leysa margar þrautir með samvinnu og takast á við nýja hluti sem einstaklingar.

Skoða stiklu á YouTube | Skoða heimasíðu leiksins

 

DEVICE 6

Device6

Undirbúðu þig. Device 6 er ekki hefðbundni leikur, langt í frá. Mögulega mætti flokka þetta sem rafræna leikjabók frekar en hefðbundinn tölvuleik. Á bak við leikinn stendur sænska leikjafyrirtækið Simogo sem gerði meðal annars hryllingsleikinn Year Walk. Í Device 6 les spilarinn sig í gegnum spennandi og dularfulla sögu og þarf að leysa ýmis konar þrautir með því að nota myndir og texta í bókinni. Hér skiptir máli að vera með athyglina í lagi. Þetta er ekki leikur fyrir þá sem eru að leita eftir heilalausri afþreyingu – hér dugar fátt annað en tvöfaldur espressó og virkar heilasellur. Leikurinn nær að teygja vel á þolinmæðinni þar sem sumar þrautirnar geta verið nokkuð erfiðar. Þessi óhefðbundni leikur er ekki aðeins skemmtilegur, heldur líka ótrúlega flott dæmi um hvernig hægt er að tvinna saman texta og tölvuleik á nýjan og áhugaverðan hátt. Device 6 var valin besta norræna nýjungin á Nordic Game verðlaununum.

Skoða stiklu á YouTube | Skoða heimasíðu leiksins

 

EVE ONLINE

EVE_Online

Leikurinn kom fyrst á markað árið 2003 og er móðurskip íslenska leikjafyrirtækisins CCP. EVE er í þeim skilningi ekki nýlegur leikur en CCP er stöðugt að uppfæra leikinn og bæta við nýjum hlutum. Það má því segja að EVE Online árið 2014 byggi á sömu beinagrind og EVE frá árinu 2003, en mikið af nýju efni hefur litið dagsins ljós undanfarinn áratug og því nánast um nýjan leik að ræða. Það er ekki fyrir hvern sem er að spila EVE Online, en leikurinn er þekktur fyrir að gefa spilurum mikið frelsi. Það getur reynst flókið og tímafrekt að taka sín fyrstu skref í þessum risavaxna og gullfallega leikjaheimi sem samanstendur af yfir 500.000 áskrifendum, en ef þú ert fyrir fjölspilunarleiki er klárlega þess virði að prófa EVE. Leikurinn er án efa sá umfangsmesti – og tímafrekasti – á þessum lista, það er þó algjör óþarfi að skuldbinda sig alveg strax þar sem hægt er að sækja ókeypis 14 daga prufuútgáfu af leiknum hér. Leikurinn á sér langa sögu og er merkilegur fyrir svo ótrúlega marga hluti; til dæmis var leikurinn nýlega til sýnis á MoMA listasafninu í New York, einnig hafa orðið margir risabardagar sem hafa haft mikil áhrif á EVE heiminn og síðast en ekki síst býður leikurinn upp á svo mikla fjölbreyttni sem marga fjölspilunarspilara dreymir um.

Til gamans má geta að þá er virkur hópur á Facebook fyrir íslenska EVE og DUST spilara sem heitir Nýja Eden þar sem spilarar og starfsmenn CCP ræða um ýmislegt sem við kemur tölvuleikjum frá CCP.

Skoða stiklu á YouTube | Skoða heimasíðu leiksins

 

OCEANHORN: MONSTER OF UNCHARTED SEAS

Oceanhorn

Í Oceanhorn frá finnska leikjafyrirtækinu Cornfox & Brothers fer spilarinn með hlutverk hetju sem ferðast um fjölbreytt landsvæði í leit að ævintýrum með sverð og skjöld að vopni. Í leiknum þarf spilarinn að kanna ný svæði sem eru full á fjársjóðum og óvinum, ferðast um dimma hella, sigla á milli eyja og leysa nokkrar ekki-of-erfiðar þrautir. Leikurinn leynir á sér og er nokkuð umfangsmikill en Zelda spilarar eiga eflaust eftir að skemmta sér konunglega í þessum leik sem er stútfullur af ævintýrum – og björtum litum.

Skoða stiklu á YouTube | Skoða heimasíðu leiksins

 

QUIZUP

QuizUp

Flestir Íslendingar kannast eflaust við spurningaleikinn QuizUp frá íslenska leikjafyrirtækinu Plain Vanilla Games. Í leiknum geta spilarar skorað á vini sína og aðra QuizUp spilara í stutta spurningakeppni um allt milli himins og jarðar, en í QuizUp er að finna mörg hundruð spurningaflokka; þar á meðal um kvikmyndir, hrollvekjur, tölvuleiki, tónlist, vísindi og margt margt fleira. Frábær leikur til að drepa tímann í strætó eða í biðröðinni. Í leiknum getur þú svo skoðað mismunandi stigatöflur og séð hvaða spilarar eru með flest stig og hvar þú ert staddur/stödd á listanum. Þetta gerir leikinn enn skemmtilegri og hvetur þig áfram til að skora á vini og vandamenn í völdum spurningaflokkum.

Skoða stiklu á YouTube | Skoða heimasíðu leiksins

 

RESOGUN

Resogun

Þessi geim-skotleikur minnir óneitanlega á gamaldags spilakassaleik, nema þessi er í nýjum búningi. Spilarinn stjórnar geimskipi og hefur það hlutverk að bjarga fólki og sprengja andstæðingana með haug af endalausri skotarunu. Útlit leiksins er virkilega áhugavert eins og sést á myndinni hér fyrir ofan. Ég mæli sterklega með því að stilla hljóðið hátt til að gera upplifunina enn öflugri. Þetta er kannski ekki leikur til að spila stanslaust í marga klukkutíma í senn en spilunin er stórskemmtileg. Það er finnska fyrirtækið Housemarque sem gerðir leikinn og til gamans má geta þá var Resogun valinn besti norræni leikurinn á Nordic Game verðlaunaafhendingunni í ár.

Skoða stiklu á YouTube | Skoða heimasíðu leiksins

 

STEAMWORLD DIG

Steamworld_dig

Steamworld Dig kemur frá sænska leikjafyrirtækinu Image & Form Games. Til gamans má geta þá er Íslendingurinn Brjánn Sigurgeirsson einn af eigendum fyrirtæksins og starfar sem forstjóri þess í dag. Í leiknum stjórnar spilarinn vélmenni sem þarf að grafa sig djúpt ofan í jörðina í leit að fágætum eðalsteinum, uppfærslum og ævintýrum. Til að byrja með er vélmennið með einfaldann haka til að höggva sér leið niður í jörðina en með tímanum verða óvinir, steinar og önnur efni á vegi hans og þarf hann þá að selja hluti til að kaupa uppfærslur og halda greftrinum áfram. Leikurinn nær að halda spilaranum forvitnum og áhugasömum út leikinn. Því dýpra sem vélmennið kemst því erfiðari verða andstæðingarnir og breytist umhverfið í takt við það. Leikurinn er heldur einfaldur en þó krefjandi á köflum, og leynast nokkrir góðir brandarar á leiðinni, til dæmis þetta snilldar skot sem sést á myndinni hér fyrir ofan um hina eilífu bið eftir Half-Life 3.

Skoða stiklu á YouTube | Skoða heimasíðu leiksins

 

STICK IT TO THE MAN!

Stick_it_to_the_man

Sænska fyrirtækið Zoink Games er með þessa samblöndu af hopp-og skoppleik og pikköppleik með skemmtilegu tvisti. Spilarinn stjórnar seinheppnum „Pappírs Pésa“ sem öðlast þann hæfileika að geta lesið hugsanir fólks. Með þvi að hlusta á samtöl, lesa hugsanir, leysa þrautir, finna hluti og púsla hlutunum rétt saman vinnur spilarinn sig hægt en örugglega áfram í gegnum þennan leik, sem má segja að sé ansi súrealískur á köflum. Húmor er áberandi í leiknum auk þess sem pappaspjalda-útlit leiksins kemur mjög vel út.

Skoða stiklu á YouTube | Skoða heimasíðu leiksins

 

THE SWAPPER

The_Swapper

Frábær þrautaleikur! Spilarinn stjórnar geimfara sem þarf að leysa þrautir með því að klóna sjálfan sig. Til að byrja með eru þrautirnar einfaldar en leikurinn nær að kitla heilasellurnar vel á völdum köflum. Ef þú elskar góða og óhefðbundna þrautaleiki þá ættir þú klárlega að kíkja á The Swapper frá finnska leikjafyrirtækinu Facepalm Games.

Skoða stiklu á YouTube | Skoða heimasíðu leiksins

 

Finnst þér vanta leik á listann?

Deildu honum þá með okkur í kommentakerfinu hér fyrir neðan!

Forsíðumynd: Brothers: A Tale of Two Sons

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
leikjanörd og ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑