Bíó og TV

Birt þann 9. september, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

Kvikmyndarýni: Edge of Tomorrow

Kvikmyndarýni: Edge of Tomorrow Nörd Norðursins

Samantekt: Þessi mynd skammast sín ekkert fyrir að vilja bara skemmta þér.

4

Góð skemmtun


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Benedikt Jóhannesson skrifar:

Hvað ef Bill Murray hefði verið í miðju stríði þegar hann upplifði sama daginn aftur og aftur í Groundhog Day?

Maður sem er ekki fæddur stríðsmaður, er frekar sjálfumglaður sjálfs-sölumaður, vantar merkilegar tengingar í líf sitt til að gera það þess virði að lifa því. Þessi atburðarás er ekki alls ólíkt því sem Bill Cage (Tom Cruise) lendir í í kvikmyndinni Edge of Tomorrow. Bill er sölumaður stríðsins gegn geimverunum, sem birtust á lofsteini fyrir nokkrum tíma síðan. Hann mætir í viðtöl við þær sjónvarpsstöðvar sem eru ennþá starfræktar og hvetur fólk, með sínu Colgate brosi, til að skrá sig í herinn, gera sitt fyrir mannkynið.

Þetta breytist allt á svipstundu þegar hann lendir í hershöfðingjanum Brigham (Brendan Gleeson, í engu stuði til að hlusta á bull), sem ætlar að senda Bill Cage beint á víglínuna til að sinna útsendingum þaðan. Og ólíkt flest öllum myndum sem Tom Cruise hefur leikið í, þá er karakterinn hans ekki fædd hetja, heldur er hann eins og flest fólk myndi vera þegar það er beðið um að eyða of miklum tíma í nærveru geimvera sem eiga sér bara eitt áhugamál, sem er að drepa allt mannfólk. Hann er skít-lafandi hræddur og reynir meira að segja að koma sér út úr skyldu sinni (æðislega ólíkt þeirri ímynd sem Tom Cruise labbar inn í allar myndir með).

Það hinsvegar leiðir bara af sér ennþá verri örlög, hann er sjanghæ-aður á næstu herstöð, og skyldaður í framlínuna sem fótgönguliði, í fremstu víglínu. Í stóru árás mannkynsins gegn geimverum, sem ætla sér tortímingu okkar allra, þá deyr Bill Cage heldur grófum dauðdaga, en honum tekst að drepa eina stóra og sérstaklega ljóta veru í leiðinni, og lætur lífið með blóð hennar yfir sér öllum.

Því næst vaknar hann aftur á herstöðinni, einum degi fyrr, og tíma-hringrás hans hefst.

Edge_of_Tomorrow_01

Doug Liman, leikstjóri myndarinnar, kom undirrituðum heldur betur á óvart með gæði þessarar myndar. Liman, sem byrjaði feril sinn á gegnheilum skemmtimyndum eins og Swingers (1996), Go (1999) og The Bourne Identity (2005), hefur ekki átt áhugaverða mynd síðan hann sat við stjórnvölinn á Mr. & Mrs. Smith (2005), en síðustu 2 myndir hans voru einstaklega óáhugaverðar og flatar, þær Jumper (2008), sem skartaði Hayden ‘Darth þó þú viljir ekki viðurkenna það Vader’ Christensen, og svo Fair Game (2010), sem var á engra manna radar, og ég hef aldrei heyrt neinn minnast á þessa mynd á einn eða annan hátt. Sem er höfuðsyndin ofar öllu, að vera leiðinlegur.

Edge of Tomorrow er þétt, fyndin, nægilega alvarleg og heiftarlega skemmtileg ofar öllu. Tom Cruise er æðislegur sem Bill Cage, og það er mjög gaman að fá að fylgjast með honum gera mistök á mistök ofan meðan hann lærir hvernig skal takast á við geimverurnar. Það verður allt mun mannlegra fyrir vikið, að sjá mistökin hjá Cage, í stað þess að vera í Mission Impossible 2 stemningu, þar sem hann sparkar í sand og það birtist byssa í hendinni á honum, og allir bílar springa við smá klessu og mótórhjól keyra bara um á fremsta hjólinu. Einstaklega hressandi að sjá mannlegan Cruise.

Edge_of_Tomorrow_02

Emily Blunt er staðföst sem Rita ‘Full Metal Bitch’, en hún er „poster-woman“ fyrir stríðið, hennar andlit er notað til að fá menn í herinn, þar sem hún var aðalhermaðurinn í eina sigri mannfólks gegn geimverunum sem komið hefur. Blunt hefur alveg sýnt það að þarna er á ferð leikkona sem getur höndlað hlutverk af hvaða kaliber sem er, hvort sem það eru hlutverk sem krefjast gæsku / hlýju, eða þó nokkrar hörku, enda sjaldan sem nokkur leikkona hefur fengið að vera jafn vond við Tom Cruise í bíómynd í fullri lengd.

Geimverurnar sjálfar voru skemmtilega hannaðar að því leyti að þær hafa ekki 2 lappir og 2 hendur, höfuð og augu framan á andlitinu eða hvaðeina. Þessi sígilda Star Trek-lega sýn á geimverur er notuð helst til of oft. En engu að síður þótti mér pínu leiðinlegt hvað þær voru látnar hreyfa sig ó-eðlilega hratt, þessi kvikindi. Eins og með hreyfingar geimveranna í Cowboys & Aliens, þá voru geimverurnar í þeirri mynd rosalega stórar og luralegar, en gátu engu að síður skoppað út um allt og hreyft sig af vild þrátt fyrir þyngdarafl jarðarinnar. Sama kom uppí hugann á mér við áhorf á þessari mynd, að ef geimverur kæmu til jarðar, þá hlytu þær að þurfa að hlúta að sömu lögmálum og við. Og jú, við erum t.d. með snáka á jörðinni sem hreyfa sig hratt, en þó ekki svona hratt. það er eins og það fyrsta sem að menn gleyma þegar þeir tölvugera geimverur þar sem þeir styðjast ekki við „mo-cap“ (motion capture, eins og Gollum var gerður) er að setja þyngdarafl í geimverur. En burtséð frá því þá litu þær mjög vel út, og voru frumlega hannaðar útlitslega.

Edge_of_Tomorrow_03

Hefði kannski líka mátt koma fram af hverju geimverurnar væru að gera það sem þær gera. Það er miklu skemmtilegra, og raunverulegra, þegar hinir svokölluðu vondu kallar hafa baksögu, og ástæðu fyrir því sem þeir gera.

Æðislegt var að sjá góðvin okkar allra Bill Paxton poppa þarna upp í tiltölulega litlu hlutverki, en hann skilar alltaf sínu (úr hvaða mynd? – Game over man, game over…)

Þessi kvikmynd svipar til Guardians of the Galaxy með það, að það eina sem hana langar að gera er að skemmta þér. Hún stoppar ekki tempó-ið fyrir óþarfa útskýringum, heldur er bara haldið raklaust áfram með framvinduna, og þessi mynd skammast sín ekkert fyrir að vilja bara skemmta þér. 

Fjórar stjörnur af fimm mögulegum.

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑