Íslenskt

Birt þann 15. september, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Haustráðstefna Advania 2014

Á föstudaginn sl. var haustráðstefna Advania haldin í 20. sinn og í þetta sinn í Hörpu. Margir voru á ráðstefnunni og samkvæmt Gesti S. Gestssyni framkvæmdarstjóra í opnunarræðu þá var fjöldinn um 1.100 manns.

Magnús Scheving var með skemmtilegan fyrirlestur, enda þaulvanur fyrirlesari, og fór yfir margt varðandi sýn sína á viðskiptaheiminum. Meðal þess sem hann fjallaði um var mikilvægi þess að hafa vel úthugsaða fyrirtækjaímynd (branding), muninn á ungu og eldra starfsfólki, mikilvægi liðsanda og samvinnu (pro tip: ef þú sérð vatnsglas á klósettinu á vinnustaðnum, farðu með það inn í eldhús), hættuna við ofhrós þ.e.a.s. að hrósa ekki börnum í hástert fyrir allt sem þau gera, því að skellurinn verður þá mikill þegar komið er á vinnumarkaðinn og margt fleira. Að sjálfsögðu var komið inn á mikilvægi heilsu og næringar þar sem hann benti á margt sem betur mætti fara í vestrænu þjóðfélagi svo sem þá staðreynd að öll stóru merkin með barnaskemmtiefni setja nafn sitt á sælgæti en Lazytown vörumerkið er eitt af fáum sem gerir það ekki, jafnvel það eina. Að endingu voru ráðstefnugestir látnir taka nokkur íþróttaálfaspor og ef það er ekki frábær byrjun á degi þá veit ég ekki hvað.

Haustradstefna2014_magnus

Áhugaverðasta fyrirlestrarlínan að mati undirritaðs, a.m.k. fyrri hluta dags var Öryggi og Tækni (hinar voru Stjórnun og Reynsla og Nýsköpun). Einnig voru nokkrar lykilræður ætlaðar öllum. Sú fyrsta á Öryggis- og Tæknilínunni var frá Syndis. Theódór R. Gíslason kom með mjög sláandi niðurstöður hvað varðar öryggi útstöðva þ.e.a.s. tölva hjá starfsmanni fyrirtækis. Þessi starfsmaður, sem er jú við öll, er hægt að plata til að komast inn um bakdyrnar að gögnum og kerfi fyrirtækisins. Ein talan sem kom upp var að 71% útstöðva/tölva eru ekki uppfærðar nógu reglulega og teljast því sem alvarlegir öryggisgallar eftir kerfisuppfærslu. Stutt niðurstaða þeirra var þessi:

1. Íslendingar eru of ginnkeyptir
(ýta á tengla í ótraustverðugum póstum, sérstaklega ef vísað er til félagsmiðils eins og Facebook).
2. Skortir viðbrögð við árás.
3. Öryggi útstöðva afleitt.

Chuck Esposito frá Cyber Division FBI fór gróflega yfir helstu tegundir tölvuglæpa og benti sérstaklega á hættuna ef hakkarar taka yfir svokölluð „Control systems“ þar sem tölva stjórnar einhverju kerfi og geta þannig valdið stórfelldum truflunum s.s. rafmagnstruflunum, sambandsleysi, niðurtíma og í versta falli dauðsföllum. Heilmikill markaður er fyrir tölvuglæpi og hægt er að leigja hakkara eða kaupa t.d. „zero-day exploits“ þar sem hakkari hefur fundið villu í einhverju forriti fyrir upphafsdag og því er öruggt að engar vírusvarnir eða aðgerðir ráða við hana. Chuck nefndi líka „Swatting“ sem þeir sem fylgjast með tölvuleikjaheiminum kannast kannski við en það er þegar algjörlega veruleikafirrtir einstaklingar hringja í lögregluna, segjast vera með heilt vopnabúr, búnir að drepa mann og annan og gefa upp heimilisfang. Auðvitað er þetta heimilisfang hjá einhverjum öðrum sem hefur gert eitthvað á hlut fyrrnefnda í t.d. Counterstrike. Herbúnir lögreglumenn brjóta svo upp hurðir og munda sjálfvirkum vopnum á einhvern 17 ára strák.

Matt Mahvi frá Staminus Communications fjallaði um DDOS árásir þ.e.a.s. Distributed Denial of Service þar sem tilgangurinn er að leggja tölvukerfi á hliðina því að niðurtími í dag kostar mikla peninga. Athyglisvert var að ástæður niðurtíma eru í fyrsta lagi bilun í búnaði en í öðru lagi einmitt tölvuglæpir eins og DDOS árásir.

Farið var á fyrirlestur hjá Gemalto (Eskil Crag) þar sem talað var um snertigreiðslur sem eru þegar í gangi á mörgum stöðum. Þannig greiðslur taka 1 sekúndu á meðan hefðbundin greiðsla með PIN tekur um 15 sekúndur. Gallinn er öryggið, ef kortinu er t.d. stolið, og því er á flestum stöðum hámark eins og 20 evrur. Framtíðin virðist samt liggja í einhverri útgáfu af þessu, hvort sem það er örgjörvalímmiði sem maður setur aftan á símann sinn eða úrið.

Haustradstefna2014

Jesper Ritsmer frá Google og Jim Grubb frá Cisco

Fyrsta lykilræða eftir góðan hádegismat (fínasta úrval af köldu kjöti, fiski o.fl.) var flutt af Jesper Ritsmer frá Google. Hann fór stuttlega yfir stöðu Google á markaðnum (2 milljarður notar Google tól í hverri viku og þar af 1 milljarður Gmail) og þeirra sérstöðu. Áhersla var lögð á hvernig þeir geta hjálpað fyrirtækjum (kallast „going Google“) og þar sem þeir geta sameinað marga hluti eins og tölvupóst, kortaþjónustu og geymslupláss svo eitthvað sé nefnt, þá leit þetta ekki út fyrir að vera alslæmur kostur. Það hefði verið gaman að heyra samt meira um öryggi gagna og hvort Google ætti líka gögn fyrirtækja ef þeir notuðu þjónustur þeirra. Þeir virtust vera að stíla á minni fyrirtæki. Einnig talaði Jesper um velgengni Android og kom með smá kynningu á þjónustu sem var nákvæmlega eins og Siri frá Apple, bara Google.

Næsta lykilræða kom frá Jim Grubb frá Cisco og fjallaði um „The Internet of Everything“. Hugmyndin á bak við þetta er að 99% af öllu í umhverfinu okkar gæti verið tengt tölvuneti en er það ekki. Cisco hefur þá framtíðarsýn að nemar séu á öllu og þetta skapi ótal viðskiptatækifæri. Tökum bílastæði í einkarekstri sem dæmi; nemi gefur upplýsingar um nýtingu og eigandi getur gefið afslátt af illa nýttum stæðum en hækkað verðið á vinsælum stæðum og jafnvel sett þau í uppboð og sá sem borgar mest fær stæðið! Hægt væri að hafa nema á astmalyfi þannig að ef einhver fær kast þá getur hann ýtt á hnapp sem sendir eftir sjúkrabíl með staðsetningu og kannski fleiri upplýsingum. Hægt væri að setja nema á lestarvagna til að sjá hvort að hjólin væru að skemmast og skipta um áður en þetta kostaði tafir (Jim var annar aðilinn sem benti á það hve niðurtími kostaði gífurlega mikinn pening í nútímaþjóðfélagi). Þetta er athyglisverð sýn á veröldina og Cisco metur arðvænleika upp á 19 trilljónir Bandaríkjadala.

Unglingurinn

Arnór og Óli Gunnar

Næst á dagskrá hjá greinarhöfundi var hressandi leiksýning eftir unglingana Arnór Björnsson og Óla Gunnar Gunnarsson. Leiksýningin (sem kom mörgum í opna skjöldu þar sem fólk bjóst við fyrirlestri) bar nafnið Notendur nútímans og starfsmenn framtíðarinnar. Þetta var innsýn á léttu nótunum hvernig unga kynslóðin lifir með tækni í dag, það góða og líka það ekki svo góða. En bak við grínið var greinilegt að þetta voru mjög skarpir strákir, sem vissu meira en þeir þóttust vita, og sjarmeruðu salinn upp úr skónum.

Sem Apple notandi þá fór ég á fyrirlesturinn sem bar heitið „iOs and the new IT“. Fyrirmælin frá Apple í byrjun voru að það var bannað að taka myndir sem var í raun óskiljanlegt því að fyrirlesturinn var ein auglýsing í gegn (aðallega hversu margir geirar nota iPad/iPhone í vinnu sinni s.s. flugstjórar). Auðvitað eru flestir fyrirlestrar auglýsing að einhverju leyti en þarna keyrði þetta um þverbak. Fyrirlesarinn drekkti gestum í stikkorðasúpu og myndum af brosandi fólki með vinnuhjálma að nota iPad. Þetta voru talsverð vonbrigði þar sem maður býst alltaf við meira af Apple.

Nokkrir áhugaverðir fyrirlestrar komu frá fyrirtækjum sem voru ekki í tæknigeiranum en nýttu tæknina að miklu leyti og greinarhöfundur kíkti á fyrirlestra Slysavarnarfélagsins Landsbjörg, Isavia ofh. og Landspítalans/Háskólinn í Reykjavík. Sá síðastnefndi var áhugaverður fyrir þær sakir að læknar geta notað 3D útprentuð módel af hjarta eða heila til að undirbúa sig fyrir flóknar aðgerðir.

Rúsínan í pylsuendanum var svo lykilræða Þorsteins B. Friðrikssonar, stofnanda og eiganda Plain Vanilla Games. Hann fór yfir sögu sína sem athafnamaður áður en hann sló í gegn með QuizUp þegar Vanilla Games voru bara 3 starfsmenn (yfir 70 í dag). Ekki var auðvelt að fá fjárhagslegan stuðning á þessum upphafsárum og sum metnaðarfull verkefni eins og The Moogies fengu stóran skell þegar kom að sölutölum. En fyrirtækið sankaði að sér heilmikilli reynslu og skilaboð Þorsteins voru sú að fjárfestar ættu að líta á reynsluna en ekki skellinn. Þorsteinn lumaði á nokkrum mjög skemmtilegum sögum og þetta var ágætis endir á fínni ráðstefnu.

Haustradstefna2014_04

 

Höfundur er Steinar Logi Sigurðsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑