Íslenskt

Birt þann 29. júlí, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Býr til myndasögu um Djáknann á Myrká – Viðtal við Söndru Rós Björnsdóttur

Sandra Rós er einn af pennum Nörd Norðursins og þekkja lesendur okkar  hana trúlega best sem höfund myndasöguseríunnar Ofvitar. Sandra fór nýlega af stað með fjármögnun á Kickstarter þar sem hún stefnir á að fjármagna nýja myndasögu um Djáknann á Myrká. Að þessu tilefni heyrðum við aðeins betur í henni Söndru og forvitnuðumst aðeins nánar um bakgrunn hennar og verkefnið.

 

Hver er Sandra Rós?

Það er ég! Hæ! – Án djóks þá er ég frá Reykjavík en bý akkurat núna í San Francisco þar sem ég er ný útskrifuð úr listaháskóla. Veit ekki hvað ég mun gera það sem eftir er lífsins en vonandi inniheldur það að teikna daginn út og daginn inn því það er eitthvað sem ég geri hvort eð er.

 

Nýlega birtist viðtal við þig í Fréttablaðinu og Mogganum þar sem fjallað var um Kickstarter verkefnið þitt, geturu sagt okkur aðeins frá því verkefni?

Djakninn_a_myrka_01Ég er að búa til myndasögu um Djáknann á Myrká en vantar nauðsynlega fjármögnun til þess að koma þessu í prentun ásamt því að fá smá athygli á myndasöguna sjálfa. Ég hef verið að leika mér að teikna persónur og hanna útlit myndasögunnar í ár og fannst vera kominn tími til að gera eitthvað úr því. Svo ég teiknaði 20 af 24 blaðsíðum á einum sólahring meðan „24h Comic Book Day“ var í gangi í október. Síðan þá hafa þessar blaðsíður endað í ruslinu en þráin að gefa út góða, fallega og hryllingslega sögu var ennþá í mér svo ég teiknaði söguna uppá nýtt. Djákninn er mjög einföld og stutt saga svo ég lagði mikla áherslu á sterkan stíl og að andrúmsloft sögunnar væri drungalegt. Djákninn er eitthvað sem ég er mjög stolt af og vil deila með öðrum.

Ef við náum markmiðinu þá getum við prentað og selt myndasöguna í búðum og ráðstefnum. Mig langar líka að senda eintök á nokkra þekkta einstaklinga í bransanum. Veit einhver hvar Neil Gaiman á heima?

 

Hvers vegna Djákninn í Myrká?

Vegna þess að þetta er ein þekktasta draugasaga landsins og allir virðast elska þessa sögu, þar á meðal ég. Samt er þessi saga ekki þekkt utan Íslands. Hví þá ekki að aðlaga söguna svo að fólk hafi betri aðgang að henni, jafnvel selja hana í harðkápu ásamt öðrum sögum eins og Búkollu? Það hafa verið heilmargar aðlaganir af Djáknanum nú þegar en ég held að ég sé sú fyrsta sem geri myndasögu. Sem er skrítið þar sem þetta er frekar auðveld saga að aðlaga.

 

Hver er þinn bakgrunnur í myndasögum? Myndiru skilgreina þig sem myndasögunörd?

Svalur_og_ValurÞegar ég var barn hafði ég ekki enn lært að lesa þegar ég lauk öðrum bekk svo mamma kenndi mér yfir sumarið. Sem verðlaun fékk ég áskrift að Andrés Önd og safnaði blöðunum í sirka 8 ár. Seinna meir fékk ég áskrift af Zetu en fyrir utan það las ég bara þessar fáeinu frönsku-belgísku myndasögur sem voru þýddar á Íslandi eins og Svalur og Valur og M2, Chartreux-fjársóðurinn. Það fór svo í taugarnar á mér að geta aldrei lesið allar bækurnar í hverri seríu því að þær voru ekki þýddar. Ég hef alltaf haft áhuga á myndasögum og bjó til nokkrar sjálf sem krakki en ég las samt aldrei neitt af frægu myndasögunum eða ofurhetjublöðunum. Var mest í vefmyndasögum þar til ég flutti út. Þá ég tók áfánga þar sem ég las myndasögur, fór að kynnast fólki sem vann í bransanum og fór að tékka á myndasögubúðum svo ég gæti styrkt uppáhalds seríurnar mínar. Fór reyndar í dag í Mission: Comics & Art og fékk Adventure Time: Playing with Fire myndasöguna mína áritaða eftir enga aðra en Danielle Corsetto (Girls With Slingshots).

Ég á erfitt með að kalla sjálfa mig myndasögunörd því að mér finnst það vanti ennþá nokkra áratugi af lestri áður en það sé hægt. Sérstaklega því ég hef ennþá ekki lesið nærri því nógu mikið af frægu myndasögunum. Kannski breytist það þegar ég les loksins Sandman

 

Hver er uppáhalds myndasagan þín?

Hmm… erfitt að segja. Saga eftir Brian K. Vaughan og Fionu Staples er uppáhalds myndasagan sem er í prentun, Nimona eftir Noelle Stevenson er uppáhalds vefmyndasagan sem er í gangi akkurat núna. Hanna is not a boy’s name eftir Tessu Stone er líklega mest uppáhalds þar sem ég bíð ennþá spennt eftir meira efni þó að hún hafi verið í óformlegri pásu í fjögur ár.

 

Hvernig hefur gengið að fjármagna verkefnið hingað til og hvernig geta áhugasamir fjárfest í verkefninu?

Verkefnið hefur gengið frekar vel miðað við að ég er ekki fræg. Við eigum 3 daga eftir af fjáröfluninni en vantar ennþá sirka $300 til að ná markmiðinu. Ef við náum því ekki, verður bókin líklega ekki prentuð. Fólk getur nálgast söguna á Kickstarter með því að leita eftir Djáknanum á Myrká (eða „Deacon of Darkriver“), svo velur fólk sér „pakka“ sem það vill kaupa, velur fjárhæð og borgar í gegnum Amazon. Djákninn er til á ensku og íslensku.

 

Kærar þakkir fyrir viðtalið Sandra og við óskum þér góðs gengis með þetta áhugaverða verkefni!

Takk fyrir. Þetta verður tæpt en krossum fingur að við náum markmiðinu. Það væri líka frábært ef fólk keypti eintök.

 

Skoða verkefnið á Kickstarter

 

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
leikjanörd og ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑