Íslenskt

Birt þann 7. maí, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Myndasögusýning Jan Pozok í myndasögudeild Borgarbókasafnsins

Föstudaginn 9. maí, kl. 16, verður opnuð myndasögusýning á verkum listamannsins Jan Pozok. Jan Pozok eða Jean Posocco eins og hann heitir réttu nafni er fæddur í Frakklandi 1961. Hann hefur myndskreytt barnabækur síðan 1989. Þekktasta bókaserían sem hann hefur teiknað er Krakkarnir í Kátugötu sem Samgöngustofa gaf út fyrst 2004, en henni er dreift í alla leikskóla á landinu.

TimaflakkararHann setti fyrsta myndasögunámskeiðið á Íslandi af stað árið 1995 í litlum einkareknum myndlistaskóla, Listaskólanum við Hamarinn, í Hafnarfirði. Hann tók við útgáfu hasarblaðsins Blek árið 1997 og hefur haldið ótrauður áfram að gefa það út undir öðru nafni, NeoBlek, og hafa 25 tölublöð séð dagsins ljós. Úrg Ala Buks Unum, Rakkarapakk og Skuggi Rökkva eru myndasögubækur sem hann hefur teiknað. Auk þeirra hafa birst myndasögur eftir hann í dagblöðum og tímaritum.

Árið 2013 byrjaði útgáfufyrirtæki hans Froskur að gefa út þýddar myndasögubækur. Þetta eru þrjár seríur sem nefnast Tímaflakkarar, Lóa og Svalur og Valur, en nýjar þýddar myndasögubækur hafa ekki komið út að neinu ráði undanfarin þrjátíu ár. Froskur útgáfa mun fjölga titlum á næstu árum.

Á sýningunni, sem staðsett er í aðalsafni Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15, í myndasögudeild á annarri hæð, má finna ýmis dæmi um myndasögur listamannsins, aðallega þó úr bókunum þremur.

Sýningin stendur út júlímánuð.

– Fréttatilkynning frá Borgarbókasafni Reykjavíkur
Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑